BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - KA

17.06.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Tíundi leikur okkar manna í Bestu karla 2022 > Blikar á toppnum í Bestu 2022 > Fáum KA í heimsókn á Kópavogsvöll > Kópacabana menn keyra upp stemninguna í stúkunni > Miðasala á Stubbur > Sagan: 45 mótsleikir > Gamli leikurinn: Breiðablik - KA 1981 > Blikahópurinn 2022  > BlikaLjós leiksins er Elfar Freyr > SpáBliki leiksins er okkar eini sanni: Hilmar Jökull  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Breiðablik - KA

Næsti leikur okkar manna í Bestu deildinni er strax á mánudaginn þegar við fáum KA-menn í heimsókn. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudag kl.19:15! 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.

Staðan - Blikar efstir eftir 9 umferðir:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og KA í öllum mótum frá fyrsta leik árið 1987 eru 45 leikir. Vinningshlutfallið fellur með okkur - við með 29 sigra gegn 10 sigrum KA. Jafnteflin er 6.

Innbyrðis leikir liðanna í efstu deild eru 22 leikir. Blikar hafa unnið 15 leiki gegn 3 og jafntefli eru 4. Liðin skora samtals 61 mörk: Breiðablik 42 og KA 19.

Síðustu 5 heimaleikir gegn KA í efstu deild á Kópavogsvelli:

Gamli leikurinn

Breiðablik - KA 1981

Morgunblaðið skrifar daginn eftir leik „UBK STYRKTI verulega stöðu sína í toppbaráttunni í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í gærkvöld er liðið lagði KA frá Akureyri að velli 3-0 í fjörugum leik í Kópavogi, eftir að staðan í leikhléi hafði verið 0-0. Jón Einarsson kom Blikum á Bragðið með marki af stuttu færi þegar á 47. mínútu, en á 83. mínútu innsiglaði Vignir Baldursson sigurinn með glæsimarki af 30 metra færi. Jón var svo aftur á ferðinni á síðustu mínútu leiksins er hann skoraði sitt annað mark í leiknum og þriðja mark UBK, sem fylgir Víkingum fast eftir og munar aðeins 2 stigum á liðunum.“ 

24.06 20:00
1981
Breiðablik
KA
3:0
6
A-deild | 8. umferð
Kópavogsvöllur | #

Mörk: Jón Einarsson á 47´og 90´. Vignir Baldursson á 83‘. Áminningar: Vignir Baldursson og Ólafur Björnsson fengu gula spjaldið og Ólafur síðar það rauða.

Byrjunarliðið í leiknum gegn KA: Guðmundur Ásgeirsson (M) - Ólafur Björnsson (F) - Valdimar Valdimarsson - Tómas Tómasson - Helgi Helgason - Vignir Baldursson - Jóhann Grétarsson - Jón Einarsson - Helgi Bentsson - Sigurjón Kristjánsson - Björn Þór Egilsson.

Blikar voru með mjög gott lið árið 1981. Liðið var í 2-3 sæti í 14 umferðir af 18. Lokastaðan 4. sæti með 22 stig. Víkingar unnu mótið með 25 stig. Fram varð í öðru sæti með 23 stig. ÍA og Breiðablik í 3. og 4. sæti með 22 stig - Blikar með 7 mörk í plús gegn 12 mörkum Skagamanna. 

Blikar unnu 7 leiki árið 1981, gerðu 8 jafntefli og töpuðu aðeins 3 leikjum: gegn Fram 3:1 í 11. umf, gegn KR 1:2 í 14. umf og 3:0 gegn KA í 17. umf. 

image

Breiðablik 1981

Efsta röð frá vinstri: Gunnar Steinn Pálsson liðsstjóri og túlkur, Jóhann Grétarsson, Jón Einarsson, Tómas Tómasson, Fritz Kissing þjálfari, Sigurður Grétarsson, Þorsteinn Geirsson, Þorsteinn Hilmarsson, Jón Ingi Ragnarsson formaður knattspyrnudeildar. 

Miðröð frá vinstri: Helgi Basli Helgason, Ómar Rafnsson, Björn Þór Egilsson, Valdimar Valdimarsson, Gunnlaugur Helgason, Ólafur Björnsson fyrirliði, Helgi Bentsson. 

Neðsta röð frá vinstri: Hákon Gunnarsson, Vignir Baldursson, Sigurjón Kristjánsson, Árni Dan Einarsson, Guðmundur Ásgeirsson, Gísli Einarsson og Sigurjón Rannversson.

Blikahópurinn 2022

Okkar maður Mikkel Qvist spilaði 2020 og 2021 31 leik með KA sem lánsmaður frá Horsens.

Nokkrir leikmenn KA liðsins hafa spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Steinþór Freyr Þorsteinsson lék 140 mótsleiki og skoraði 16 mörk með Blikum á árunum 2002-2008.  Elfar Árni Aðalsteinsson lék 105 mótsleiki með Blikaliðinu og skoraði 29 mörk á árunum 2012-2015.

Og þjálfari KA liðsins, Arnar Grétarsson er uppalinn Bliki. Hann byrjaði að spila með meistaraflokki í B-deild 1988 þá 16 ára gamall. Addi er fjórði leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi með 289 leiki og 61 mark. 

Einnig er framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk með Blikum.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987.

Leikmannahópur Breiðabliks 2022:

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 10. umferðar flutti 3 ára gamall í Smárann og hefur verið þar ótal mörgum stundum síðan. Hann æfði Karate hjá Breiðabliki frá 6 ára aldri til 10 ára en þá gaf pabbi hans eftir og leyfði honum að færa sig yfir í fótboltann, sem var þá farinn að eiga hug hans, og hefur gert alla tíð síðan. SpáBlikinn reið ekki feitum hesti frá sínum fótboltaferli en skoraði slatta af mörkum í yngri flokkum, iðulega fyrir B og C lið, þar sem hann spilaði einna helst. Hann var partur af feiknarsterkum 1995 árgangi félagsins, sem hefur skilað mönnum eins og Oliver Sigurjónssyni, Adami Erni, Davíð Kristjáni, Gunnlaugi Hlyni og Ósvaldi Jarl upp í meistaraflokk og er það líklega það sem stendur upp úr hjá SpáBlikanum, að æfa með öllum þessum strákum, en þeir gengu líka allir saman í gegnum grunnskólagönguna í Smáraskóla. SpáBlikinn hætti að iðka knattspyrnu þegar hann var 16 ára og talar alla jafnan um að það hafi verið vegna þess að hann ökklabrotnaði en þau sem hann þekkja vita að áhuginn var farinn að dvína.

SpáBlikinn og bræður hans tveir, Hlynur og Danni, hafa einna helst verið þekktir fyrir það í seinni tíð að syngja og tralla í stúkunni á Kópvogsvelli, jafnt sem öðrum stúkum landsins þar sem Blikar hafa spilað, og hvatt Breiðabliks liðið áfram. SpáBlikinn hefur verið óopinber formaður Kópacabana sveitarinnar í allnokkur ár og þrátt fyrir að hafa verið búsettur á Reyðarfirði síðastliðið eina og hálfa árið þá sér hann ennþá um flest allt sem viðkemur sveitinni og flýgur oft í leiki til að styðja Breiðablik áfram. Hann á líklega eftir að komast á færri leiki næstu árin þar sem hann á von á sínu fyrsta barni og er í góðri vinnu hjá Alcoa Fjarðaál.

Hilmar Jökull - Hvernig fer leikurinn?

Leikurinn fer 4-1 fyrir okkur grænklæddum. Það var þekkt stærð í fyrra að við gerðum Kópavogsvöll að óbrjótanlegu vígi sem enginn átti séns á að brjóta á bak aftur og ég er handviss um að í ár munu strákarnir ekki vilja síðri árangur á heimavelli heldur en fullkominn.

Valsleikurinn var ekkert annað en óheppni. Góð spilamennska, gríðarlega góð orka úr stúkunni og allt benti til þess að vindarnir blésu með okkur en yfir línuna datt það ekki.

Ég er ekki minna en handviss um að Blikar úr Kópavogi vilji sýna úr hverju þeir eru gerðir, sérstaklega þegar þeir eru að mæta Adda Grétars, sem þekkir okkur vel, og helst yfirspila KA sundur og saman.

Þá geta strákarnir fagnað eins og ber, af því við Blikar höfum beðið lengi í þessu landsleikjahléi og biðin eftir fagnaðaðarlátum er orðin sár EN VIÐ VITUM ALLIR - AÐ ÞETTA ER OKKAR ÁR!

image

Her er SpáBliki 10. umferðar, Hilmar Jökull, ásamt meðlimum Kópacabana-sveitarinnar á leik Breiðabliks gegn ÍA árið 2015.

BlikaLjósið

"BlikaLjós leiksins" Umsjón: Aron Páll Gylfason.

Elli Helga, einnig þekktur sem Lucio hefur verið að glíma við slæm meiðsli síðasta rúma árið. Hann virðist vera búinn að jafna sig á þeim meiðslum og ætti að koma tvíefldur til baka.

Munu Akureyringarnir finna fyrir krafti Lucio á mánudagskvöld og munu Blikar halda hreinu gegn öflugu liði KA?

Fylgstu vel með Elfari, hvort sem hann verður á bekknum eða í byrjunarliðinu gegn KA, hann mun láta finna fyrir sér.

image

Dagskrá

Græna stofan opnar tímanlega, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á mánudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Kópacabana menn munu keyra upp stemninguna í stúkunni. Við hvetjum alla Blika til að taka undir með Kópacabana-mönnum í stúkunni á Kópavogsvelli.

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Mörkin úr leik Breiðabliks og KA í Pepsi Max-deild karla í fótbolta þann 21. ágúst í fyrra.

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að skrifa efni, setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is. 

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum.

Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is

image

Til baka