BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigur á Þrótti í Laugardalnum

14.07.2015

Það var fallegt veður í Laugardalnum þegar Blikastelpur mættu Þrótti, logn og smá blautt.   Fyrri leik þessara liða, sem fór fram á Kópavogsvelli, lauk með sigri Breiðabliks 5 – 0.

Fyrir leikinn var Breiðablik í toppsætinu en Þróttur í næst neðsta sæti.  Það sást fljótt að staða liðanna í deildinni er engin tilviljun og voru Blikar miklu sterkari allan leikinn.

Byrjunarlið Breiðabliks var þannig skipað; í markinu var Sonný, í vörninni voru Ásta, Guðrún, Fríða og Hallbera, á miðjunni voru Jóna, Rakel og Andrea, á köntunum voru svo Svava og Fanndís en Telma ein uppá topp.

Hér er hægt að nálgast leikskýrslu.

Blikar tóku öll völd frá fyrstu mínútu og hefðu getað skorað nokkur mörk í fyrri hálfleik. 

Á 11. mínútu var Fanndís felld í teignum, alla vega að mati áhorfenda, en dómari leiksins var ekki á sama máli og dæmdi bara markspyrnu.  Fullt af góðum færum litu dagsins ljós áður en Fanndís skoraði gott mark á 19. mínútu.  Fanndís fékk þá boltann vinstra megin fyrir utan teig, fór með hann í átt að miðjunni og skaut svo góðu skoti rétt fyrir utan teig og endaði boltinn í vinstra markhorninu.

Áður en dómarinn flautaði til leikhlés höfðu Svava og Andrea báðar sett boltann í stöngina, nokkur góð skot farið rétt yfir og framhjá.  0 – 1 í leikhlé var því frekar lítil forusta miðað við öll færin.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði, þ.e. með sóknum hjá Blikum.  Fyrsta færið kom strax eftir 1 mínútu þegar Telma komst í dauðafæri eftir sendingu frá Ástu en boltinn fór rétt framhjá.

Það má segja að svo hafi tekið við frekar rólegur kafli þar til á 80. mínútu þegar Telma fékk boltann á miðjunni, tók flottan snúning og setti svo boltann utanfótar á Fanndísi sem var ein í gegn og setti hann flott með vinstri framhjá góðum markverði Þróttar.  Fanndís fékk svo annað færi stuttu seinna aftur eftir flotta sendingu frá Telmu en skotið fór yfir markið.

Blikar unnu því 0 – 2 og þrjú stig í hús.  Stelpurnar hafa oft spilað betur en sigurinn alltaf öruggur þrátt fyrir það.

Blikar gerðu þrjár skiptingar.  Aldís kom inn fyrir Jónu á 67. mínútu, Fjolla kom inn fyrir Svövu á 75. mínútu og Hildur kom inn fyrir Ástu á 81. mínútu.

Það var skemmtilegt að sjá nokkrar stelpur úr yngri flokk Blika sem tóku sig til og sungu nokkra söngva og fengu stúkuna alla með sér í að klappa í takt.  Þær fengu svo „five“ eftir leikinn frá öllum leikmönnum í þakklætisskyni. smiley

Næsti leikur er á móti Aftureldingu á Kópavogsvelli 21. júlí kl. 19:15 og um að gera að fjölmenna, syngja og hvetja með stelpunum í stúkunni.

Til baka