BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: Breiðablik – Grindavík á Kópavogsvelli mánudag 22. júlí kl.19:15!

19.07.2019

Fyrsti leikur strákanna í Pepsi MAX eftir Evrópuleikina við FC Vaduz er á Kópavogsvelli á mánudaginn kl.19:15 þegar Tufa og hans menn í Grindavík koma í heimsókn á Kópavogsvöll.

Staða liðanna í Pepsi MAX deildinni er þannig að Blikar eru í 2. sæti, sjö stigum á eftir KR sem er í 1. sæti, og einu stigi á undan Skagamönnum í 3. sæti. Grindvíkingar eru í 9. sæti,  einu stigi á undan Reykjavíkur Víkingum og KA sem eru í 10. og 11. sæti, og einu stig á eftir HK sem er í 8. sæti.

Eftir rýrar heimtur í síðustu deildarleikjum eru strákarnir ákveðnir að sýna sitt rétta andlit á móti Grindavík og trygga þannig enn frekar stöðu liðsins í toppbaráttunni.

“Grindavíkurgrýlan”

Frá 1985 til 1993 gekk Breiðabliksliðinu bölvanlega að safna stigum gegn Grindavík – sérstaklega á þeirra heimavelli í Grindavík. Eftir marga tapleiki í Grindavík á árunum 1985-1993 var loksins komið að sigurleik. Haustið 1993 unnu Blikar góðan 0:3 sigur í Grindavík. Þar með var álögunum - sem liðið taldi sig vera undir (les. Grindavíkurgrýlan) - loksins aflétt. Ingi Björn Albertsson, þáverandi þjálfari Breiðabliks, sagði þetta á töfluæfingu fyrir leikinn: “Ég hef aldrei tapað fyrir Grindavík” og að því sögðu var brunað til Grindavíkur þar sem Ingi Björn barði liðið sitt áfram. Sigurmörkin skoruðu Jón “Bonni” Jónsson, Willum Þór Þórsson og Sigurjón Kristjánsson. Meira> 

Reyndar kom svo annað tímabil á árunum 1999 til 2006 þar Blikar náðu ekki hagstæðum úrslitum gegn Grindavíkurliðinu í Grindavík. Meira> 

Sagan

Innbyrðis mótsleikir liðanna frá upphafi eru 47 leikir. Jafnt er á öllum tölum. Bæði lið hafa unnið 18 sinnum. Jafnteflin eru 11. Meira>

Allra fyrsti mótsleikur Breiðabliks og Grindvíkinga á Kópavogsvelli var í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ í júní 1985. “Óvænt í Kópavogi” var fyrrisögn Þjóðviljans í umfjöllun um leikinn, enda léku Grindvíkingar í 3. deild á þeim tíma. Meira>

Fyrsti leikur liðanna á Kópavogsvelli í efstu deild (þá Sjóvá-Almennra deildin) fór fram 20. júlí 1995. Leiknum lauk með 0:0 jafntefli.

Býsna fjörugur leikur þrátt fyrir markalaust jafntefli eins og sjá má í þessu merkilega myndbandi frá 1995.

Efsta Deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru alls 27. Breiðablik hefur sigrað 9 viðureignir, Grindvíkingar 11 og 7 leikir endað jafntefli. Tölfræðin í efstu deild fellur því með Grindvíkingum. Meira>

Fyrri leikur liðanna í Pepsi MAX deildinni 2019 var í Grindavík fyrstu umferð. Leiknum lauk með 0:2 sigri okkar manna. Tíðindamaður blikar.is skrifaði þetta um leikinn:

Grindavík er græn

Blikar mættu til leiks í Pepsi Max deildinni í dag þegar þeir mættu heimamönnum í Grindavík. Það var talsverð spenna í stuðningsmönnum Blika fyrir þennan leik og menn mátulega bjartsýnir eftir misjafnt gengi í vor og talsverðar breytingar á leikmannahópnum fram á síðustu stundu og sér kannski ekki fyrir endann á því dæmi enn. Blikar hafa einsog kunnugt er misst legíó leikmanna frá síðasta ári en sem betur fer hefur líka verið náð í nýja leikmenn til viðbótar við þá sem fyrir voru. Ekki veitir af, enda ætla menn að bæta um betur frá í fyrra og til þess að þarf að auka breidd og gæði. En það voru semsagt ýmis spurningamerki á lofti fyrir þennan leik. Meira>

Klippur frá fyrri leik liðanna í Grindavík

Síðustu 5 leikir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli

2018. 1:1 blikar.is: Aulaskapur

2017. 0:0 blikar.is: Ráðgáta

2012. 2:0 blikar.is: Sigur gegn Grindvíkingum

2011. 2:1 .net: Blikar komust á bragðið gegn tíu Grindvíkingum

2010. 2:3 .net: Fyrstu stig Grindavíkur komu gegn Breiðablik

Markaregn!

Liðin hafa skorað 99 mörk í 27 innbyrðis leikjum í efstu deild. Leikir liðanna árin 1995 og 1996 enduðu með markalausu jafntefli. Hér eru nokkur dæmi um leiki þar sem liðin skora 3 eða fl mörk í leik: 2017: 4:3 - 2012: 2:4- 2011: 2:1 - 2010: 2:3 - 2009: 3:0 - 2008: 3:6 - 2006: 2:3 - 2001: 2:1 - 2000: 3:4 - 1999: 4:1 - 1995: 6:3.

Leikmenn

Leikmannahópur Blika er nokkuð breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar.Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlíglugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Að lokum þá er Aron Bjarnason á förum til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. 

Smella á myndina til að skoða síðu meistaraflokks karla 2019

Dagskrá

Það verður kaldur í nýju tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Mætum snemma og styðjum Blikaliðið til sigurs!

Leikur Breiðabliks og Grindavíkur verður flautaður á kl.19:15 á mánudaginn!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Þáttur #3 af Græna herberginu kominn í loftið.

Til baka