BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Víkingur R. - Breiðablik í PEPSI mánudag 13. ágúst kl. 18:00!

11.08.2018

16. umferð PEPSI deildar karla hefst á sunnudaginn með 4 leikjum: FH-ÍBV í Krikanum kl.16:00, KR-Fjölnir á Alvogenvellinum kl.18:00, Keflavík-KA á Nettóvellinum kl.18:00 og Fylkir-Stjarnan á nýja Floridavellinum í Árbænum kl.18:00. Tveir leikir eru á mánudaginn: Valur-Grindavík á Origovellinum kl.19:15 og Víkingur R. mætir okkar mönnum í Breiðabliki í Víkinni kl.18:00!

Blikar hafa byrjað mótið mjög vel. Voru í efsta sæti fyrstu 6 umferðirnar. Duttu niður í 4. sæti eftir tapleiki gegn Val og Stjörnunni í 6. og 7. umferð en Blikaliðið hefur verið í 2 og 3 sæti undanfarnar 7 umferðir. Blikar skutust svo upp í efsta sætið eftir sigurinn á KR í síðustu umferð og eru með 31 stig á toppnum. Liðin tvö í 2. og 3. sæti, Valur og Stjarnan, eiga innbyrgðisviðureign til góða. Vinni Stjörnumenn jafna þeir okkur að stigum á. Sigri Valsmenn fara þeir á toppinn með 32 stig. Við Blikar tippum á jafntefli.

Síðasti sigurleikur Víkingsliðsins í deildinni var 1-0 sigur í heimaleik gegn Keflvíkingum 13. júlí. Í 3 leikjum síðan þá hefur Víkingsliðið tapað gegn Val (ú), Störnunni (h) og Grindavík (ú). Logi Ólafsson var mjög ósáttur með framlag sinna manna í síðasta leik. Þá má því búst við vel peppuði liði Víkinga þegar flautað verður til leiks á mánudaginn.   

Sagan

Breiðablik og Víkingur R. eiga 78 mótsleiki að baki í öllum keppnum inni og úti frá því að Breiðabliksmenn byrjuðu að sparka í bolta í Kópavoginum árið 1957, en það ár var fyrsti innbyrgðis keppnisleikur liðanna spilaður á gamla Melavellinum, sem þá var heimavöllur Víkingsliðsins, 17. júlí 1957.

Tölfræðin úr leikjunum 1957 – 2018 er nánast jöfn. Blikar hafa unnið 28 leiki, Víkingar 29, jafnteflin eru 21. Nánar hér

Í efstu deild eru innbyrgðis leikir liðanna 39. Víkingar hafa yfirhöndina þar með 14 sigra gegn 11 sigrum Blika og jafnteflin eru 14.

Blikum hefur gengið afleitlega að ná fram sigrum í efstu deild í Víkinni. Sigurinn í fyrra var aðeins þriðji sigurinn í 19 tilraunum. Blikar vinna árin 2017, 1991 og 1980. Tapleikirnir eru 9 og jafnteflin 7. Nánar

Efsta deild 2000 - 2018

Lið Breiðabliks og Víkings R. hafa mæst 15 sinnum í efstu deild karla frá árinu 2000. Jafnt er á öllum tölum. Bæði lið hafa sigrað 5 viðureignir og jafnteflin eru líka 5. Skoruð mörk á þessu tímabili eru samtals 50 enda leikir liðanna í efstu deild frá árinu 2000 gjarnan miklir markaleikir. Úrslit eins og t.d. 2-6, 2-2, 4-1, 4-1, 3-1 er oftar en ekki niðurstaðan á þessu tímabili.

Fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli í sumar lauk með 0:0 jafntefli. Reyndar skoraði Gísli Eyjólfsson löglegt mark – sláin niður – sem ekki var dæmt mark. Nánar um leikinn.

Síðustu 5 í Víkinni

Víkingar hafa yfirhöndina í síðustu 5 viðureignum í Víkinni. Tveir sigrar gegn 1 sigri Blika, jafnteflin eru 2.

2017: Blikar vinna 2:3 Fyrsti sigur Blika í efstu í fyrra Nánar

2016: Blikar tapa 3:1 Blikar manni færri frá 66.mín Nánar

2015: Jafntefli 2:2 Oliver og Höskuldur skora Nánar

2014: Blikar tapa 1:0 Tvö rauð spjöld á Víkinga Nánar

2011: Jafntefli 2:2 Gummi Kri og Macallister skora. Nánar

Leikmannahópur Blika

Leikmannahópur Blika tekur sífelldum breytingum. Í síðustu viku skrifaði Sveinn Aron Guðjohnsen undir 3 ára samning við Ítalska liðið Spezia. Í júní skrifaði Danski framherjinn Thomas Mikkelsen undir 2 ára samning við Breiðablik. Fyrir mót kom Jonathan Hendrickx til okkar eins og allir vita. Arnór Gauti snéri aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Guðmundur Böðvar Guðjónsson kom til okkar frá  ÍA. Alexander Helgi Sigurðarson, sem var lánaður til Ólafsvíkur, var kallaður heim rétt fyrir lok félagaskiptagluggans. Fyrir mót kom Oliver Sigurjónsson aftur til okkar frá Noregi. Í vikunni varð ljóst að Oliver verður með okkur út tímabilið. Og Elfar Freyr Helgason er búinn að ná sér eftir axlarmeiðslin sem hann varð fyrir í byrjun júní. Leikmenn Blika 2018

Það má búast við hörkuleik á mánudagskvöld enda hafa þessi lið marga hildina háð.

Vonandi sjá flestir Blikar sér fært að mæta í Víkina og hvetja okkar menn til sigurs.

Leikurinn hefst klukkan 18:00! á mánudagskvöld.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar

Til baka