BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt tap á Akureyri

11.09.2022 image

Blikar urðu að sætta sig við súrt 2:1 tap á Akureyri í hörkufótboltaleik. Tvenn varnarmistök urðu til þess að stigin urðu öll eftir fyrir norðan. Jafntefli hefðu ekki verið ósanngjörn niðurstaða en stundum detta ekki úrslitin með okkur. Forysta okkar á toppnum er hins vegar enn sex stig og markatalan hagstæð. Við þurfum því bara að bíta í skjaldarrendurnar og koma dýrvitlausir til leiks í síðasta leik hefðbundinnar deildakeppni gegn ÍBV á Kópavogsvelli næsta laugardag.

image

Það var fögur sjón sem blasti við flugdrekafólki  í Úlfarsfellinu á sunnudagsmorguninn því löng græn bílalest stuðningsmanna Blikaliðsins var á leið norður yfir heiðar til að styðja við liðið sitt, þar með talið eitt stykki langferðabíll með káta Kópacabana-pilta  Einnig brenndi Hilmar Jökull, nýorðinn pabbi á Reyðarfirði, yfir Möðrudalsöræfin á sínum fjallabíl til að styðja sína menn. Stuðningurinn í stúkunni var því mjög góður og eru öllu þessu fólki færðar þakkir fyrir góðan stuðning.

image

Fyrsta mark leiksins kom eftir kolrangan aukaspyrnudóm Vilhjálms Alvars.  Knötturinn sveif inn í teiginn og rangstöðutaktík Blika klikkaði þannig að einn heimapiltur átti ekki í erfiðleikum að skalla í markið framhjá Antoni Ara í markinu. Þeir grænklæddu höfðu verið ívið sterkari í hálfleiknum fram að þessu en ákvörðunartaka okkar pilta á síðasta fjórðungnum var ekki nægjanlega markviss. Því héldum við inn í búningsklefa einu marki undir.

Stöðubaráttan hélt áfram í síðari hálfleik. Við vorum þó ívið ákafari en heimadrengir voru samt hættulegir í skyndisóknum sínum. En svo kom að því að við náðum að jafna leikinn. Viktor Karl átti flottan sprett inn í vítateig KA-manna, fíflaði alla vörnina og lét vaða á markið. Markvörður þeirra gulklæddu hafði hönd á knettinum en skotið var fast og staðan orðin 1:1. Kættust nú stuðningsmenn Blika í stúkunni og töldu að við myndum láta kné fylgja kviði.

En ef einhverjum óskiljanlegum ástæðum gáfum við eftir í leiknum og heimapiltar sóttu meira á okkur síðustu 20 mínútur leiksins. Hins vegar var algjör óþarfi að gefa öll stigin frá sér og það vita leikmennirnir best sjálfir. En lukkudísirnar voru ekki með okkur í þessu leik. Gísli hafði til dæmis átt heimsklassa sendingu á Viktor Karl skömu fyrir leikslok en ágætt skot Viktors Karls var vel varið hjá Jajalo markverði KA. Einnig átti Dagur Dan flotta aukaspyrnu en aftur var Jajalo vel á verði og sló knöttinn yfir. Ýmsir stuðningsmenn Blika veltu líka fyrir sér hvers vegna þjálfarateymið gerði ekki breytingu á liðinu fyrr en alveg undir lok leiksins. En svona er þetta með ef og hefði. Tapið var staðreynd og við verðum að taka því.

Það þýðir hins vegar ekkert að hengja haus. Stundum fer knötturinn í stöngina og út og það var það sem gerðist í  þessum leik. Við erum enn með 6 stiga forskot fyrir síðasta leik í hefðbundinni deildarkeppni sem verður gegn ÍBV á Kópavogsvelli næsta laugardag. Þar verða strákarnir okkar mættir í hefndarhug. Og ef áhorfendur fjölmenna þá mun knötturinn svo sannarlega fara í stöngina og inn!

-AP

Leikjaáfangi hjá okkar manni Damir Muminovic:

image

image

Smella á mynd til að sjá hápunkta leiksins á Youtube

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka