BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur á Stjörnunni

15.01.2017
Blikastelpurnar unnu góðan 4:1 sigur á Stjörnunni á Faxaflóamótinu í knattspyrnu í  Fífunni í gær. Stjarnan komst að vísu yfir í fyrri hálfleik 0:1 og þannig var staðan í leikhléi. Okkar stúlkur fóru hins vegar á kostum í síðari hálfleik og skoruðu fjögur flott mörk og tóku þannig forystu á mótinu.
Leikurinn var í jafnvægi í fyrri hálfleik og skiptust liðin á að sækja. Við vorum þó örlítið meira með boltann en náðum samt ekki að skapa okkur nein afgerandi færi. Að vísu náði Berglind einu sinni góðum skalla að marki en markvörðurinn varði mjög vel. Gestirnir náðu einu marki á okkur en það virtist ekkert slá okkar stúlkur út af laginu.
 
Í síðari hálfleik var í raun bara eitt lið á vellinum.  Við sóttum stíft og uppskárum fjögur mörk. Fyrst fylgdi Andrea Rán Hauksdóttir góðu skoti Fanndísar og setti knöttinn i netið. Síðan skoraði Fanndís úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Berglindi. Þriðja markið gerði Berglind Björg sjálf eftir að hafa fengið knöttinn í teignum eftir mikla rispu Söndru Sifjar. Lokanaglann í kistu Stjörnustúlkna gerði síðan Fanndís eftir að hafa fíflað Stjörnuvörnina upp úr skónum.
 
Blikaliðið virkaði mjög frískt í þessum leik. Rakel stjórnaði miðjuspilinu eins og herforingi og hljóp gríðarmikið í leiknum. Berglind Björg er sterk í framlínunni og tekur vel á móti boltanum og kemur honum vel í leik. Nýi leikmaðurinn Heiðdís Sigurjónsdóttir stóð vaktina í vörninni með prýði og virðast þær Ingibjörg ná vel saman í miðju varnarinnar. Sandra  Sif kemur sterk til baka eftir dvöl í Árbænum og Arna Dís er líka orðin gríðarlega öflugur bakvörður.  Sólveig Jóhannesdóttir Larsen stóð sig vel hægra megin í sókninni í síðari hálfleik og réð vörnin hjá Stjörnunni lítið við hana.  Svo þarf vart að taka fram að Fanndís er auðvitað sóknarmaður í heimsklassa!
Þessi leikur lofar góðu um tímabilið. En munum að enn er langt í mót og ekki má ofmetnast þrátt fyrir þessi úrslit. Fleiri lið hafa verið að styrkja sig í kvennaboltanum þannig að búast má við skemmtilegru baráttu næsta sumar.

Til baka