BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2022: Breiðablik - Leiknir R.

25.08.2022 image

Grafík: Halldór Halldórsson

Í pistli dagsins ...

Nítjándi leikur okkar manna í Bestu deild karla 2022 > Blikar með 6 stiga forskot á toppnum > Fáum Leiknismenn í heimsókn á Kópavogsvöll  > Miðasala á Stubbur > Sagan: 13 mótsleikir > Blikahópurinn 2022  > Jón Orri Guðmundsson er SpáBliki leiksins  > Dagskráin fyrir leik > Gefðu kost á þér í blikar.is liðið!

Breiðablik - Leiknir R.

Næsti leikur okkar manna í Bestu deild karla er heimaleikur gegn frískum Leiknismönnum sem unnu 4:3 sigur á KR í síðasta leik. Þeir eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og mun ekki gefa neitt eftir. 

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld kl.19:15!

Miðasala er á Stubbur app

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Staðan eftir 18 umferðir – Blikar á toppnum með 6 stiga forskot á næsta lið, KA: 

image

Sagan & Tölfræði

Fyrsti mótsleikur liðanna var árið 1979 í bikarkeppni KSÍ. Innbyrðis bikarleikir eru heilt yfir þrír. Leikir í deildabikarnum eru fjórir. Í janúar á þessu ári áttust liðin við í Fótbolta.net mótinu. Alls 13 leikir.

Tölfræðin fellur með Blikum í þessum 13 leikjum. Ellefu sigrar og 2 jafntefli - bæði jafntefli eru í leikjum í efsu deild - 0:0 jafntefli á Kópavogsvelli árið 2015 og 3:3 jafntefli í Breiðholtinu 2021. 

Breiðablik og Leiknir hafa mæst 13 sinnum innbyrðis frá fyrsta leik árið 1979:

- Fyrsti mótsleikur liðanna var í 32-liða úrslitum bikarkeppni KSÍ 20. júní 1979. Leikið var á Kópavogsvelli og lauk leiknum með öruggum 8:0 sigri okkar manna.

- Sautján árum síðar er næsti mótsleikur eða árið 1996 þegar liðin mættust í Deildabikar KSÍ. Leikurinn fór fram á Smárahvammsveli. Blikar unnu leikinn 5:1.

- Liðin mætust svo næst í Deildabikar KSÍ árið 1999. Leikurinn fór fram á Leiknisvelli. Blikar unnu leikinn 3:0.

- Leikur liðanna í 32-liða úrslitum bikarkeppni KSÍ fór fram á Leiknisvelli 15. júní árið 2000. Blikar unnu leikinn 0:4.

- Árið 2015 leika liðin tvo leiki í Pepsi deildinni. Fyrri leikurinn fór fram á Leiknisvelli í júní og lauk með 0:2 sigri okkar manna. Síðari leiknum á Kópavogsvelli laukl með 0:0 jafntefli.

- Í maí árið 2018 mættust liðin í Bikarkeppni KSÍ og nú aftur í 32-liða úrslitum. Leikið var á heimavelli Leiknismanna í Breiðholtinu. Veðurguðirnir settu þó nokkurn svip á leikinn því hagl og sól skiptust á að slást um athyglina. Völlurinn var því vel sleipur og áttu leikmenn í smá erfiðleikum í byrjun að finna rétta snertingu á boltann:

- Liðin mætast í Lengubikarnum í febrúar 2020. Leikið var í Fífunni. Blikar vinna leikinn 3:1

- Í fyrsta leik Lengjubikarsins 2021 lögðu okkar menn Breiðholtsliðið 4:0. Mörkin urðu tvö í hvorum hálfleik og hefðu hæglega getað orðið fleiri því við áttum tvær spyrnur í þverslá auk nokkurra góðra færa sem við ekki nýttum.

- Liðin mætast tvisvar í Pepsi Max deildinni 2021. Fyrri leik liðanna í byrjun maí lauk með 3:3 jafntefli í Breiðholtinu. Blikar vinna síðari leikinn á Kópavogsvelli í byrjun júlí 4:0.

- Liðin eru svo í sama riðli í Fótbolta.net mótinu 2022. Spilað var á Leiknisvelli um miðjan janúar. Bikar unnu leikinn 1:3.

Síðustu 2 leikir í efstu deild á Kópavogsvelli:

Blikahópurinn 2022

Nokkrir núverandi leikmenn Leiknis hafa spilað í grænu Breiðabliks treyjunni. 

Adam Örn Arnarson, sem er samningsbundinn Breiðabliki, var lánaður til Leiknismanna í júlí glugganum. Bakvörðurinn knái Ósvald Jarl Traustason leikur nú með Leikni. Bjarki Aðalsteinsson leikur nú með Leiknisliðinu en hann var hjá Blikum 2010-2012.

Okkar maður Damir Muminovic lék 18 leiki og skorði 2 mörk fyrir Leiknismenn árið 2012.

Og Þjálfari Leikninsmanna, Sigurður Höskuldsson, er uppalinn Bliki - æfði og spilaði með yngri flokkum Breiðabliks alveg upp í 2. flokk. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Breiðabliki. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Ólafur Pétursson er markmannsþjálfari liðsins. Ólafur hefur starfað sem markmannsþjálfari hjá Breiðabliki frá árinu 2005. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Og Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar meistaraflokks karla.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 19. umferðar er Kópavogsbúi í húð og (var mikið)hár – og kemur af mikilli Blikafjölskyldu. Hann er fæddur og uppalinn í Hvömmunum og byrjaði ungur að æfa knattspyrnu hjá uppeldisfélaginu.

SpáBlikinn hætti knattspyrnuiðkun 1979 - alltof snemma en var þá búinn að spila 22 leiki í efstu deild með Blikaliðinu og skora 4 mörk. Helming markanna skoraði hann gegn Fram árið 1977 en þá unnu Breiðabliksmenn þá bláklæddu tvisvar í deildinni 4:1. SpáBlikinn skoraði 4. mark Blika í báðum leikjunum og bæði mörkin komu á 88. mínútu leikjanna. Svo liðu 45 ár þar til Blikamenn unnu Fram aftur á útivelli í efstu deild!

SpáBlikinn lék níu leiki með unglingalandsliðum Íslands og skoraði í þeim fjögur mörk. Varð Íslandsmeistari með 3ja flokki Breiðabliks 1974 og 1975 og bikarmeistari með 2. flokki 1976.

Okkar maður hefur einnig sinnt stjórnar- og félagsstörfum fyrir knattspyrnu- og körfuknattleiksdeildir Breiðabliks. Í dag er SpáBlikinn orðinn afi, en tiltölulega ern, og býr ennþá í Hvömmunum í Kópavogi – steinsnar frá Kópavogsvelli.

Jón Orri Guðmundsson – Hvernig fer leikurinn?

Ég held að þessi fimm daga „hvíld“ milli leikja hafi mjög góð áhrif á strákana okkar.

Að vísu eru tveir Viktorar í leikbanni en það kemur maður í manns stað eins og við höfum séð að undanförnu.

Leiknismenn eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og mæta brjálaðir til leiks en ég er sannfærður um að strákarnir okkar nái að sýna hvað í þeim býr og vinni leikinn þrjú núll.

image

SpáBlikinn með fyrstu landsliðsmenn Breiðabliks í knattspyrnu. Efri röð f.v.: Guðmundur Þórðarson (A-landslið), Valdimar Valdimarsson (unglingalandsliðið), Jón Orri Guðmundsson (drengjalandslið). Neðri röð: Hákon Gunnarsson (drengjalandslið), Einar Guðlaugsson (drengjalandsliðið), Tómas Tómasson (drengjalandslið).

Dagskrá

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld kl.19:15!

Miðasala er á Stubbur app

Græna stofan opin, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Kópacabana menn mæta fylktu liði á leikinn og ætla að tendra bálköst í hjörtum leikmanna, eins og þeim einum er lagið, og fá okkar fólk með í stuðið!

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Breiðablik vann Leikni R. 2-1 í fyrri leik liðanna í Breiðholti 29. maí: 

Gefðu kost á þér í blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

Til baka