Besta deild karla 2025 - Efri hluti: FH - Breiðablik
25.09.2025
Þegar flautað verður til leiks FH og Breiðabliks í 24. umferð í efri hluta Bestu deildarinnar í Kaplakrika á laugardaginn kl.14:00 verður ár liðið frá síðasta sigri Breiðabliks í deildarleik í Krikanum. Í leiknum 29. september í fyrra - sem var líka í 24.umferð - vann Breiðablik með sigurmarki beint úr hornspyrnu frá Kristni Jónssyni á 52. mínútu.
Tölfræði liðanna í efstu deild er mjög jöfn. Í 64 leikjum liðanna í A-deild, fyrst 1976, er jafnt á tölum. FH sigar eru 26 gegn 25 sigrum Blika - jafnteflin eru 13.
Í 32 leikum í Krikanum eru sigarar heimaliðsins 12 gegn 11 sigrum Breiðabliks – jafnteflin eru 9.
Og það er mikið skorað eða 3 mörk í leik að meðaltali. Blikar leiða í markaskorun með 99 mörk gegn 94.
FH er eitt þriggja liða sem Breiðablik hefur mætt í yfir 130 mótsleikjum. Hin liðin eru; ÍBK (Keflavík) með 133 mótsleiki og ÍA með 131 mótsleiki. Einnig eru leikir gegn ÍBH(KRH) en FH og Haukar notuðu það heiti fyrir sameiginlegt lið í Litlu bikarkeppninni (1961-1995).
Um Litla bikarinn - Litla bikarkeppninni var æfingarmót í knattspyrnu sem var haldið á Suðvesturhorninu utan Reykjavíkur frá 1961 til 1995. Hún var stofnuð að frumkvæði Alberts Guðmundssonar til að jafna stöðu liða utan höfuðborgarinnar sem tóku ekki þátt í Reykjavíkurmótinu. Mótið var lagt niður þegar Deildarbikarinn var stofnaður árið 1996 og tók við sem formlegt æfingamót fyrir Íslandsmótið. Nánar hér.
FH - Breiðablik
Besta deild karla 2025 - Efri hluti: FH - Breiðablik í Kaplakrika á laugardaginn kl.14:00!
Miðasala er á: Stubbur
Staða Breiðabliksliðsins fyrir 24. umferðina í efri hluta Bestu er 4. sæti og 35 stig.
Leikir gegn FH árið 2025
"Það er ekki auðvelt að taka stílvopnið sér í hendur eftir 4:5 tap Blika á Kópavogsvelli gegn FH í Bestu deild karla í gærkvöldi. Það er hægt að finna nokkra jákvæða punkta í leiknum eins og að við höfum ekki gefist upp og náð að skora tvö mörk í lokin og að fyrsti byrjunarliðsleikur Davíðs Ingvarssonar hafi lofað góðu. En það sem stendur því miður upp úr er algjört leikþrot liðsins á 20 mínútna kafla í síðari hálfleik. Liðið fékk á sig fjögur mörk á þessum kafla og það á ekki að vera í boði í þessari deild! Nú þurfa menn að hysja upp um sig brækurnar og koma eins og dýrvitlausir menn í Evrópuleikinn á fimmtudaginn og sýna hvað í Blikaliðinu býr!"


"Blikar töpuðu 2:0 fyrir FH í Kaplakrika í gær. Leikurinn var lítið fyrir augað og vilja okkar piltar örugglega gleyma þessum leik sem fyrst. Við þurfum bara að hysja upp um okkur buxurnar og mæta dýrvitlausir í leikinn gegn ÍA á fimmtudaginn á Kópavogsvelli. Munum að tapið gegn FH á útivelli í júní í fyrra var upphafið af mikilli sigurhrinu sem færði okkur að lokum Íslandsmeistaratitil í hús. Nú þurfa leikmenn bara að endurtaka söguna frá því fyrra!"


Innbyrðis leikir liðanna í efri hluta 2023 - 2024
"Það viðraði vel á dýr og menn í dag þegar Blikar og FH mættust í fyrstu umferð úrslitakeppni efri hluta Bestu deildarinnar. Skúraloft en hægur vindur af suðaustri og regnbogar ekki langt undan á austurloftinu. Aðeins 4 stig skildu liðin að fyrir leik. Þau áttust síðast við fyrir sléttum tveim 2 vikum og þá fóru gestirnir burt með 3 stig í gallsúrum leik að okkar mati. Sigur í leiknum myndi styrkja okkar stöðu í baráttunni um sæti í evrópukeppni á næsta ári, þar sem 4 efstu lið Bestu deildar öðlast þátttökurétt. Þar er ekkert í hendi enn og var það ekki fyrir þennan leik. Það voru því talsverðar væntingar um að nú myndu heimamenn láta sverfa til stáls og sýna tennurnar. Áhorfendur ekki ýkja margir miðað við mikilvægi leiksins og mætti halda að Kópavogsbúar nenni ekki lengur á völlinn nema á Evrópuleiki og það er sorglegt, því ekki veitir okkar mönnum af góðum stuðningi. Hann eiga þeir sannarlega skilið."


" ,,Loksins, loksins, loksins..,“ trölluðu stuðningsmenn Blika þegar þeir gengu kampakátir frá Kaplakrika eftir 0:1 sigur á heimamönnum í Bestu deild karla í gær. Ekki að furða því hálf-gerð álög hafa fylgt Blikaliðinu á þessum velli undanfarin ár. Hver gleymir þungum skrefum Blika úr Krikanum í september árið 2021! En hugurinn leitaði aftur til ársins 2019 þegar Blikaliðið snéri 2:0 stöðu í 2:4 sigur eftir rosalegan síðari hálfleik."


Sagan & Tölfræði
Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deildum, bikarkeppni, deildabikarnum og Litlu bikarkeppninni, eru samtals 130 leikir. Blikasigrar eru 47 gegn 59 - jafnteflin eru 24. Leikir í A og B deild eru samtals 84. Í Bikarkeppni KSÍ eru 4 leikir. Deildabikar KSÍ 12 leikir. Í Fótbolta.net mótinu 8 leikir og 19 leikir í Litlu bikarkeppninni.
Efsta deild
Leikir í efstu deild eru 64. Staðan er jöfn. Blikaliðið með 25 sigra gegn 26 - jafnteflin er 13. Í leikjunum 64 hafa liðin skorað 193 mörk - Blikar með 99 mörk gegn 94 mörkum FH.
Tölfræðin í Krikanum er líka jöfn. Í 32 leikum í þar eru sigarar heimaliðsins 12 gegn 11 sigrum Breiðabliks – jafnteflin eru 9.
Leikmannahópurinn
Tómas Orri Róbertssson söðlaði um í vor og skrifaði undir 3 ára samning við FH. Og Blikinn Dagur Örn Fjeldsted leikur núna sem lánsmaður hjá Fimleikafélaginu. Í okkar hópi er það Kristinn Steindórsson sem spilað hefur með FH.
Leikmannahópur Breiðabliks
Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Eiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi Guðfinnsson. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.
Stuðningsmaðurinn
SpáBliki leiksins gegn FH kemur úr efri byggðum Reykjavíkur en hefur búið öll sín búskaparár í Kópavogi, fyrst í Lundarbrekkunni og síðustu 25 ár í Lindahverfinu.
Þau hjónin kynntumst í Verzló, hún af Nesinu og hann úr Árbænum og þau mættumst á miðri leið og fluttu í Kópavoginn. Þótt hjartað hafi slegið með öðru liði fyrstu árin þá hefur Blikahjartað tekið yfir allt enda hefur SpáBlikinn hvatt Breiðablik ötullega síðustu 25 árin hið minnsta. Við hjónin eigum 3 börn sem öll léku knattspyrnu í yngri flokkum Breiðabliks. Þar unnust margir góðir sigrar en líka ósigrar sem svíða. En við höfum í gegnum árin fylgt þeim í gegnum þykkt og þunnt, út um allt land sem og til útlanda, enda finnum við það að það skiptir börnin máli að fylgja þeim eftir. Núna er aðeins yngsti sonurinn eftir í boltanum og spilar hann með Njarðvík og var hársbreidd frá því að komast upp í þá Bestu á dögunum. Kannski á hann eftir að spila fyrir Breiðablik aftur, hver veit, en hann a.m.k. heldur sig við græna litinn, sem er gott!
Blikinn hefur lagt sitt af mörkum í sjálfboðastarfinu fyrir Breiðablik fyrst í foreldrastarfinu í kringum yngri flokkana og undanfarin ár í gegnum Blikabklúbbinn og ættu margir kannast við kauða í Blikabúðinni góðu á Kópavogsvelli. Mynd: Blikinn við störf í útbúi Blikabúðarinnar fyrir leiki í Sambandsdeildinni á Laugardalsvelli.
Jón Jóhann Þórðarson - Hvernig fer leikurinn?
Ég bæði vona og held að við vinnum þennan leik 0-2 og munu Viktor Karl og Valgeir skora fyrir okkar menn. Okkur hefur ekki gengið vel á Kaplakrikavelli undanfarin ár en ég held að það muni breytast núna.
Áfram Breiðablik!
SpáBlikinn Jón Jóhann Þórðarson fagnar eftir 1100 km ferð frá Danmörku til Parísar hjólandi með Team Rynkeby
Dagskrá
Flautað verður til leiks í Kaplakrika á laugardaginn kl.14:00!
Miðasala er á: Stubbur
Sýn Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.
Mætum öll í stúkuna í Krikanum og hvetjum okkar menn til sigurs.
Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!
PÓÁ
Klippur úr leik liðanan í Krikanum í 24. umferð í efri hluta Bestu deildarinnar í fyrra:
BREIÐABLIK 75 ÁRA