BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigur gegn Grindvíkingum

16.06.2012

Góðir hálsar Blikar hafa tengt saman 2 sigurleiki í röð í deildinni og 3 með bikarkeppninni. Í þessum þremur leikjum hefur Breiðabliksliðið skorað 9 mörk og ekki fengið á sig eitt einasta.

Vörnin hefur litið afskaplega vel út með þá Sverri Inga og Renee í hafsentum og Gísla Pál og Kidda Jóns í bakvörðum. Þá má ekki gleyma vinnuframlagi miðjumannanna okkar sem eru duglegir að hjálpa til í vörninni og hlaupa mikið í leikjum. 

En að leiknum í dag þá voru lærisveinar Guðjóns Þórðarsonar mættir í Kópavoginn og ætluðu sér að næla sér í sinn fyrsta sigur í sumar. Nei, sögðu lærisveinar Ólafs Kristjánssonar. Enda Ólafur töluvert flottari en Guðjón (þ.e.a.s. þjálfari Grindavíkur ekki undirritaður). 

Byrjunarlið Blika var:

Kale
Gísli Páll- Sverrir - Renee- Kristinn Jóns

Olgeir- Finnur

Haukur- Yeoman-Árni Vill

Rnkovic

Það voru ekkert sérstaklega margir áhorfendur sem lögðu leið sína í Smárann til að fylgjast með leiknum en þeir sem mættu sáu svo sannarlega ekki eftir þvi. Það var ljóst fyrir leikinn að þetta var gríðarlega mikilvægur leikur upp á framhaldið í deildinni að gera. Með sigri myndum við komast upp í 5 sæti en tap þýddi 10 sætið. Sigur því gríðarlega mikilvægur. 
Fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu. Hvorugt liðið var að gefa mikil færi á sér en Blikar þó sterkari allan fyrri hálfleikinn. 
King Olgeir stjórnaði miðjunni ásamt fyrirliðanum Finni Orra. Hættulegasta færi fyrri hálfleiksins kom einmitt eftir að Olgeir gaf boltann með höfðinu á Petar Rnkovic sem skaut í slá úr ákjósanlegu færi. 
Staðan í hálfleik 0-0 og menn býsna bjartsýnir fyrir síðari hálfleikinn enda höfðu Blikar stjórnað gangi leiksins og Sverrir og Renee ekki haft neitt að gera í 45 mínútur.  Þeir félagar þurftu nánast að hoppa á staðnum til að halda á sér hita. 

Eftir ágætis Blikakaffi var kominn tími á síðari hálfleikinn og þar áttu Blikar eftir að reynast enn betri. 

Renee átti fína aukaspyrnu en gamli refurinn hann Ólafur Örn Bjarnason hljóp á línuna rétt áður en sá hollenski skaut. Ef ekki hefði verið fyrir svona reynslutrikk hefði boltinn legið í markinu hjá Óskari Péturssyni. 
Þeir Guðmundur Pétursson og Rafn Andri Haraldsson komu báðir inn á um miðbik síðari hálfleiksins og áttu heldur betur eftir að láta að sér kveða. Rafn Andri skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir fína rispu hjá manni leiksins, Kidda Jóns. 1-0 fyrir Breiðablik og Rafn Andri heldur betur með frábæra innkomu. 
Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma innsiglaði Gummi Pé sigur heimamanna með frábærri afgreiðslu eftir fínan undirbúning Rafns Andra. Gummi fékk raunar 2 tilraunir til að skjóta en eftir þá fyrri þá fylgdi hann eftir og þrumaði boltanum framhjá steinrunnum Óskari í markinu. Lokastaðan 2-0 og öruggur sigur Breiðabliks í höfn. 
Annar 2-0 sigurinn í deildinni og enn einu sinni höldum við hreinu. 
Við vorum að spila alveg glimrandi bolta á köflum en duttum stundum niður á sama plan og gestirnir sem virtust ekki hafa neinn áhuga á að vinna. 
Besti leikmaður vallarins var Kristinn Jónsson sem átti vinstri vænginn og ég fullyrði að Lars Lagerback þurfi að renna við í Kópavoginn og athuga hvort Kiddi nenni að spila með landsliðinu líka. 
Sverrir og Renee voru virkilega öruggir í sínum aðgerðum og áttu aldrei í vandræðum með sóknarleik gestanna. 
King Olgeir spilaði líkt og King Olgeir gerir, virkilega gaman að sjá Olla í sínu besta standi.
Stærsti plúsinn í dag var innkoma Gumma Pé sem kom inn á í öðrum leiknum í röð og sýndi það og sannaði að hann er frábær leikmaður og á eflaust eftir að reynast Blikaliðinu dýrmætur í sumar.

Frábær sigur hjá Breiðabliksliðinu sem spýtti sér frá fallsvæðinu og núna taka við 2 gríðarlega erfiðir leikir gegn KR, fyrst í deild og svo í bikarkeppni. 
Við hvetjum alla Blika til að mæta á báða leikina og styðja vel við bakið á grænklæddum.

GMS

Til baka