BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

GÓÐUR SIGUR Á FRÍSKUM SELFYSSINGUM

09.03.2022 image

Síðastliðið haust, þann 9. nóvember, spiluðu stelpurnar okkar í úkraínsku borginni Kharkív sem hluti af riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Þessi keppnisferð sem slík hlaut mikið lof á sínum tíma. Völlurinn í hæsta gæðaflokki enda verið notað á EM, hótelið eitt það flottasta sem margar höfðu séð ásamt því að mannlífið var einkar friðsælt og gott. Í dag, einungis rúmum fjórum mánuðum síðar, er því miður ekkert friðsælt lengur við ástandið í borginni. Rússneski herinn réðst, eins og flestir ættu að vita, inn í Úkraníu núna í lok febrúar og er Kharkív stærsta borgin sem Rússar hafa hertekið eins og staðan er í dag. Í kjölfarið á hræðilegu fréttunum af innrás Rússa fengu stelpurnar okkar þær frábæru hugmynd að setja af stað söfnun fyrir Úkraínu. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að smella hér.

Blikakonur léku þriðja leik sinn í Lengjubikarnum við Selfoss á Kópavogsvelli í roki og rigningu  á laugardaginn síðasta sem mögulega hafði töluverð áhrif á leikinn. Leiknum lauk með sigri okkar kvenna 2-0.

Tvær breytingar voru á byrjunarliðinu frá því í leiknum við Stjörnuna. Telma var í markinu, Ásta og Karen María bakverðir og þær Natasha og Elín Helena í vörninni en höfðu svissað stöðu. Núna var Natasha vinstra megin en Elín hægra megin. Karen María kom inn fyrir Hafrúnu Rakel sem meiddist í síðasta leik. Írena Héðinsdóttir, Hildur, Karítas  á miðjuni og þær Alexandra Soree og Vigdís Lilja á köntunum og  Helena Ósk fremst.

Leikurinn fór rólega af stað og lítið um færi framan af og liðin skiptust á um að halda boltanum og mikið jafnræði með liðunum. Selfyssingar fengu dauðafæri eftir um kortérs leik eftir kæruleysi í vörninni hjá Blikum en skotið fór sem betur fer hátt yfir. Blikar reyndu fjölmargar stungusendingar inn fyrir vörn Selfoss og sem dæmi þá var Helena Ósk þrívegis rangstæð bara í fyrri hálfleik. Ef rúmlega 30 mínútna leik þurfti Vigdís Lilja að yfirgefa völlinn og inn á kom Birta Georgs.

Selfyssingar virkuðu sprækari undir lok fyrri hálfleiks en kæruleysisleg sending þeirra út úr vörninni olli því að Hlidur Antons náði boltanum – gaf á Alexöndru sem eftir skemmtilegan snúning gaf botann til baka í gegnum vörnina beint á Hildi sem komst ein í gegn og renndi boltanum undir markvörðinn í fjærhornið. 1-0 fyrir Blika og kom markið 20 sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma. Selfoss fór í sókn en töpuðu boltanum, Hildur vann boltann á miðjum eigin vallarhelmingi gaf hann á Helnu Ósk sem setti Alexöndru eina í gegn en hún var of sein að afhafna sig og gamla brýnið Sif Atladóttir komst fyrir skotið. Sannkallað dauðafæri þarna.

Í upphafi síðari hálfleik var sama upp á teningnum liðin skiptust á um að sækja án þess að skapa sér nein almennileg færi þó fékk sitt hvort liðið fínt færi eftir klúður í varnarleiknum. Fyrst var Birta hársbreidd frá því að ná boltanum af markverði Selfoss sem þrumaði boltanum í Birtu og endaði hann rétt framhjá. Hinu megin hirt sóknarmaður boltann af Elínu Helenu við vítateigslínuna og slepp í gegn en var greinilega með boltann á lakari fætinum því slakt vinstri fótarskot fór beint á Telmu.  Seinna mark leiksins kom síðan eftir hornspyrnu Helenu Óskar frá hægri. Boltinn barst inn á teig til Hildar sem reyndi skalla sem stefndi frekar í innkast en á markið en rataði beint á Ástu fyrirliða á fjær sem þakkaði fyrir sig og þrumaði boltanum í fjærhornið.

Eftir seinna mark Blika má segja að leikurinn hafi svolítið fjarað út og hvorugt liðið gerði sig líklegt til að skora. Heilt yfir fannst mér Blikaliðið sterkara í leiknum og stýrði leiknum án þess að vera með neina flugeldasýningu. Það má segja að það hafi verið aðeins vorbragur yfir leiknum en leikmönnum var ekki alls varnað því veðuraðstæður gerðu hlutina ekki auðvelda.

Varamannabekkur Blika var afar fáliðaður í leiknum. Aðeins 4 varmenn voru enda margar í meiðslum. Þær Hrafnhildur Ása og Harpa Helgadóttir (báðar fæddar 2006 eins og Margrét Brynja) komu inn á fimm mínútum fyrir leikskslok. Af leikmannamálum Blika er það að frétta að Taylor Ziemer mætir aftur til landsins í vikunni og hún á eftir að styrkja miðjuna mikið. Margrét Brynja handleggbrotnaði í leiknum við Stjörnuna og vonandi verða þær Vigdís Lilja og Hafrún Rakel ekki lengi frá.

H20

Til baka