BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hvað varð um liðið?

18.09.2023 image

Það viðraði vel á dýr og menn í dag þegar Blikar og FH mættust í fyrstu umferð úrslitakeppni efri hluta Bestu deildarinnar. Skúraloft en hægur vindur af suðaustri og regnbogar ekki langt undan á austurloftinu. Aðeins 4 stig skildu liðin að fyrir leik. Þau áttust síðast við fyrir sléttum tveim 2 vikum og þá fóru gestirnir burt með 3 stig í gallsúrum leik að okkar mati. Sigur í leiknum myndi styrkja okkar stöðu í baráttunni um sæti í evrópukeppni á næsta ári, þar sem 4 efstu lið Bestu deildar öðlast þátttökurétt. Þar er ekkert í hendi enn og var það ekki fyrir þennan leik. Það voru því talsverðar væntingar um að nú myndu heimamenn láta sverfa til stáls og sýna tennurnar. Áhorfendur ekki ýkja margir miðað við mikilvægi leiksins og mætti halda að Kópavogsbúar nenni ekki lengur á völlinn nema á Evrópuleiki og það er sorglegt, því ekki veitir okkar mönnum af góðum stuðningi. Hann eiga þeir sannarlega skilið.  
Byrjunarlið okkar manna var á þessa leið og var talsvert breytt frá síðasta leik.

Okkar menn byrjuðu þennan leik ágætlega og voru fljótir að koma sér í færi. Aðeins 3 mínútur voru liðnar af leiknum þegar Höskuldur komst í úrvals færi eftir gott spil en markvörðu náði að verja á undraverðan hátt. Þar fór gott færi forgörðum. Blikar vildu fá víti þegar brotið var á Kristni en dómarinn ekki á sama máli. Gestirnir sluppu sannarlega vel þar. Skömmu síðar endaði skot Viktors Karls í stönginni og Höskuldur skallaði framhjá í góðu færi. Gestirnir áttu ekki mörg færi fyrsta hálftímann en það besta fengu þeir eftir fast leikatriði þegar leikmaður gestanna var gersamlega óvaldaður við markteig en skallaði naumlega framhjá. Skömmu síðar var gert hlé á leiknum þegar leikmaður gestanna lá óvígur eftir samstuð við Anton Ara rétt utan vítateigs. Dómari kallaði bæði lið til búningskelefa á meðan verið var að hlúa að leikmanninum og bíða eftir sjúkrabíl. Fréttir af líðan hans eru enn óljósar en við sendum honum góðar batakveðjur og vonum að hann nái sér að fullu. Þegar leikur hófst á ný voru 45 mínútur liðnar á vallarklukkunni og upp gefinn viðbótartími 12 mínútur. Og þá dundi ógæfan yfir þegar minnst varði. Gestirnir fengu aukaspyrnu við hliðarlínu fyrir framan varamannabekk Blika, tóku hana stutt og svo kom langur bolti og hár inn á markteigshornið fjær þar sem varnarmaður okkar var mættur og ekki veit ég hvað hann ætlaði að gera en hann ætlaði örugglega ekki að senda hann beint í lappirnar og leikmanni gestanna sem var einn og óvaldaður á markteignum og þakkaði pent fyrir sig með því að renna boltanum í markið. Sannkallað útsölumark. Blikar sem nú voru lentir marki undir, virtust slegnir út af laginu og misstu boltann klaufalega nokkrum sinnum eftir þetta og náðu ekki að ógna marki gestanna að neinu ráði áður en flautað varar til leikhlés.
Staðan því 0-1 í leikhlé og er óhætt að segja að menn hafi verið hundfúlir í hálfleikskaffinu, því við áttum að vera komnir í 2-0 áður en gestirnir fengu fyrsta færið. Varnarleikur okkar ekki góður og FH-ingarnir ávallt á undan í alla skallabolti í og við vítateig okkar og okkar mönnum fataðist sannarlega flugið þegar leið á hálfleikinn. Uppspilið hægt og lítil ógn við teig gestanna og leikmenn að klappa boltanum allt of mikið. Og þegar við komumst í álitlegar stöður, sem var nokkrum sinnum,  þá vantaði mannskap inn í teig til að gera sér mat úr færunum. Fyrir vikið var kaffið ekkert sérstakt.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað hvað færin varðaði og það var bókstaflega ekkert að frétta fyrsta korterið eða þar til Eyþór komst í álitlegt skotfæri eftir gott spil en skot hans naumlega framhjá. Það var hans síðasta snerting því nú fóru Blikar í tvöfalda skiptingu. Ágúst Eðvald kom inn fyrir Eyþór og Klæmint kom inn fyrir Kristinn. Ánægjulegt að Kristinn sé búinn að ná sér af meiðslunum. Skömmu síðar fékk Klæmint dauðafæri eftir flottan undirbúning Höskuldar en skalli hans fór yfir markið…. æææ. Næstu mínútur fór leikurinn í algjöra þvælu. Pirringsbrot hjá báðum liðum út um allan völl og fátt sem gladdi augað. Blikar að flækja spilið allt of mikið og á hægu tempói, boltanum spilað fram og til baka en ekkert gekk. FH-ingar svo sem ekki að gera mikið en þeir fengu samt a.m.k. 2 álitleg færi og voru mikið sneggri að koma boltanum kanta á milli heldur en okkar menn. Það fór allt á fleygiferð hjá þeim þegar þeir unnu boltann. Hjá okkur var þetta iðulega þveröfugt. Davíð kom svo inn fyrir Andra Rafn en það var lítið að frétta hjá Blikum og þegar korter var til leiksloka tvöfölduðu gestirnir forystuna með enn einu útsölumarkinu þegar Blikar voru bókstaflega étnir og misstu boltann klaufalega við hliðarlínu á eigin vallarhelmingi. Leikmaður FH sem vann boltann var ekki að tvínóna við hlutina, kom honum eldsnöggt á samherja sem geystist inn í vítateig og lét vaða á markið. 0-2 takk fyrir og útlitið orðið ansi dökkt fyrir okkar menn. Alexander kom nú inn fyrir Oliver og Blikar freistuðu þess að minnka muninn og síðustu 10 mínúturnar áttu okkar menn fleiri skot að marki en 170 mínúturnar þar á undan gegn FH. Það dugði þó ekki til að skora mark þrátt fyrir að litlu hafi munað og niðurstaðan því aftur 0-2 tap gegn FH á heimavelli. Það eru svakaleg vonbrigði.

Þjálfarinn hefur oft haft á orði að hann horfi ekki bara á úrslitin í leikjunum, heldur líka á frammistöðuna. Frammistaðan í kvöld var ekki boðleg og er áhyggjuefni fyrir framhaldið í deildinni. Allt of margir leikmenn voru gersamlega heillum horfnir á löngum köflum og gerðu sig seka um barnaleg mistök. Vissulega voru það einstaklingsmistök sem kostuðu mörkin en einstaklingar tapa ekki leikjum. Það gerir liðsheildin og hún var ekki til staðar, og menn virkuðu ósamstíga. Uppspilið var búið að nefna. Alltaf stórhætta þegar boltinn kom inn í okkar vítateig og gestirnir nánast undantekningarlaust fyrstir á boltann þar. Gilti einu hvort það voru föst leikatriði eða ekki. Það vantaði sem sagt alla grimmd í okkar menn. Þetta verða menn að gera svo vel að laga fyrir næst leik. Það verður nefnilega minna gaman fyrir alla í þessari riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA ef við gerum í buxurnar hérna heima.

Að því sögðu þá óskum við liðinu góðs gengis á fimmtudag þegar þeir mæta Maccabi Tel Aviv ytra í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka