BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Grindavík er græn

27.04.2019

Blikar mættu til leiks í Pepsi Max deildinni í dag þegar þeir mættu heimamönnum í Grindavík. Það var talsverð spenna í stuðningsmönnum Blika fyrir þennan leik og menn mátulega bjartsýnir eftir misjafnt gengi í vor og talsverðar breytingar á leikmannahópnum fram á síðustu stundu og sér kannski ekki fyrir endann á því dæmi enn. Blikar hafa einsog kunnugt er misst legíó leikmanna frá síðasta ári en sem betur fer hefur líka verið náð í nýja leikmenn til viðbótar við þá sem fyrir voru. Ekki veitir af, enda ætla menn að bæta um betur frá í fyrra og til þess að þarf að auka breidd og gæði. En það voru semsagt ýmis spurningamerki á lofti fyrir þennan leik.

Völlurinn virtist í góðu standi en greinilega nokkuð þungur og menn runnu talsvert til og sumir alveg á rassinn þegar síst skyldi. En fallega grænn var hann, enda tíðin verið góð.

úrslit.net skýrsla       Leikskýrsla KSÍ

Byrjunalið Breiðabliks:

Liðsuppstilling Blika kom nokkuð á óvart og sennilega áttu ekki allir von á þvi að Guðjón Pétur, Höskuldur og Arnar Sveinn myndu allir byrja inná í fyrsta leik, en það var nú samt raunin. Blikar byrjuðu leikinn ágætlega og voru mun betra liðið fyrstu 30 mínúturnar en náðu ekki að setja boltann í netið. Fengu nokkur þokkaleg sóknarfæri en náðu ekki að nýta þau sem skyldi. Næst komust þeir í upphafi þegar Damir þrumaði naumlega yfir eftir hornspyrnu og svo aftur eftir rúmlega hálftíma leik þegar Aron komst inn í teig og skaut á mark og boltinn sigldi síðan í gegnum pakkann og sennilega snerti einhver boltann áður en hann small í stönginni áður en heimamenn náðu að bægja hættunni frá. Þar munaði litlu. Blikar áttu slatta af marktilraunum í fyrri hálfleik en fæstar hittu markið, þó sumar væru nærri því. Heimamenn áttu lítið af færum en fengu þó eitt allgott þegar þeir sluppu í gegn en Gunnleifur bjargaði vel.

Allt jafnt í leikhléi og heimamenn heldur að sækja í sig veðrið eftir þvi sem leið á hálfleikinn en Blikar mun sterkari fyrsta hálftímann. Blikar að leika ágætlega sín á milli lengst af en nokkuð mislagðir fætur við vítateig Grindvíkinga.

Í hálfleik var þokkaleg stemming hjá stuðningsmönnum. Menn reyndar misbjartsýnir á seinni hálfleikinn en flestir samt þokkalega ánægðir með liðsbraginn. Þetta hefur oft verið verra.

Myndaveisla í boði Fótbolta.net:

Síðari hálfleikur hófst svo á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Heimamenn öllu frískari og Blikar dálítið hikandi í upphafi. Það bauð hættunni heim og nokkrum sinnum voru heimamenn að þefa af marki okkar manna en höfðu ekki erindi og leikurinn jafnaðist aftur von bráðar. Blikar náðu hinsvegar ekki að ógna að ráði fyrr en rúmlega korter var liðið á hálfleikinn en þá munaði litlu að Höskuldur næði að setja boltann í netið en markvörður heimamanna kastaði sér á hann hreinlega. Og í kjölfarið var Höskuldur dæmdur brotlegur og var það svo furðulegur dómur að meira að segja heimamenn rak í rogastans og urðu kjaftstopp. Og það segja fróðir menn að gerist aldrei. Ekki Grindvíkingar. En áfram með smérið því nú var aðeins farið að lifna yfir leiknum og liðin sóttu sitt á hvað. Og svo kom að því að stíflan brast, loksins. Grindvíkingar voru í álitlegri sókn og komnir upp að vítateig okkar manna en töpuðu boltanum eftir klafs og Blikar brunuðu í skyndisókn. Alexander Helgi brunaði upp miðjuna með boltann og sendi á Höskuld. Frá honum barst boltinn til Jonathans, sem sendi svo á Aron og hann lagði boltann fyrir vinstri fótinn og þrumaði honum svo í netið alveg út við stöngina hægra megin. Glæsilegt mark og snaggaralega að verki verið. Blikar komnir með forystuna og það var ekki ósanngjarnt.

Blikar gerðu svo breytingu á liði sínu skömmu síðar þegar Kolbeinn kom inn fyrr Alexander Helga. Alexander búinn að vera mjög góður í leiknum en kenndi sér einhvers meins að sögn.

Blikar náðu hinsvegar ekki að fylgja markinu eftir sem skyldi og næstu mínútur voru heimamenn hættulegri og í tvígang var sannkallaður darraðardans í teig okkar manna og taugar stuðningsmanna voru þandar til hins ítrasta. Blikar gerðu nú aðra breytingu. Höskuldur hvarf af velli og hans stöðu tók Viktor Karl. Fóru nú pústrar og ýfingar vaxandi með mönnum sem náðu listrænu hámarki þegar sparkað var í höfuð Jonathans í þann mund að hann skallaði boltann, annarsvegar og hinsvegar skömmu síðar þegar Viktor Karl var teikaður harkalega og höfð á honum endaskipti þegar hann brunaði framhjá varnarmanni. Brotamenn uppskáru báðir gult spjald fyrir fúlmennskuna og hefði ekki sakað að þau hefðu verið með öðrum lit. Heimamenn freistuðu þess að jafna metin á lokamínútum en höfðu ekki erindi sem erfiði og ógnuðu lítið sem ekkert.
Enn gerðu Blikar breytingu á liðinu, þegar Guðmundur Böðvar kom inn fyrir Andra Rafn. Blikar höfðu hinsvegar ekki alveg sagt sitt síðasta orð. Fyrst komst Jonathan í gott færi en hann náði ekki að skora. Stigin voru svo gulltryggð þegar Kolbeinn skoraði laglegt mark á 90. mínútu. Hann fékk boltann á miðjunni og hristi af sér einn eða tvo andstæðinga, tók svo létta bolvindu, vinstri-hægri og lét vaða á markið frá vítateigslínunni. Skotið þéttingsfast niðri í nærhornið og endaði netinu. Vel gert hjá Kolbeini og af yfirvegun. Hann er búinn að skora þau nokkur svona í gegnum tíðina en þetta var hans fyrsta mark í efstu deild. Blikar fögnuðu markinu vel og lengi jafnt innan sem utan vallar og skömmu síðar blés dómarinn til leiksloka.

Mörkinn úr leiknum:

Blikar máttu vel við una góða ferð til Grindavíkur að þessu sinni og það verður spennandi að fylgjast með liðinu í komandi leikjum. Breiddin telst allgóð ef leikmenn haldast heilir og það var ágætur bragur á leik liðsins í dag. Þetta var ekki fullkomin frammistaða en telst samt allgóð í byrjun móts við nokkuð erfiðar aðstæður.

Stuðningsmenn Blika fjölmenntu á völlinn í dag þrátt fyrir kalsaveður en ekki er vitað hvort það var taugaherpingur í upphafi móts eða almenn hlédrægni sem réð því að hvatning var stopul og af skornum skammti lengi framan af í dag. Það batnaði heldur er á leið. En betur má ef duga skal.

Næsti leikur Blika er gegn Magna frá Grenivík í bikarkeppni KSÍ n.k miðvikudag. Leikurnn fer fram í Boganum á Akureyri og hefst kl.16:00.

Það er alveg tilvalið að skella sér norður á frídegi verkalýðsins og styðja okkar menn.

Áfram Breiðablik !

OWK

Nánar um leikinn og umfjallanir netmiðla (smella á myndina):


 

Til baka