BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pylsurnar klikka ekki!

20.06.2022 image

17. júní hátíðahöldin fóru greinilega vel í okkar menn þetta árið þó menn hafi örugglega verið pínu svekktir að leikslokum á Hlíðarenda daginn áður. Það er fátt í hversdagslífinu svo djöfullegt að pylsa með öllu á 17. júní að lokinni slysalausri skrúðgöngu geri ekki lífið ögn bærilegra. Að ekki sé talað um tvær.
Það var einmunablíða í dalnum þegar leikur hófst  í kvöld. 11 stiga hiti, hæg vestanátt og sólskin. Stutterma. Tæplega 14 hundruð áhorfendur mættir og Kópacabana í miklu stuði frá byrjun til enda. Örlítil seinkun var á leiknum vegna þar sem flug KA mann var ekki alveg skv. áætlun. 

Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:

image

Allir klárir hjá Blikum nema Kristinn Steindórsson sem er enn frá eftir groddalega tæklingu gegn Val.Blikar hófu leikinn og voru með boltann fyrstu 2 mínúturnar en svo skutust KA menn í skyndisókn og voru ekki fjarri því að setj´ann en boltinn lak framhá stönginni. Næstu tuttugu mínúturnar voru Blikar svo með boltann meira og minna en án þess að skapa verulega góð færi. Damir fékk reyndar frían skall eftir hornspyrnu en setti hann himinhátt yfir. Sennilega var sólin að trufla en þetta var sannarlega ákjósanlegt færi. Svo kom fyrst markið aðeins örfáum mínútum síðar, og það var af glæsilegri gerðinni. Dagur Dan fékk boltann á miðjunni með KA mann andandi oní hálsmálið en sneri hann snaggaralega af sér og rauk af stað rakleiðis yfir miðlínu. Sendi svo fastan bolta út til hægri þar sem Höskuldur kom skeiðandi. Hann tók eina snertingu og fastri sending hans inn á vítateiginn miðjan var mætt af Ísaki Snæ sem setti hann með þéttingsfast innanfótar í hægra hornið alveg niður við jörð. Óverjandi fyrir markvörð gestanna. Markið og aðdragandinn algjör unaður. Úr efstu skúffunni, svo maður sletti nú aðeins. 1-0 fyrir Blika.

image

Ísak Snær fagnar fyrsta marki leiksins. Mynd: HVH

Næstu mínútur var ekki mikið að gerast. Bæði lið áttu hálffæri, Blikar sennilega 2 á móti einu hjá gestunum. Gestirnir fengu hins vegar urmul af ,,horspyrnum“, eins og einum góðum íþróttafréttaritara var tamt á tungu hér í den, en náðu ekki að nýta þær enda Blikar miklu grimmari að skalla og hreinsa frá markinu. En svo skall hurð nærri hælum Blika rétt fyrir lok hálfleiks þegar kom há sending inn í teig Blika sem Höskuldur náði að teygja sig í en hann skallaði beint út í teig og fyrir fætur KA manns sem hitti boltann illa og Anton Ari þurfti ekki að hafa mikið fyrir að verja. Sannkallað dauðafæri há gestunum og fyrirliðinn okkar með sjaldséð mistök. Úff!
Við vorum því kannski ögn heppnir að fara inn í hálfleikinn með forystuna.

image

Fyrir leik afhenti formaður knattspyrnudeildar Flosi eiríkssson svo Viktori Karli viðurkenningu fyrir að vera kominn með 100 leiki fyrir Blika. Viktor helt upp á áfangann með skínandi leik.

Hálfleikskaffið var þokkalegt. Kekkir í mjólkinni. Og við vorum við að selja leikmann í vikunni…. Annað meðlæti bragðaðist að vonum enda Blikar með forystu. Allir kátir með afbrennslu KA manna undir lokin og enn kátari með markið hjá okkar mönnum. Allnokkuð farið að bera á kvíða félagsmanna fyrir því að vegna vaxandi og utanaðkomandi eftirpurnarþrýstings muni Blikar neyðast til að selja leikmann eða leikmenn í júlí glugganum. Vonandi ekki.Síðari hálfleikur hófst svo í sömu rjómablíðunni og Blikar settu strax í gírinn og fengu horn. Ekkert varð úr því en skömmu síðar komust þeir í ákjósanlegt færi eftir að KA maður steinlá í hálkunni. Dagur og Davíð geystust í skyndisókn og Davíð komst inn á markteigshornið en náði hvorki góðu skoti né fyrirgjöf, og markvörður gestanna slæmdi hendinni í boltann. Næst korterið var fátt að frétta annað en KA komst ögn betur inn í leikinn og setti nokkra pressu á okkar menn. Horspyrnurnar sem fyrr legíó en okkar menn jafnan vel á verði og grimmir á boltann svo gestunum varð ekki matur úr.. KA menn fengu svo færi eftir gott spil en þeirra besti skotmaður hitti boltann afleitlega og hann fór í innkast. Og þar sneri gæfan endanlega baki við gestunum sem fram að því höfðu haft í hótunum, því Blikar skoruðu í næstu sókn, sem kom eftir að Oliver kom inn fyrir Anton Loga sem átt hafði prýðilegan leik. Og markið kom strax eftir skiptinguna og upp úr fyrrnefndu innkasti. Boltinn barst eftir smá barning til Viktors Karls á miðjum vallarhelmingi Blika og hann kom honum eldsnöggt fram á Ísak sem tók hann með sér á hlaupinu og stefndi á markið. Á eftir honum komu 3 KA menn og reyndu hvað þeir gátu að ná boltanum en Ísak náði að alda boltanum og þjappa þeim í eina hrúgu og við það losnaði um Jason sem kom hlaupandi samsíða. Ísak renndi boltanum til hans og Jason sendi boltann rakleitt á milli fóta markvarðar gestanna og í netið. 2-0 fyrir Blika og sem fyrr kom markið eftir leiftursnögga og vel útfærða sókn.

image

Jason Daði hér búinn að setja boltann í netið hjá KA. Mynd: HVH

Nú var staðan orðin tvö-núll og þeir sem fram að þessu höfðu ekki kviðið neinu, sáu sér nú leik á borði og hugðu gott til glóðarinnar því að stundum í sumar þegar við höfum komist í þessa stöðu þá hafa andstæðingarnir gert næsta mark og stundum annað til og verið með vesen. Þarna var því komið efni í verulega gott kvíðakast. En það fór fljótlega út um þúfur því Blikar bættu 3ja markinu við skömmu síðar og gerðu þar með endanlega út um leikinn. Aðdragandinn að markinu var mjög skrýtinn. Boltinn var við það að fara útaf við mót hliðar- og miðlínu en Dagur náði að halda boltanum í leik og skalla boltann inn á völlinn. Þar var Ísak á sveimi og hann náði boltanum í sama mund og KA maður fór aftan í hann og báðir féllu við. Maður hélt að KA mennirnir tveir sem voru þarna á næstu grösum myndu drífa sig og ná í boltann en þeir hikuðu báðir. Það varð þeim að falli því nú tók Ísak á rás með boltann upp að vítateig gestanna, setti þar niður fótinn og á boltann í þann mund að KA maður lenti á honum og reyndi að hreyfa við honum, en okkar maður rótaði sér ekki og beið bara rólegur að manni fannst. Jason og Gísli komu báðir á ferðinni í aðstoðina en þar að auki kom Viktor Karl á ferðinni í seinni bylgjunni og hann fékk sendinguna og þrumaði boltanum í nærhornið niðri. Laglegt mark og sjaldséð tilþrif. Stúkan sprakk og Kopacabana sprengdi gleðisprengju. Græna – að sjálfsögðu. ,,Ef þú elskar Breiðablik þá klapparðu“ o.sv.frv. sungið og trallað.

image

Nýjasti meðlimur 100 leikja klúbbsins - Viktor Karl - við það að smella boltanum í netið. Mynd: HVH

Og þetta var ekki búið því skömmu síðar komst Ísak í ákjósanlegt færi en dúndraði hressilega yfir og framhjá. Honum var samstundis skipt útaf. Spekingarnir segja að þetta hafi verið mjólkursýruskipting. Inn kom Galdur. Fjórða markið kom skömmu síðar. Oliver með aukaspynu inn fyrir vörn KA og beint á Davíð sem var á ferðinni , tók boltann með sér á kassann og lagði hann svo fyrir fætur Jasonar sem renndi sér á boltann við markteigshornið nær. Í netinu lá hann og staðan nú 4-0. Blikar með 3 mörk á rúmu korteri. Allt vitlaust í stúkunni.

image

Jason Daði sópaði boltainn í markið. Mynd: HVH

Blikar gerðu 2 breytingar í kjölfarið. Adam Örn og William Cole komu inn fyrir Jason og Höskuld. En KA menn voru ekki alveg búnir að segja sitt síðast og á lokamínútunni fengu þeir hornspyrnu og upp úr henni gerðu þeir harða skothríð og eftir að Blikar höfðu komist fyrir skotin í tvígang komu þeir ekki við vörnum þegar okkar gamli félagi Elfar Árni kom þéttingsföstu skoti framhjá Antoni.

4-1 urðu því lokatölur og við megum vel við þau úrslit una þó auðvitað hefði 4-0 verið betra.

Þetta var nokkuð kaflaskiptur leikur hjá okkar mönnum. Varnarleikur liðsins til fyrirmyndar allan leikinn og baráttan sömuleiðis. Sóknarleikurinn frábær á köflum en færin hafa oft verið fleiri. Færanýting var hins vegar afar góð.

Það er skammt stórra högga á milli hjá okkar mönnum því næsti leikur er á fimmtudaginn. Þá mæta KR ingar í dalinn og það verður örugglega hörkuleikur. Blikar eiga harma að hefna frá í fyrra þegar þeir röndóttu unnu okkur heima í fyrsta leik mótsins.

Við verðum á staðnum og í rétta gírnum.

Áfram Breiðablik

OWK

Myndaveisla í boði Blikar TV

Klippur úr leiknum í boði BlikarTV:

Til baka