BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Aulaskapur !

03.09.2018

Það var flott fótboltaveður í dag. Hægur andvari í sjaldséðu sólskini og hélst þurrt mestanpart leiksins. Hiti rúmlega 10°C. Áhorfendur ekki margir, eða tæplega 700 sem er langt fyrir neðan meðaltalið og ekki gott að segja hvað veldur. Kannski eru menn búnir að missa trúna. Það er nú kannski fullsnemmt þó ekki hafi fiskast í síðustu 2 leikjum.
Völlurinn í frábæru standi og nánast óbærilegt að hugsa til þess að þessum flotta velli eigi að fórna fyrir plast.
Fyrir leik var Andri Rafn Yeoman heiðraður fyrir að hafa nú leikið 300 keppnisleiki fyrir Breiðablik og hann er þar með orðinn næst leikjahæsti maður Blika. Og hann á nóg eftir. Andri var fjarri í gær vegna meiðsla en verður vonandi búinn að ná sér fyrir næsta leik.

 Leikskýrsla

Blikar byrjuðu leikinn ágætlega og voru mun betra liðið allan fyrri hálfleik. Grindvíkingar fengu reyndar eitt mjög gott færi snemma en Gunnleifur bjargaði með góðu úthlaupi. Okkar menn sköpuðu nokkur færi og sum mjög góð en uppskeran aðeins eitt mark sem kom eftir góða fyrirgjöf Kolbeins sem rataði beint á kollinn á Thomas og hann gerði vel að setja boltann í slá og inn. Flott mark. Skömmu síðar fékk Arnþór Ari dauðafæri en markvörður gestanna varði skalla hans með tilþrifum. Blikar fengu nokkrar horn- og aukaspyrnur sem ekkert kom út úr og varla að hætta skapaðist utan einu sinni. Það þarf að koma boltanum framhjá fremsta varnarmanni gestanna í föstum leikatriðum, það er lágmarkskrafa.  Fyrri hálfleikur stórtíðindalaus og frekar daufur. 1-0 forysta Blika þó sanngjörn og 2-0 hefði ekki verið ósanngjarnt miðað við færin. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Blika og á þeim tímapunkti voru Valsmenn undir gegn KA og  staðan jöfn í Grafarvoginum í leik Fjölnis gegn Stjörnunni. Þetta þýddi 2ja stiga mun á Blikum og toppliðunum eins og staðan var.  Í hálfleik var mikið diskúterað um þetta og menn glaðhlakkalegir með stöðuna. Aftur komin glæta. En menn voru líka rasandi yfir leik okkar manna og frammistöðu nokkurra af reyndari mönnum liðsins. Liðið alls ekki að spila vel og feilsendingar útum allan völl. Þannig var það nánast allan leikinn þó fyrri hálfleikur væri skömminni skárri en það sem við tók í þeim síðari. Það væri örugglega fróðlegt að sjá hlutfall (mis)heppnaðra sendinga og tapaðra bolta hjá sumum leikmönnum Blika. Maður hefur á tilfinningunni að þær séu hrikalegar og alls ekki boðlegar fyrir lið sem ætlar sér eitthvað í efstu deild.
Blikar gerðu eina breytingu í hálfleik og Arnór Gauti kom inn fyrir Oliver sem virtist meiddur eftir fólskulegt brot leikmanns gestanna sem hvorki var dæmt á né maðurinn spjaldaður. En það er önnur saga.

Blikar mættu til leiks í síðari hálfleik eins og sundurlaus hjörð misáhugasamra sauða. Enginn bragur á liðinu og hreinlega eins og menn héldu að þetta væri bara komið. Grindvíkingar gerðu breytingar á liði sínu og það kom allt annað lið til leiks í síðari hálfleik af þeirra hálfu og þeir tóku strax öll völd í leiknum. Okkar menn bara leyfðu þeim það og gerðu það sem þeir gera verst. Voru hægir og fyrirsjáanlegir og létu svo henda sér eins og heypokum þegar þeir lentu í návígjum. Voru undir á öllum sviðum. Liðsheildin engin.
Flest mörk í nútíma knattpyrnu koma eftir föst leikatriði (40%) eða samleik. Fæst mörk koma eftir einstaklingsframtak þegar reynt er að sóla helminginn af liði andstæðinganna. Samt eru menn alltaf að reyna þetta, sóla sig í gegnum heilan her varnarmanna. Það kemur bara ekkert út úr því annað en að boltinn tapast jafnharðan. Það er út af fyrir sig fínt ef menn hafa sjálfstraust í að reyna þetta af og til og sumir leikmenn Blika mættu gera meira af þessu þegar þeir hafa pláss. En að reyna þetta alltaf er ekki uppskrift að árangri. Í gær keyrði þetta úr öllu hófi og í óteljandi skipti misstu menn boltann við þessar tilraunir þegar þeir fengu hann í lappirnar til þess eins að tapa honum jafnharðan. Stundum á bara að gefa á næsta mann, hlaupa í opið pláss og fá hann aftur og reyna að rugla aðeins í andstæðingnum. Ekki alltaf þetta stanslausa hjakk, sem engu skilar.
Það var eiginlega bara tímaspursmál hvenær gestirnir myndu jafna og það gerðu þeir svo eftir herfileg mistök í vörn okkar manna. Eitthvert ljótasta mark sem sést hefur á Kópavogsvelli í háa herrans tíð. En mark engu að síður.  Blikar settu Brynjólf Darra inn fyrir Arnþór Ara og svo Aron Bjarnason inn fyrir Kolbein þegar skammt var til leiksloka, en náðu ekki að knýja fram sigur. Raunar voru það gestirnir sem fengu betri færi síðasta stundarfjórðunginn og voru tvívegis í góðum færum til að hirða öll stigin.

1-1 jafntefli var grátleg niðurstaða en sennilega sanngjörn. Við klúðruðum þessum leik svo um munaði og nú eru allir möguleikar á titli endanlega fyrir bí en hægðarleikur að tapa 3ja sætinu.

Það hefur vonandi komist til skila að Blikar léku vægast sagt illa í gær og stuðningsmenn eru hundóánægðir með sína menn af því þeir vita að það býr meira í liðinu. Menn þurf hins vegar að taka rækilega til í hausnum á sér, sem lið, ef þeir ætla að vinna fleiri leiki, að ekki sé nú talað um næsta leik þar sem við mætum Stjörnunni í bikarúrslitum. Það verður ekki mikið stærra hérlendis en það.

Það verður fróðlegt að sjá hvort menn ná að reisa sig upp fyrir þann leik en þetta var allavega ekki rétta uppskriftin.

Áfram Breiðablik !

OWK

Myndir í boði BlikarTV

Umfjallanir netmiðla

Til baka