BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2024: Breiðablik - Víkingur R.

28.05.2024 image

Breiðablik - Víkingur R. á Kópavogsvelli, fimmtudagskvöldið 30. maí kl. 20:15!

Strax komið að öðrum leik gegn Reykjavíkur Víkingum í hinum íslenska El Clasico. Leikurinn er úr 14. umferð en fer fram núna vegna þátttöku beggja liða í Evrópukeppnum um miðjan júlí. 

Græna stofan opnar kl.18:00. Píluspjöld í boði frá kl.18:15. Þjálfaraspjall kl.19:00. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.

Miðasala á leikinn er á Stubbur  

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Blikar í 2. sæti með 18. stig eftir 8 umferðir - sigur á fimmtudagskvöld tryggir okkar liði toppsætið: 

image

Sagan & Tölfræði

Mótsleikir liðanna frá fyrsta leik árið 1957 eru 96 sem skiptast svona: 74 deildaleikir: 52 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild. Bikarleikir eru 12. Deildabikar 8. Tveir leikir í Meistarakeppni KSÍ. Víkingur þann fyrri 1:0 árið 2022. Blikar vinna seinni 3:2 árið 2023. Jafnt er á öllum tölum í leikjunum 96: 37 Blikasigrar, 23 jafntefli. 36 töp. 

Efsta deild

Leikurinn á fimmtudaginn verður 53. innbyrðis viðureign liðanna í efstu deild. Jafnt er á öllum tölum - 18 sigrar á hvort lið - jafnteflin eru 16. Markaskorunin er 155 mörk: Blikar með 78 mörk gegn 77.

Efsta deild - heimaleikir

Heimaleikir okkar í efstu deild eru 26 - allir á Kópavogvelli nema einn leikur á gamla Melavellinum árið 1972. Blikar leiða með 12 sigra gegn 5 - jafnteflin eru 9.

Síðustu 5 í efstu deild á Kópavogsvelli:

02.06 19:15
2023
Breiðablik
Víkingur
2:2
28
1
A-deild | 10. umferð
Kópavogsvöllur | #

INTERNET (28)

29.10 13:00
2022
Breiðablik
Víkingur
1:0
23
6
A-deild | Úrslitakeppni 5.umf
Kópavogsvöllur | #

INTERNET (23)

Leikmannahópurinn

Í leikmannahópi gestanna eru nokkuð margir leikmenn sem hafa spilað með Blikum.

Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Víkingur R. fékk Karl Friðleif til sín sem lánsmann 2021 og gerði svo samning við hann fyrir keppnistímabilið 2022.

Fyrir keppnistímabilið 2021 söðlaði Davíð Örn Atlason um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik. Um haustið náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur.

Daniel Dejan Djuric á 2 mótsleiki með meistaraflokki Breiðabliks auk tugi leikja með yngri flokkum á árunum 2014 - 2018.

Gísli Gottskálk Þórðarson er uppalinn Bliki. Haustið 2020 fór hann til Bologna á Ítalíu en gerði samning við Víking fyrir keppnistímabilið 2022.

Í þjálfarteymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Blika með miklum árangri frá 1992 til 1996, en Cardakilja flúði heimaland sitt  vegna stríðsátaka og kom til okkar fyrir keppnistímabilið 1992. Hann á 107 mótsleiki að baki í Breiðablikstreyjunni.

Leikmenn sem komu til okkar fyrir keppnistímabilið:

Kristinn Jónsson (KR) Kiddi Jóns kominn heim * Aron Bjarnason (Ungverjaland) Aron Bjarna mættur í grænt * Arnór Gauti Jónsson (Fylkir) Arnór Gauti mættur í Kópavoginn * Benjamin Stokke (Noregur) Norski framherjinn Benjamin Stokke til Breiðabliks * Daniel Obbekjær (Færeyjar) Daniel Obbekjær gerir 3 ára samning við Breiðablik * Ísak Snær Þorvaldsson á láni (Noregur) Ísak Snær aftur í Kópavoginn.

Leimenn Breiðabliks sem voru á láni hjá öðrum liðum 2023: Dagur Örn Fjeldsted (Grindavík) - Eyþór Aron Wöhler (HK) - Pétur Theódór Árnason (Gróttu). Í mars rifti Pétur samningi sínum við Breiðablik og íhugar að hætta í fótbolta, en meiðsli hafa sett risastórt strik í feril hans undanfarin 2-3 ár. - Tómas Orri Róbertsson (Grindavík) - Tumi Fannar Gunnarsson (Augnablik) - Viktor Elmar Gautason (Augnablik)

Leikmenn Breiðabliks á láni hjá öðrum liðum keppnistímabilið 2024: Ásgeir Helgi Orrason (Keflavík). Tómas Orri Róbertssson (Grótta). 

Farnir: Alex Freyr Elísson (Fram...var á láni hjá KA) - Anton Logi Lúðviksson (Noregur) - Arnar Númi Gíslason (Fylkir...var á láni hjá Gróttu) - Ágúst Eðvald Hlynsson (Danmörk) - Davíð Ingvarsson (Danmörk) - Gísli Eyjólfsson (Svíþjóð) - Hilmar Þór Kjærnested Helgason (Fylkir) - Klæmint Olsen (Færeyjar ...var á láni frá NSÍ) - Oliver Stefánsson (ÍA). - Eyþór Aron Wöhler (KR)

Teymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Eyjólfur Héðinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Marinó Önundarson og Brynjar Dagur Sighvatsson. 

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er forseti bæjarstjórnar Kópavogs, en er þó fyrst og fremst Blikamamma enda á hún syninina Arnór Svein, Bjarka og Einar Braga Aðalsteinssyni, sem allir eru hreinræktaðir Blikar og aldir upp hjá félaginu. “Eftir Þýskalandsdvölina 1992 festum við kaup á húsi við Fífuhvamminn og má segja að bakgarðurinn sé Breiðabliksvöllurinn, enda hefur okkar líf snúist um fótbolta allar götur síðan og jú núna síðari ár um handbolta líka”, segir Blikinn hlægjandi þar sem yngsti sonurinn Einar Bragi skipti yfir í handbolta fyrir nokkrum árum. “Ég á frekar erfitt með að horfa á leikina úr stúkunni og vil helst sitja ein í brekkunni norðan megin – hjátrúin sko. Ég er alltaf aðeins hrædd við meiðsl og fæ sting í magann þegar einhver liggur lengi eftir. Það er síðan Arnór Sveinn rotaðist í leik gegn Þrótti Reykjavík og var fluttur með sjúkrabíl. Ég var heima með Einar Braga 5 ára og horfði á leikinn í beinni útsendingu. Atvikið var sýnt hægt og svo endurtekið látlaust að mér fannst, þegar hann var settur á börurnar og hendin lafði út fyrir, drengurinn algjörlega rotaður. Þetta var hálfgerð martröð fyrir móðurhjartað, en jú eftirminnilegt því samhliða skoraði hann sitt fyrsta mark í efstu deildinni. Arnór skoraði en rotaðist. 

Elísabet Sveinsdóttir – Hvernig fer leikurinn?

Leikurinn á fimmtudaginn verður skemmtilegur. Víkingarnir eru orðnir smá hrokafullir og við nýtum okkur það og klárum þá með leikgleðinni. Við vinnum 2-1, Höskuldur og Jason skora fyrir okkur, Höskuldur beint úr aukaspyrnu og Jason spólar sig í gegn á 70 mínútu.😊

Áfram Breiðablik nú sem endranær!

Elísabet Sveinsdóttir, SpáBliki leiksins, og eiginmaðurinn Aðalsteinn Jónsson

Dagskrá

Græna stofan opnar kl.18:00. Píluspjöld í boði frá kl.18:15. Þjálfaraspjall kl.19:00. Börger á útigrilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni.

Miðasalan er á Stubbur. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á fimmtudagskvöld kl.20:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Klippur frá fjörugum 3:1 leik liðanna í Úrslitakeppninni á Kópavogsvelli í lok september í fyrra: 

Til baka