BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Áfram gakk!

18.08.2025 image

Það er ekki auðvelt að taka stílvopnið sér í hendur eftir 4:5 tap Blika á Kópavogsvelli gegn FH í Bestu deild karla í gærkvöldi. Það er hægt að finna nokkra jákvæða punkta í leiknum eins og að við höfum ekki gefist upp og náð að skora tvö mörk í lokin og að fyrsti byrjunarliðsleikur Davíðs Ingvarssonar hafi lofað góðu. En það sem stendur því miður upp úr er algjört leikþrot liðsins á 20 mínútna kafla í síðari hálfleik. Liðið fékk á sig fjögur mörk á þessum kafla og það á ekki að vera í boði í þessari deild! Nú þurfa menn að hysja upp um sig brækurnar og koma eins og dýrvitlausir menn í Evrópuleikinn á fimmtudaginn og sýna hvað í Blikaliðinu býr!

Þjálfarateymið ákvað að hvíla nokkra af lykilmönnum liðsins í byrjun þessa leiks og er það vel skiljanlegt eftir mikið leikjaálag að undanförnu. En setja verður spurningamerki við þetta varnarkerfi sem liðið hefur verið að spila að undanförnu. Það hefur ekki verið að skila miklum árangri og það sýndi sig strax frá byrjun í gær. Liðið var í basli í varnarvinnunni strax frá byrjun og var í raun heppið að vera ekki komið undir á fyrstu tíu mínútum leiksins.

Það var því í raun gegn gangi leiksins þegar Blikaliðið komst yfir. Kristinn Steindórsson sendi þá snilldarsendingu fyrir mark FH liðsins á 26. mínútu leiksins þar kom Davíð Ingvarsson eins og gammur og sendi knöttinn í netið á mjög faglegan hátt. En Adam var ekki lengi í paradís því misskilningur í vörninni skilaði gestunum jöfnunarmarki aðeins nokkrum mínútum síðar. En Davíð var ekki hættur og skömmu fyrir leikhlé bætti hann öðru marki sínu við með góðu hlaupi og föstu skoti sem örninn í marki FH réð ekki við.

Stuðningsmenn Blika mauluðu hollustu og sætindi í bland í Blikaklúbbskaffinu í leikhléinu og voru flestir sammála að við gætum þakkað fyrir að vera yfir í leiknum. En samt ríkti nokkur bjartsýni í hópnum enda tap Valsmanna í Eyjum gullið tækifæri til að minnka forskot Hlíðarendapilta á toppnum. En þær vonir voru slökktar mjög fljótlega. Á rúmlega tuttugu mínútna kafla í byrjun síðari háflleiks stóð ekki steinn yfir steini í varnarleik okkar drengja. Óþarfi er að rifja upp atburðarrásins hér en svona frammistaða á ekki að geta gerst. Meira að segja Hilmar Jökull, Sindri og félagar í Kópacabanaflokkunum sátu hnýptir upp í stúku en það þarf mikið til að þagga niður í þeim! Mörkin frá Kristóferi Inga og Ásgeiri Orra í lokin voru smá sárabót en komu of seint til að breyta úrslitum leiksins.

,,Per ardua astra“ eða horfðu til himins sögðu Rómverjar til forna og það er það sem Blikaliðið þarf að gera núna. Læra af þessum mistökum, berja í skjaldarrendur og koma eins og dýrvitlausir menn í leikin gegn Virtus frá San Marinó á fimmtudaginn.  Liðið skuldar sjálfum sér og stuðningsmönnunum það!

AP

Til baka