BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Það eru mörkin sem telja

31.08.2015

Blikar mættu Leiknismönnum í kvöld í 18. umferð PEPSI deildarinnar og er það í fyrsta sinn sem þessi lið mætast í deildarkeppni í Kópavoginum. Leikurinn var sannkallaður ,,möst vinn“ leikur fyrir bæði lið. Leiknismenn í dúndrandi fallbaráttu á sínu fyrsta ári í efstu deild og Blikar að elta FH inga í toppbaráttunni og reyna að gulltryggja Evrópusætið um leið. Þetta var síðasti leikur fyrir landsleikjahlé sem nú er framundan og það voru fjölmargir áhorfendur á vellinum í kvöld í þokkalegu veðri. Hægur andvari af vestri með nettri súld á köflum. Hiti tæpar 9°C og skyggni 40 km til að byrja með. Völlurinn í fínu standi og mátulega blautur.

Fyrir leikinn var einn af okkar allra bestu félögum, Jóhann Fannar Kristjánsson Bliki og fimleikamaður úr Gerplu, heiðraður af leikmönnum og stjórn deildarinnar fyrir glæsilega frammistöðu á Special Olympics sem fram fóru í Los Angeles fyrr í sumar. Þaðan kom Jóhann klyfjaður góðmálmi. Þrenn gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun er glæsileg uppskera.

En þá að leiknum sjálfum. Arnór Aðalsteinsson var fjarri vegna leikbanns og hans stöðu tók Guðmundur Friðriksson og stóð sig með miklum ágætum. Auk þess var sú breyting á byrjunarliði frá síðasta leik að Atli Sigurjónsson kom inn í stað Ellerts. Annars var liðið óbreytt frá síðustu leikjum.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M) (F) - Guðmundur Friðriksson - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Höskuldur Gunnlaugsson  - Guðjón Pétur Lýðsson - Atli Sigurjónsson - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Jonathan Glenn

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Ellert Hreinsson
Olgeir Sigurgeirsson
Kári Ársælsson
Viktor Örn Margeirsson
Andri Freyr Yeoman
Davíð Kristján Ólafsson

Sjúkralisti: Enginn
Leikbann: Arnór Aðalsteinsson

Leikskýrsla: Breiðablik - Leiknir 30.08.2015
BlkarTV: Útvarpslýsing

Blikar hófu leikinn með látum og herjuðu ótt og títt á gestina til að byrja með og fengu fín færi til að ná forystunni snemma leiks. En eins og stundum áður gekk ekki andskotalaust að finna netmöskvana. Blikar fengu legíó af færum og Atli Sigurjónsson setti menn hvað eftir annað í kjörstöður en allt kom fyrir ekki. Það sem þó fór á rammann var sumt vel varið af markmanni gestanna en annað átti einfaldlega að enda í netinu og menn fóru illa með nokkra úrvals sénsa. Það er varla hægt að segja að gestirnir hafi ógnað að ráði ef utan er talið eitt færi sem þeir fengu eftir að Oliver og Damir urðu báðum á sjaldséð mistök og Leiknir komst í skyndisókn sem hefði á enn verri degi getað endað í netinu vitlausu megin. En hvorugur liðinu tókst að brjóta ísinn eins og stundum er sagt og því var markalaust í hálfleik. Fyrri hálfleikur samt með líflegra móti.
Í hálfleikskaffinu var svona Deja Vu stemmning, eða kannski líkara stemmningunni í Groundhog Day.  Það sem þar var sagt hefur nefnilega flest verið sagt áður af sama fólkinu við sömu eða svipaðar kringumstæður innan sömu veggja. Pínu óþægilegt. Maður er farinn að kunna samtölin. Grínlaust. Ætli sé til eitthvað við þessu?  Það var mikið talað um að nú vantaði að setja eitt mark á þá og ná Leiknismönnum úr skotgröfunum sem þeir voru lagstir í. Neyða þá til að sækja. Menn voru þokkalega bjartsýnir á að það tækist á endanum....

En síðari hálfleikur var satt að segja ekki svipur hjá sjón miðað við þann fyrri hjá okkar mönnum. Menn tóku lífinu bara með ró og það vantaði alla grimmd og frekju í leik okkar manna og spilamennskan líkari því að við værum með 2-3 ja marka forystu og værum að spara orkuna fyrir næsta leik. Leiknismenn komust ágætleg inn í leikinn og áttu ekki í teljandi vandræðum með að stoppa sóknartilburði Blika sem voru allt of hægir og fyrirsjáanlegir. Þjálfararnir freistuðu þess að hrista upp í þessu andleysi og settu Andra og Ellert inn fyrir Guðjón og Arnþór Ara en allt kom fyrir ekki. Reyndar skóp Andri eina umtalsverða færi hálfleiksins hjá okkar mönnum þegar hann vann boltann af harðfylgi við endalínu og renndi út á Atla en skot hans fór í varnarmann og í horn.  Þetta var á 85. mínútu og í raun eina færið sem við fengum þar til á síðustu mínútu leiksins, að dró til tíðinda. Þá fengu Blikar vítaspyrnu eftir klafs í teignum, þar sem togað var í Glenn.  Hann fór sjálfur á punktinn en brenndi gróflega yfir markið. Þar fór okkar síðasti möguleiki að kreista öll stigin úr þessum leik því skömmu síðar var flautað til leiksloka.
Og þannig fór um þessa ferð. Hún var ekki til fjár og eftir sitja okkar menn með sárt enni og 6 stigum á eftir FH þegar fjóra umferðir eru eftir. Það eru nefnilega mörkin sem telja. Íslandsmeistaratitillinn sennilega utan seilingar, en það er samt aldrei að vita. Það hefur annað eins gerst. Hver veit? En forgangsverkefni er að tryggja Evrópusætið. Það er enn ekki í húsi, þó sumir haldi því fram.

Næsti leikur okkar er 13. september í Víkinni. Við mætum þar og hvetjum okkar menn til dáða þó þeir hafi gert í bólið í kvöld. En það mun samt svíða í 2 vikur.

Kópacabana voru flottir í kvöld og sömu sögu er að segja af Leiknisljónunum. Það er gaman á vellinum þegar þessir kallar eru í stuði.

Áfram Breiðablik !

OWK.

Til baka