BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Víkingur R. - Breiðablik

26.08.2023 image

Víkingur R. - Breiðablik

Næsti síðasti leikur Blika í hefðbundnum 22 umferðum er gegn sjóðandi heitum Reykjavíkur Víkingum á þeirra heimavelli. Flautað verður til leiks á Víkingsvelli kl. 19:15 á sunnudaginn. 

Miðasala á leikinn er Stubbur app: Stubbur

Leikurinn verður fimmtugasta innbyrðis viðureign liðanna í efstu deild. Blikar hafa vinninginn sem nemur einum sigurleik.  

Stöð 2 Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Staðan í deildinni fyrir 21. umferðina:

image

Sagan & Tölfræði

Mótsleikir liðanna frá upphafi (fyrst 1957) eru 93 leikir. Deildaleikir eru 71: 49 leikir í A-deild og 22 leikir í B-deild. Bikarleikir eru 12. Leikir í Deildabikarnum eru 8. Í Meistarakeppninni eru leikirnir tveir. Víkingur vinnur 1:0 árið 2022. Blikar vinna 3:2 árið 2023. Heilt yfir skipta liðin sigrum nokkuð bróðurlega á milli sín: 36 Blikasigrar gegn 34 - jafnteflin eru 23.

Efsta deild:

Í 49 leikjum í efstu deild er staðan nánast jöfn. Blikar leiða með einum sigri  - 17 sigrar gegn 16 - jafnteflin eru 16.

Mörkin eru samtals 138 sem skiptast svona - Blikar hafa skorað 71 mark gegn 67 mörkum Víkinga.

Síðustu 5 leikir Blika gegn Víkingum í Víkinni í efstu deild.

Leikmannahópurinn

Í leikmannahópi Víkinga eru nokkrir leikmenn sem hafa spilað með Breiðabliki. Karl Friðleifur Gunnarsson er uppalinn Bliki. Víkingur R. fékk Karl Friðleif til sín sem lánsmann 2021 og gerði svo samning við hann fyrir keppnistímabilið 2022. Davíð Örn Atlason söðlaði um úr Víkinni og gerði samning við Breiðablik fyrir keppnistímabilið 2021. Í nóvember 2021 náðu félögin samkomulagi um félagaskipti hans yfir í Fossvoginn aftur. Daniel Dejan Djuric á 2 mótsleiki með meistaraflokki Breiðabliks auk tugi leikja með yngri flokkum Breiðabliks á árunum 2014 - 2018. Í þjálfarteymi Víkinga er markmannsþjálfarinn Hajrudin Cardakilja sem varði mark Blika með góðum árangri frá 1992 til 1996. Cardakilja flúði heimalandið vegna stríðsátaka og kom til Breiðabliks fyrir keppnistímabilið 1992. Hann spilaði 107 leiki með Breiðabliksliðinu. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson var ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 21. umferðar stóð sig vel fyrir Blikar.is þegar hann kom að leik Víkings og Breiðabliks í Víkinni í fyrra. Sá leikur vannst núll-þrjú og sýndi svo ekki var um að villast hvaða lið var svo langsamlega best í deildinni í fyrra. Þá skrifaði spáblikinn pistil EFTIR leik en finnst svolítið erfiðara að skrifa um væntanleg úrslit, svona FYRIR leik.

Blikinn var fyrsti formaður Blikaklúbbsins síðla síðustu aldar og ber sig illa yfir því að þurfa að spá fyrir leikinn í Víkinni á sunnudagskvöld.

Eiríkur Hjálmarsson - Hvernig  fer leikurinn?

Ef við skoðum aðeins aðstæðurnar, þá er þetta leikur inni á milli níunda og tíunda Evrópuleikjar okkar manna nú á tímabilinu. Víkingar eru stungnir af í deildinni, eins og við gerðum í fyrra, og eiga almennt hæglátari tíð, nema þegar þeir koma sér í einhver kjánaleg sjálfskaparvíti.

Við gætum einblínt á Evrópu eftir frábæran sigur í Norður-Makedóniu og siglt heim þægilegu 4-0 tapi. Það væri hins vegar svolítið gegn andrúmsloftinu á milli liðanna. Við gætum raðað upp öllum ítrasta mannskap sem kolóðir sigldu heim 4-0 sigri og teldu sig hafa sannað hvað væri besta liðið í landinu, hvernig sem nú deild og bikar fara. Þá gætu líka þrír verið meiddir og tólf þreyttir í Evrópuleiknum.

Ég held þetta verði eitthvað þarna á milli. Miklar tilfinningar en kaldir hausar á okkar mannskap og ég spái jafntefli, 2-2,“ segir spáblikinn fyrir leik Víkings og Breiðabliks í Víkinni kl. 19:15 sunnudagskvöldið 27. ágúst 2023.

Eiríkur

image

Eina myndin sem fannst af spáblikanum í liði með bikar fyrir að leika knattspyrnu er býsna gömul eins og sjá má. Hún fannst við fornleifauppgröft í rústum klaustursins í Viðey sem starfrækt var á árunum 1225-1539. Aldur myndarinnar er óviss.

Dagskrá

Miðasala á leikinn er á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Víkingsvelli á sunnudag kl.19:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Mörkin úr 0:3 sigurleik okkar mann í Víkinni í fyrra:

Til baka