BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góð uppskera !

14.08.2018

Blikar skruppu yfir Kópavogshálsinn og alla leið inn í Blesugróf  í fimmtándu umferð PEPSI deildarinnar. Veður var prýðilegt. Milt, sólarlaust og hægviðri. Hiti 14°C en skyggni misgott og fór eftir því hversu heitt var í kolunum á grillinu. Það er mikið eldað í Víkinni, og mikið talað í míkrófóninn.  Áhorfendur rétt innan við þúsundið og flestir á bandi okkar manna. Semsagt gott. Það er haft fyrir satt að spaugari nokkur hafi sett niður kartöflugrös fyrir aftan annað markið í Víkinni í vor og það líti þokkalega út með uppskeru ef grösin falla ekki of snemma. Þetta sá maður ekki úr stúkunni, en ,,völlurinn“, ef völl skyldi kalla er alltént miklu líkari kartöflugarði en knattspyrnuvelli og er það með ólíkindum að KSÍ, með sitt leyfiskerfi sem útlistar hversu mörg klósett, sæti með þaki og ég veit ekki hvað og hvað, skuli ekki gera lágmarkskröfu til ástands vallar í efstu deild. Mér er sagt að völlurinn hafi aldrei verið betri þetta árið en í gær. Kartöflugarður er réttnefni á þessu fyrirbæri sem glaðbeittir heimamenn kalla ,,heimavöll hamingjunnar“.

Leikskýrsla: ksi.is og urslit.net

Heimamenn byrjuðu þenna leik af krafti og það var greinilegt að þeir ætluðu að selja sig dýrt, enda uppskera þeirra undanfarið með rýrasta móti. Okkar menn virtust alveg ónæmir fyrir atgangi gestanna og reyndu að leika á milli sín eins og þeir væru á stofugólfinu heima hjá sér en ekki í kartöflugarðinum. Fyrir vikið voru sendingar ónákvæmar og villtust af leið og eftir því sem á leið, lentu okkar menn æ oftar í vandræðum með að halda boltanum. Þetta skapaði mikið óöryggi og það einhvern veginn hægðist á öllu liðinu, og við náðum ekki að ógna að neinu ráði. Heimamenn gengu á lagið og voru mun hættulegri í sínum aðgerðum og náðu að komast í álitlegar stöður hvað eftir annað. Spiluðu einfalt en af miklum krafti. Það er oft betra. Blikar áttu sína spretti en þeir voru fáir og stuttir. Skoruðu svo mark sem var dæmt af. Sennilega réttur dómur. Víkingar voru harðir í horn að taka og brutu mikið af sér og stundum gróflega og komust upp með að klippa Gísla niður aftan frá í tvígang í fyrri hálfleik. Annar brotamaðurinn slapp við gult spjald og var það með ólíkindum og hinn slapp við rautt þegar hann stökk aftan á hásinina á Gísla. Það er alveg með ólíkindum að leikmenn séu ekki verndaðir gegn svona óþverrabrotum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gísli fær þess meðferð og örugglega ekki í síðasta sinn því þetta er bara leyft. Gísli er bara heppinn að hafa ekki meiðst alvarleg í gær. En nóg um þessa ömurlegu dómgæslu og aftur að leiknum. Vikingar náðu forystunni þegar um hálftíma var liðinn og verður það að teljast verðskuldað. Sóknin var að vísu ágætlega útfærð hjá þeim en okkar menn alveg sofandi í varnarleiknum. En markið kom ekki á óvart, því heimamenn voru búnir að vera ansi líklegir í dágóðan tíma. Strax eftir markið herjuðu Vikingar áfram en okkar menn stóðust atlögurnar og það kom aðeins meira tempó í okkar leik. Jöfnunarmarkið kom svo eins og guðs gjöf eftir góða aukaspyrnu Jonathans sem Viktor stangaði í netið af harðfylgi.  En sjaldan er ein báran stök og þetta stóð ekki lengi svona. Skömmu síðar var Oliver með boltann á eigin vallarhelmingi og frekar en að leika þvert og stutt, sem hafði nú ekki gert neitt fyrir okkur,  sendi hann langan bolta inn á vítateigshornið. Thomas pressaði varnarmann Víkinga, og úthlaupandi markmann þannig að þeir fipuðust eitthvað og boltinn datt niður á milli þeirra og lá þar. Thomas náði að pota boltanum frá andstæingunum og til Willums sem lék aðeins áfram og skaut svo í autt markið með viðkomu í skósóla eins varnarmanns Víkings. Þarna var lukkan í liði með okkar mönnum en Thomas uppskar fyrir hlaupið sem hann tók á eftir þessari 50/50 sendingu Olivers. Þeir fiska sem róa.

Staðan orðin 1-2 okkar mönnum í vil. Og það fannst manni góð uppskera eftir frekar laklega spilamennsku okkar manna lengst af. Minnstu munaði að Blikar settu 3ja markið. Arnþór Ari mokaði boltanum yfir af stuttu færi en var hvort eð er flaggaður rangstæður, en ranglega. Og svo átti Gísli þrumuskot sem smaug framhjá samskeytunum. Það hefði verið eitthvað að smjatta á fram á haust. Þetta skot hjá Gísla kom reyndar rétt eftir að hann hafði fengið ,,special treatment“ hjá Víkingum, sem áður var nefnt,  þar sem hásin var skafin og í hana hoggið.

Staðan í hálfleik 1-2 Blikum í vil og var það almælt í hálfleikskaffinu að það væri kannski ekki mjög sanngjarnt miðað við gang leiksins. Blikar ekki sannfærandi í fyrri hálfleik. Mönnum varð tíðrætt um gróf brot og linku dómaranna í sumar. Algjör lágmarkskrafa að tekið sé á hreinum og klárum fólskubrotum eins og því sem sást undir lok fyrri hálfleiks. Við erum búin að sjá mörg svona brot í sumar. Hvar er dómaranefnd KSÍ? Að því sögðu þá má ekki láta þetta pirra sig inni á vellinum, það gerir illt verra. En það verður einhver að gera eitthvað og láta heyra í sér innan knattspyrnusambandsins, áður en verra hlýst af. Það er til nóg af sönnunargögnum.

Blikar gerðu eina breytingu á liðinu í hálfleik og Arnór Gauti kom inn fyrir Oliver. Ekki kunnugt um ástæðu skiptingar.
Okkar menn hófu síðari hálfleik af mun meir krafti en þann fyrri og nokkrum sinnum skapaðist veruleg hætta við mark Víking áður en Blikar settu 3ja markið. Arnþór Ari mokaði yfir af stuttu færi eftir góðan undibúning Gísla og Víkingar náðu ennfremur að bjarga á síðust stundu eftir aukaspyrnu en Blikar þjörmuðu vel að heimamönnum og uppskáru mark skömmu síðar. Blikar fengu aukaspyrnu vinstra megin á vallarhelmingi Víkings og Gísli sendi boltann yfir á fjærstöngina þar sem Willum kom á ferðinni og skallaði boltann á markið, en inn fór boltinn ekki heldur hrökk af markmanninum út í teiginn og þar kom Viktor, hver annar?, aðvífandi og negldi honum í netið úr mjaðmarhæð. Vel gert og þarna voru menn vel á tánum. Staðan orðin 1-3 og nú héldu flestir að björninn væri unninn.
En það var nú öðru nær. Víkingar neituðu að gefast upp og það í bland við smá slaka sem Blikar gáfu þeim, gaf þeim nýtt líf og þeir fóru að herja á okkar menn. Þar fór Castillion fremstur í flokki og hann lét verulega að sér kveða í tvígang áður en hann fiskaði ódýra vítaspyrnu sem dæmd var á Jonathan. Búinn að horfa á þetta nokkrum sinnum og geta bara ekki séð þess snertingu sem dæmt var á. En sá sem sá ekki fólskubrotin við nefið á sér sá þetta og því var vítið dæmt, og heimamenn skoruðu af öryggi úr vítinu.
Þar með var aftur komin spenna í leikinn og hófu nú stuðningsmenn Blika allt í senn að naga á sér handarkrikann, biðja til almættisins og styðja sína menn með trommulsætti og almennum hvatningum. Leikurinn í járnum og allt gat gerst. Lítið um færi en álitlegar sóknir á báða bóga.  Blikar skiptu Thomasi út fyrir Brynjólf Darra. Thomas búinn að vera feykiduglegur og drjúgur. Korteri síðar þurfti Davíð að yfirgefa vígvöllinn eftir höfuðhögg. Davið eflist við hvern leik og er kominn í úrvalsdeild íslenskra bakvarða. Elfar  Freyr kom inn í hans stað. Ekki amalegt að hafa svoleiðis mann á bekknum. Enn var hamast og djöflast um allan völl en nú fór spennan og kappið að bera fegurðina ofurliði svo um munaði og síðustu 10 – 15 mínútur leiksins einkenndust af brotum, háloftaspyrnum, kjarftbrúki og almennum leiðindum sem náðu svo hámarki þegar leikmanni gestgjafanna var vísað af velli fyrir kjaftbrúk eftir tiltölulega meinlaust brot og hafði sá hinn sami þó alveg unnið fyrir rauðu spjaldi fyrr í leiknum. En nú varð honum það á í miðri messu að móðga dómarann og það er ekki liðið. Blikar sigldu svo sigrinum í höfn með því að hanga við hornfánann og krækja sér í innköst og aukaspyrnur sitt á hvað og fögnuðu vel í leikslok ásamt fjölmörgum stuðningsmönnum sem eins og fyrr segir létu vel í sér heyra og einkum í síðari hálfleik.

Þetta var erfiður leikur en Blikar sitja enn á toppnum eins og þeir hafa verið lengst af þessu móti og gefa ekkert eftir. Skila hverjum vinnusigrinum á fætur öðrum í hús. Það telur og það er gaman að vera Bliki.

Næsti leikur er á fimmtudag en þá taka Blikar á móti Víkingi Ólafsvík í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Það verður spennandi að sjá hvernig okkar menn mæta til leiks. Nú verða menn veskú að vera tilbúnir frá fyrstu mínútu.

Leikurinn hefst kl. 18:00.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir netmiðla

Til baka