BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla. Úrslitakeppni 2022: KA - Breiðablik

06.10.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tuttugasti og fjórði leikur okkar manna í Bestu karla 2022  > Yfirlit 22 leikja > Úrslitakeppnin hafin > Blikar eru með 8 stiga forskot á næstu lið > Heimsækjum KA menn til Akureyrar á morgun, laugardag > Miðasala á Stubbur > Sagan: 47 mótsleikir > Blikahópurinn 2022 > Árni Páll Árnason er SpáBliki leiksins > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Nokkrir punktar í lok venjulegs móts

image

Breiðablik skráði sig á spjöld sögunnar þegar sigur vannst á KR-ingum á Kópavogsvelli í lok júní. Leikurinn var 16. heima­sig­ur okkar manna í röð í efstu deild. Með sigrinum sló Blikaliðið met sem ÍBV hafði átt í 23 ár. Eyjamenn unnu 15 heimaleiki í röð á Hásteinsvelli á árunum 1997 til 1999 og hafa átt metið síðan, eða þar til Blikar jöfnuðu það í sigurleik gegn KA um miðjan júní.

Liðið skorar 55 mörk í 22 leikjum í deildinni annað árið í röð og bætir stigametið frá í fyrra um 4 stig - endar með 51 stig og er með 8 stiga forskot á næstu lið fyrir úrslitakeppnina - þar eru 15 stig í pottinum.

Félög sem hafa náð 50+ stigum í 22 leikjum frá 2008 eru: KR 2013, 2019 og Stjarnan 2014 52 stig. FH 2009 og Breiðablik 2022 51 stig. Valur 2017 50 stig. 

Blikar eru nú taplausir í deild á heimavelli 22 leiki í röð (21 sigur og 1 jafntefli) með markatöluna 69:10. Blikaliðið vann alla heimaleikina fyrra, nema fyrsta leik, með markatöluna 32:1 og eru nú taplausir eftir 12 leiki með markatöluna 37:9.

Alls hefur Blikaliðið skorað 101 mark í 43 mótsleikjum á árinu 2022. Mörkin skiptast svona milli móta: Efsta Deild (23 leikir) 58 mörk, Mjólkurbikarinn 10 mörk, Sambandsdeild UEFA 9 mörk, Lengjubikarinn 13 mörk, FótboltaNet mót 11 mörk.

Þrir leikmenn eru með yfir 90% spilaðar mínútur í deildinni: Anton Ari Einarsson 22 leikir 100% mínútur. Höskuldur Gunnlaugsson 22 leikir 99% mínútur 5 mörk. Viktor Örn Margeirsson 20 leikir 91% mínútur 1 mark.

Ítarlegt yfirlit ársins 2022 hér. 

image

ÚRSLITAKEPPNIN 2022

Annar leikur Blika í úrslitakeppninni er gegn KA á þeirra heimavelli á Akureyri, laugardaginn 8. október kl. 14:00. (breyttur leiktími).

Það er ekki laust við að stuðningsmenn Blika séu með smá fiðring í maganum þegar fylgst er með gangi mála í leikjum annarra liða í efri hluta úrslitakeppninnar. T.d. sá skrifari fyrir sér á tímabili í gærkvöld að Blikar gætu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á KA á sunnudaginn. En svo sá röndótta liðið í Fossvoginum um að eyða þeirri tálsýn með hörku frammistöðu í seinni hálfleik þar sem Blikinn Danijel Dejan Djuric setti tvö glæsileg mörk á Valsmenn. Það má aldrei vanmeta vel mannað lið Víkinga.

Sigri okkar menn KA á morgun, laugardag færir það okkur nær titlinum. Við eigum harma að hefna eftir síðustu heimsókn á Greifavöllinn á Akureyri. Og svo sýnir tölfræðin að Blikamenn tapa sjaldan fyrir sama liðinu tvo leiki í röð.

Ef Stjörnunni tekst að leggja Reykjavíkur Víkinga í Garðabænum á mánudaginn er titillinn okkar Blika ... svokallaður „meistarar í sófanum“ titill.

En það er laugardalskvöldið 15. október sem fókus stuðningsmanna er á. Þá koma KR-ingar í heimsókn á Kópavogsvöll. Komi Blikaliðið heim frá Akureyri með 3 stig í pokanum fræga og þrjú bætast við eftir leikinn við KR er markmiðinu náð þegar tveir leikir í úrslitakeppninni eru eftir.

Kópacabana og aðrir stuðningsmenn Blika ætla að fjölmenna á leikinn fyrir norðan á sunnudaginn. Nánari upplýsingar hér væntanlegar. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan eftir 23 umferðir - Blikar með 8 stiga forskot á næstu lið:

image

Sagan & tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og KA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1987 eru 47 leikir. Vinningshlutfallið fellur með okkur. Blikar með 30 sigra gegn 11 sigrum KA. Jafnteflin er 6. 

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 24. Blikar hafa unnið 16 leiki gegn 4 og jafnteflin eru 4. Liðin skora samtals 69 mörk: Breiðablik 47 og KA 22.

Fyrirsögn tíðindamanns blikar.is eftir síðustu heimsókn okkar manna til Akureyrar var "Súrt tap á Akureyri"

"Blikar urðu að sætta sig við súrt 2:1 tap á Akureyri í hörkufótboltaleik. Tvenn varnarmistök urðu til þess að stigin urðu öll eftir fyrir norðan. Jafntefli hefði ekki verið ósanngjörn niðurstaða en stundum detta ekki úrslitin með okkur. Forysta okkar á toppnum er hins vegar enn sex stig og markatalan hagstæð." Meira>

Miklu betra hljóð var í tíðindamanni blikar.is eftir heimsókn KA-manna í Kópavoginn 20. júní.

"17. júní hátíðahöldin fóru greinilega vel í okkar menn þetta árið þó menn hafi örugglega verið pínu svekktir að leikslokum á Hlíðarenda daginn áður. Það er fátt í hversdagslífinu svo djöfullegt að pylsa með öllu á 17. júní að lokinni slysalausri skrúðgöngu geri ekki lífið ögn bærilegra. Að ekki sé talað um tvær. Það var einmunablíða í dalnum þegar leikur hófst  í kvöld. 11 stiga hiti, hæg vestanátt og sólskin. Stutterma. Tæplega 14 hundruð áhorfendur mættir og Kópacabana í miklu stuði frá byrjun til enda. Örlítil seinkun var á leiknum þar sem flug KA manna var ekki alveg skv. áætlun." Meira>

Blikahópurinn 2022

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. 

Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. 

Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. 

Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. 

Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu.

Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 24. umferðar flutti í Kópavog 6 ára gamall og byrjaði fljótlega að æfa fótbolta, þótt hann sé okkur flestum kunnur fyrir allt annað en knattspyrnuiðkun. Vallargerðisvöllurinn var æfingasvæðið og svo missveitt íþróttahús í inniæfingum á veturna. Óhætt er að segja að hæfileikar á knattspyrnuvellinum hafi ekki einkennt okkar mann, heldur frekar mjög hraustlegar tæklingar og harkalegur varnarleikur. Fótbrot við 12 ára aldurinn batt svo enda á frekari knattspyrnuiðkun. Hann var hins vegar varaformaður Knattspyrnudeildar Breiðabliks 2007-2010 á miklum umbrotatímum hjá deildinni, þegar hún fyrst var nærri gjaldþroti eftir hrun en síðan náðust fyrstu titlar félagsins í karlaflokki 2009 og 2010.

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð, þaðan í lögfræði og svo til Belgíu í framhaldsnám. Hann starfaði svo í utanríkisþjónustunni, sem lögmaður og svo sem alþingismaður og ráðherra. Síðustu ár hefur hann verið í forsvari fyrir alþjóðastofnanir sem Ísland á aðild að í Brussel, fyrst Uppbyggingarsjóð EES og nú Eftirlitsstofnun EFTA. Fótbolti er meðal helstu áhugamála og okkar maður er jafn dyggur stuðningsmaður Arsenal og Breiðabliks. Sund, hjólreiðar og hestamennska eru hin helstu áhugamálin.

Árni Páll Árnason – Hvernig fer leikurinn?

Ég þakka traustið að fá þetta merkilega verkefni. Þegar maður býr í útlöndum er maður vanur að halda að allir séu búnir að gleyma manni og því hlýnar manni um hjartarætur að fá svona beiðni að heiman.

Þar sem ég bý erlendis hef ég ekki séð mikið til liðsins í sumar. Eini leikurinn sem ég hef náð að mæta á í Smárann var sá eini sem ég hefði átt að sleppa – sumsé bikarundanúrslitin gegn Víkingi. Myndin sem ég læt fylgja er af mér að reyna að láta ekki bera á vonbrigðunum í húðarigningu og skítakulda. En nóg um það! Við skulum bara ekkert ræða þann leik meira.

Ég hef náð að sjá smá til liðsins í sjónvarpi og hef hrifist af spilamennskunni og andanum í liðinu. Mér finnst líka gaman að sjá það ganga upp sem við lögðum upp með þegar knattspyrnudeildin var nærri gjaldþrota 2008-2009: Byggja á okkar eigin uppöldu leikmönnum, fá tekjur af sölu og muna að ef að vel er að ungmennastarfi staðið kemur alltaf maður í manns stað. Það var ekki auðvelt þá að sjá á eftir Jóa Berg og Alfreð, en það var nauðsynlegt. Með sama hætti mun ég sjá á eftir Ísak Snæ, en allt er þetta hluti af stórri mynd sem er að teikna sig vel upp fyrir félagið.

Spilamennskan er feikilega skemmtileg og svona bolta vil ég sjá – hratt spil og ákveðni framávið. Óskar Hrafn á mikið hrós skilið fyrir starfið með liðinu.

Ég spái okkur 1-3 útisigri fyrir norðan og spái líka að Ísak setji eitt af mörkunum, til að innsigla frábært sumar og gott gengi með liðinu. Ég ætla líka að veðja á Jason Daða og að Elfar Freyr setji skallamark úr horni.

Áfram Breiðablik!

image

Eini leikur SpáBlikans í sumar var erfiður leikur í vondu veðri. Ekki orð um þann leik meir.

Dagskrá

Kópacabana og aðrir stuðningsmenn Blika ætla að fjölmenna á leikinn fyrir norðan á sunnudaginn. Nánari upplýsingar hér væntanlegar. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks kl.14:00 á morgun, laugardag!

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 BD2 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Breiðablik, alltaf - alls staðar!

Klippur frá leik liðanna á Kópavogsvelli 20. júní - í boði BlikarTV: 

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka