BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það kostar klof að ríða röftum!

26.09.2023 image

Blikaliðiðið mætti með látum gegn nýkrýndum Íslandsmeisturum Víkings á Kópavogsvelli í gær. Úrslitin voru 3:1 þeim grænklæddu í hag. Það má með sanni segja að strákarnir okkar hafi svarað pistlahöfundi frá síðasta leik þegar hann spurði hvar liðið okkar væri! Fyrir utan 20-25 fyrstu mínútur leiksins þá var Blikaliðið mun sterkari aðilinn á vellinum og vann því gríðarlega mikilvægan sigur í keppninni um Evrópusæti á næsta tímabili.

Það var spenna í loftinu í Kópavoginum fyrir leikinn. Gestirnir höfðu orðið sófameistararar daginn áður en voru yfirlýsingaglaðir í fjölmiðlum ogsamfélagsmiðlum. Í þeirra huga var ljóst að þeir ætluðu að taka okkur í bakaríið á okkar eigin heimavelli. Til að ögra okkur sem mest þá skipulögðu þeir skottloksveislu (Tailgate party) á bílastæðinu við Fífuna. Þar var var veitt eldvatn eins og hver og einn gat í sig látið.  Urðu þar ýmsir góðglaðir án þess þó að það væri til vandræða. Stuðningsmenn Blika létu það hins vegar ekki á sig fá og létu flestir sér hamborgara og blávatn duga sem upphitun. Einnig verður að geta þess að veðurguðirnir gengu í lið með okkur fyrir leik. Þeir ákváðu að fresta rigningu sem áttiupphaflega að byrja um 19.00 langt fram á kvöldið. Aðstæður til að spila knattspyrnu voru því frábærar, hiti um 9 stig og hægur andvari að sunnan.

Bæði lið byrjuðu leikinn varlega en smám saman tóku gestirnir öll völd á vellinu. Það lá ansi þungt á okkur og sluppum við 2-3 sinnum með skrekkinn á fyrstu 25 mínútum leiksins.Áttu Víkingar meðal annars skot í slána og Damir varði tvisvar á línu eftir harða atlögu þeirra svartrauðhvítu. Það fór um stuðningsmenn Blika á stúkunni enda pressa gestanna mikil.

En það sem ekki sem brýtur okkar styrkir okkur! Smám saman náðum við að rétta úr kútnum. Á 36 mínútu náðum við snarpri sókn þar sem Klæmint þeytti tuðrunni á snilldarhátt yfir á Viktor Karl hinu megin á vellinum. Okkar maður lék knettinum nokkar metra og þrumaði knettinum í markið. Það verður að viðurkennast að markvörður gestanna hefði átt að gera betur í varnavinnu sinni en skotið hjá okkar manni var fast og inn fór boltinn. Það er aðalastriðið!

Nú voru Blikar komnir á bragðið. Nokkrum mínútum síðar léku Anton Logi og Höskuldur saman eftir hornspyrnu, fyrirliðinn okkar skildi óknyttapiltinn okkar fyrirverandi eftir í moðreyk og þrumaði knettinum í mark Víkinga með bylmingsskoti. Vonandi lærir drengurinn sína lexíu að það borgar sig ekki að reyna að niðurlægja gamla félagið sitt á neinn hátt. Menn fá bara grænsápu í munninn eftir slíkar tilraunir! Staðan því vænleg þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Stuðningsmenn Blika sem mættu vel á völlinn voru kampakátir. Guðmundur Þórðarson, fyrrum landsliðsmaður Blika, hámaði í sig súkkulaðikex fyrir utan sjoppuna og lýsti því yfir að þetta væri ein besta endurkoma sem hann hefði séð hjá Breiðabliksliði. Bakvörðurinn knái, Bjarni Bjarnason alias Tralli, var sammála vini sínum enda ekki vanur að mótmæla gamla markaskoraranum. Þyngra var hins vegar stuðningsmönnum Víkinga enda höfðu þeir mætt á Kópavogsvöll til að sjá sína menn valta yfir Blikaliðið.

Seinni hálfleikur var fjörugur án þess þó að mörg opin færi sæju dagsins ljós. Blikar héldu uppi góðri pressu á Víkingsliðið og gestunum tókst ekki að ná neinum tökum á leiknum. Að vanda spiluðu Víkingar fast en ólíkt mörgum öðrum liðum tóku Blikar hart á móti þeim. Þetta mótlæti fór greinilega í taugarnar á gestunum og margir lykilmenn þeirra vældu eins og stungnir grísir í stað þess að einbeita sér að leiknum.  Þegar leikurinn virtist vera að klárast náðu Víkingar að pota inn einu marki. Héldu nú einhverjir að þetta myndi breyta einhverju varðandi úrslit leiksins. En snillingurinn úr Mosfellsbænum, Jason Daði, kom inn á sem varamaður og kláraði leikinn með frábæru marki. Lokatölur því 3:1 og vænkaðist nú hagur Blikaliðsins til muna varðandi baráttuna um Evrópusæti á næsta ári.

Hrósa verður öllum Blikaliðinu fyrir þennan leik. Það blés ekki byrlega á upphafsmínútunum en það var stórkostlegt að sjá hvernig liðið vann sig aftur inn í leikinn. Baráttan og leikgleðin skein af hverjum leikmanni og greinilegt að menn ætluðu að svara fyrir frekar slaka leiki að undanförnu í Bestu deildinni. Þetta lofar líka góðu fyrir komandi leiki, bæði í deildinni og svo Evrópukeppninni. Erfitt er að taka út einstaka leikmenn því þetta var sigur liðsheildarinnar. Þó verður að nefna Anton Loga sem pakkaði saman besta kantmanni deildarinnar þannig að hann sást varla í leiknum. Damir var frábær í vörninni og Anton Ari varð stórkostlega tvisvar sinnum undir lok leiksins. Alexander Helgi og Gísli börðust eins og ljón allan tímann og mörkin hjá ViktorI Karli og Höskuldi voru frábær. 

Framundan er knattspyrnuveisla hjá Blikaliðinu. Á fimmtudaginn förum við á Valsvöllinn og mætum heimapiltum. Á sunnudag höldum við vestur í bæ og spilum við KR. Á fimmtudag í næstu viku mætir síðan úkraínska liðið Zorya Luhanks á Laugardagsvöll. Það er gaman að vera Bliki þessa dagana!

AP

Til baka