BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX 2021: Víkingur – Breiðablik

14.05.2021 image

Það er þétt spilað í Pepsi Max. Fjórða umferð Pepsi MAX karla 2021 fer fram á sunnudag og mánudag. Á sunnudagskvöld heimsækir Blikaliðið nágranna okkar í Fossvoginum. Flautað verður til leiks kl.19:15 á Víkingsvelli. Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Svona lítur stöðutaflan út eftir 3 umferðir:

image

Sagan

Liðin hafa mæst alls 84 sinnum í opinberri keppni frá fyrsta innbyrðis leik liðanna árið 1957. Tölfræðin fellur með Blikum sem nemur einum leik – 2:4 sigurleiknum í Víkinni í fyrra. Síðari leikurinn 2020 var ekki spilaður. Hann varð eftir þegar mótið var flautað af vegna Covid-19. Meira>

Innbyrðis leikir

Yfirlit: Efsta deild  – 44 leikir (14-15-15). Næst-efsta deild – 22 leikir (8-4-10). Bikarkeppni KSÍ – 10 leikir (4-2-4). Deildarblikar KSÍ – 8 leikir (6-1-1).

Breiðabliksmenn byrjuðu að sparka bolta árið 1957. Það ár lék liðið aðeins 4 mótsleiki og 1 þeirra var gegn Víkingum. Leikurinn, sem fór fram á Melavellinum 17.7.1957 – sem þá var heimavöllur Víkinga - tapaðist 6:2. Meira>

Tölfræðin frá þessum fyrsta mótsleik er jöfn. Blikar hafa unnið 32 leiki, Víkingar 31, jafnteflin eru 21. Meira>

Efsta deild frá upphafi

Í efstu deild eru innbyrðis leikirnir 44. Víkingar leiða þar með með einum sigri: 15 sigrar gen 14 og jafnteflin eru 15.

Efsta deild frá 2000

Frá árinu 2000 hafa lið Breiðabliks og Víkings R. mæst 20 sinnum í efstu deild. Jafnt er á flestum tölum. Blikar hafa sigrað 8 viðureignir, Víkingar 6 og jafnteflin eru 6. Samtals skora liðin 70 mörk í efstu deild frá árinu 2000 sem skiptast nokkuð jafnt. Blikar hafa skorað 36 mörk, Víkingar 34. Leikir liðanna eru gjarnan miklir markaleikir. Úrslit eins og t.d. 2:6, 2:2, 4:1, 4:1, 3:1, 2:4, 3:2 eru gjarnan lokaúrslit.

Síðustu 5 í deild í Víkinni

Leikmenn

Í félagaskiptaglugganum í fyrra skrifaði Atli Hrafn Andrason undir samning við Breiðablik. Atli, sem er uppalinn hjá KR, kom til Víkinga frá Fulham fyrir keppnistímabilið 2018. Atli náði sér ekki á strik hjá hjá okkur og gerði langtímasamning við ÍBV fyrr í vikunni sem er að líða. 

Í janúar söðlaði bakvörðurinn sterki Davíð Örn Atlason um og skrifaði undir þriggja ára samning við Breiðabliksliðið en hann lék 123 leiki fyrir Víkinga á árunum 2012 og 2015 - 2020. Nánar hér.

Í febrúar var tilkynnt um lá n okkar manns Karls Friðleifs Gunnarssonar í Fossvoginn keppnistímabilið 2021. Nánar hér.

Kwame Quee hefur leikið með báðum liðum. Hann lék með Víkingsliðinu á láni seinni hluta móts 2019 og aftur 2020. Kwame gerði starfslokasamning við Blika í fyrra en hefur nú samið við Reykjavíkur Víkinga.

Og í þjálfarteymi Víkinga er maður sem Blikar þekkja vel. Hajrudin Cardaklija, markvarða þjálfari hjá Víkingi, á 107 leiki með Breiðabliki á árunum 1992 til 1996.

Leikmannahópur Blika keppnistímabilið 2021:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 4. umferðar er fyrst og fremst Augnabliki þar sem hann spilar með þeim í 3. deildinni. "Sjálfur er ég bara ungur drengur alinn upp á götum Hamraborgar. Jú passar, þetta eru sömu götur og gáfu ykkur Erp, Birni, Joe Frazier og fleiri harða, einnig fundum við Herra Hnetusmjör á þessum slóðum. Þetta er staðurinn þar sem íslenskt rapp var manifestað og ég hef kosið að lifa lífsstíl sem er í samræmi við göturnar sem gerðu mig að manni." Tenging SpáBlikans við Víkinga er að hans sögn einföld: "Ég á alltof marga vini sem eru linir Víkingsmenn, því miður."

Freyr Snorrason: Hvernig fer leikurinn?

Keflavíkurleikurinn var flottur og ég tel að við fylgjum honum vel eftir. Víkingar hafa bakkað nokkuð frá sinni hugmyndafræði um að fótbolti eigi að vera skemmtilegur og leita frekar að úrslitum þessi dægrin. Þeir munu því líklega falla aðeins neðar á völlinn og reyna á skyndisóknir gegn okkur ásamt því að pressa í markspyrnum. Við munum standa það af okkur!

Mosfellingum líður oftast einstaklega vel í Fossvoginum og því munu Anton og Róbert Orri harðlæsa öllum aðgangi að markinu. Þeim sem líður enn betur í Fossvoginum eru auðvitað danskir útborgarmenn. Þeir skipulögðu hverfið fyrir Reykjavíkurborg Geirs Hallgrímssonar og nú 59 árum síðar mun Suður-Jóti að nafni Mikkelsen halda uppteknum hætti. Partýið hans mun halda áfram og enn mun Viktor Karl aðstoða hann við að troða mörkunum inn. Leikar enda 2-0 og við skorum bæði á markið sunnan megin í Víkinni það sem er samkvæmt helstu landamerkjabækum inn á landi Kópavogs, a.m.k. inn á áhrifasvæði Kópavogs.

image

Freyr Snorrason er SpáBliki 4. umferðar.

Dagskrá

Almenn miðasala fara fram í gegnum Stubb. Selt verður í B og C hólf.

image

Að ofan má sjá mynd af hólfaskiptingu á leiknum, en mikilvægt er að allir sitji í sínum merktu sætum og gæti að fjarlægðarmörkum. Þá minnum við á að grímuskylda er á leiknum. Við vekjum sérstaka athygli á því að samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra telja 6 ára og eldri þegar kemur að samkomutakmörkunum. Af þeim sökum munu börn á þeim aldri ekki geta fylgt foreldrum sínum á leikinn nema með aðgöngumiða. Börn fædd árið 2015 og síðar telja ekki.

Flautað verður til leiks kl.19:15 á Víkingsvelli. Leikurinn verður sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Klippur í boði BlikarTV frá síðustu heimsókn okkar manna í Víkina.

Til baka