BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla 2023. Úrslitakeppni. Breiðablik - FH

16.09.2023 image

Breiðablik - FH

Eftir hefðbundið 22 leikja mót er komið að fyrsta leik Blika í efri hluta úrslitakeppni Bestu deilar karla 2023 sem er gegn spræku liði Fimleikafélags Hafnarfjarðar. Síðasta viðureign okkar manna var einmitt gegn Hafnarfjarðarliðinu sem unnu okkur með tveimur mörkum gegn engu á Kópavogsvelli í 22. umferð. Blikaliðið náði sér engan vegin á strik í þeim leik. 

Upphaflega átti leikurinn að fara fram kl.13:00 á laugardag en var frestað vegna veðurs. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli kl.18:00 á sunnudaginn.

Miðasala á Stubbur: Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport rás 5 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í Bestu deildinni fyrir fyrsta leik í efri hluta úrslitakeppni í Bestu. Breiðablik er í þriðja sæti með 38 stig á eftir Valsmönum og þarf sigur gegn FH til að eiga möguleika á að komast upp í annað sætið. Í úrslitakeppninni eru 15 stig í boði í 5 leikjum gegn: FH - Vík R. - Val - KR og Stjörnunni. 

image

Sagan & Tölfræði

Heildarfjöldi innbyrðis mótsleikja FH og Breiðabliks í A & B deild, bikar, deildabikar og litla bikarnum, eru 123 leikir. Blikasigrar eru 45 gegn 54 - jafnteflin eru 24.

Efsta deild

Leikir í A-deild eru 58. Blikasigrar eru 23 gegn 22 sigrum FH - jafnteflin eru 13.

Í leikjunum 58 hafa liðin skorað 176 mörk - Blikar með 92 mörk gegn 84 mörkum FH-inga

Síðustu 5 viðureignir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli:

Leikmannahópur

Í leikmannahópi gestanna eru tveir leikmenn sem hafa spilað í Breiðablikstreyjunni. Finnur Orri Margeirsson söðlaði um 2022 og gekk til liðs við Hafnarfjarðarliðið. Það gerði einnig Ólafur Guðmundsson í júlí glugganum 2021. 

Í okkar hópi eru það Kristinn Steindórsson sem hefur leikið með FH-ingum. Davíð Ingvarsson spilaði með yngri flokkum FH frá 2011 til 2014. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins gegn FH er fæddur 1957 og ólst upp vestur á Snæfellsnesi til 15 ára aldurs en flutti þá á Kársnesið. Sveitastrákurinn gekk í heimavistarskóla í Laugargerðisskóla í Eyjahreppi og þar var fótbolta sparkað í flestum frístundum.

Áhuginn á knattspyrnu kom ekki síst til við að hlusta á beinar útsendingar í BBC af leikjum í ensku knattspyrnunni og að sjálf sögðu var auðvelt að sjá þetta allt fyrir sér og leika síðan listirnar eftir úti á túni með stóra bróður, í gúmmískóm með plastbolta.

Minnisstætt er honum þegar málarar af Skaganum unnu á heimilinu og spurðu hann, þar sem hann var að leika sér með bolta úti á hlaði í vorblíðunni: „Eruð þið ekki með mark?” Hann svaraði að bragði: „Jú, jú, fjöður framan hægra og sneiðrifað aftan vinstra.” Sauðburðurinn og blóðug mörkun lambanna var sveitapiltinum ofar í huga en boltinn sem hann var þó með á tánum!

Eftir að í Kópavoginn kom 1972 heillaði Vallagerðisvöllurinn, fyrst sem sparkvöllur og síðan á skipulögðum æfingum hjá 3. flokki Breiðabliks og var fyrsti þjálfarinn sá mikli Bliki Jón Ingi Ragnarsson heitinn. Það sem upp úr stendur frá þessum árum er vinátta og félagsskapur strákanna í Breiðablik, sem síðan hélst áfram í gegnum Augnablik og þátttöku í Pollamótum á Akureyri. Nú er það félagsskapur í Blikaklúbbnum og að hitta gömlu félagana á leikjum á Kópavogsvelli sem heldur þræðinum lifandi.

Aðeins náðist einn meistaraflokksleikur hjá okkar manni með Blikunum, í jafnteflisleik á móti ÍA uppi á Skaga í Litlu-Bikarkeppninni vorið 1979. Hann segir þó nokkuð rogginn frá því að á bekknum í þeim leik var Siggi Grétars, sem síðan spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í næsta leik, því okkar maður meiddist í leiknum á Akranesi.

Bikarmeistaratitill í 2. flokki 1976 var mjög sætur og þar spilaði mjög samhentur hópur:

image

Efsta röð frá vinstri: Halldór Halldórsson, þjálfari, Bergsveinn Þórarinsson, Herbert Eiríksson, Jón Orri Guðmundsson, Hilmar Sigurgíslason, Guðbjörn Einar Guðlaugsson og Guðni Stefánsson, formaður knattspyrnudeildar. Miðröð frá vinstri: Theódór Guðfinnsson, Kristján Andrésson, Gissur Ágústsson, Kristján Þór Gunnarsson og Páll Snorrason. Fremsta röð frá vinstri: Þórólfur Árnason, Ingvar Teitsson, fyrirliði, Sigurjón Rannversson og Karl Rafnsson

Þórólfur Árnason - Hvernig fer leikurinn?

Ég held að okkar menn séu í góðu standi núna, eftir kærkomna hvíld að loknum mjög krefjandi tíma með miklu leikjaálagi. Við vinnum því leikinn og höldum hreinu, eigum við ekki að segja 2:0. Þó Blikarnir hafi ekki átt jafn gott sumar og í fyrra þá má ekki vanmeta mikilvægi þess afreks að komast nú í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu og nýta síðan vel þá miklu reynslu sem þátttaka þar mun gefa okkur. Raunhæft markmið núna er að liðið tryggi sér annað sætið í Bestu deildinni sem er mjög viðunandi árangur.

image

SpáBlikinn og sonur hans Baldur, gleðjast yfir veiði dagsins með afastrákunum Óskari Bjarna og Einari Jóel.

Dagskrá

Upphaflega átti leikurinn að fara fram kl.13:00 á laugardag en var frestað vegna veðurs. Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudag kl.18:00! 

Völlurinn opnar klukkutíma fyrirleik. Börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur: Stubbur

Stöð 2 Sport sýnir leikinn á rás 5 fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf alls staðar!

PÓÁ

Leikur liðanna í Krikanum í sumar var fjörugur 2:2 leikur.

Til baka