BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deild karla 2019: Breiðablik - Stjarnan á Kópavogsvelli mánudagskvöld kl.19:15

14.09.2019

Breiðablik og Stjarnan mætast á Kópavogsvelli á mánudagskvöld kl.19:15 í 20. umferð Pepsi MAX deildar karla 2019.

Nágrannaslagur Breiðabliks og Stjörnunnar er uppskrift að frábærri skemmtun, enda stórleikur tveggja góðra liða þar sem Evrópusæti á næsta ári er í boði, en hagstæð úrslit á mánudagskvöld og Blikar tryggja sér rétt til þátttöku í Evrópudeild UEFA 2020.

Í fyrri leik liðanna í sumar unnu Blikar frábæran 1:3 sigur á Stjörnunni á Samsung vellinum í Garðabæ.

Stjörnumenn eru núna með 28 stig 4.sæti deildarinnar en 5 lið; Valur, HK, Víkingur R., Skagamenn og Fylkir eru með 25 stig og fylgja Stjörnumönnum fast eftir í baráttunni um Evrópusæti.

Í síðustu umferð vann Blikaliðið Fylkismenn með einu marki í 7 marka leik á Kópavogsvelli.  Stjörnumenn töpuðu 1:3 á heimavelli fyrir nágrönnum sínum í FH eftir að hafa verið yfir 1:0 í hálfleik.

Blikar munu öruggleg sækja til sigurs gegn Stjörnumönnum í leiknum á mánudaginn og tryggja sér sæti í Evrópudeild UEFA 2020.

Annar mikilvægur leikur fer fram á sama tíma á mánudagskvöld, en það er heimaleikur Valsmanna gegn KR-ingum á Origo vellinum á Hlíðarenda. Tap Vals í þeim leik þýðir að Íslandsmeistaratirillinn fer í Vesturbæinn í Reykjavík.

Sagan

Innbyrðis mótsleikir Breiðabliks og Stjörnunnar eru 58. Blikar hafa unnð 25 leiki, Stjarnan 23 leik og 10 leikjum hefur lyktað með jafntefli. Meira>

Leikirnir 58 dreifast á 6 mót: A-deild 29 leikir, B-deild 12 leikir, Bikarkeppni KSÍ 3 leikir, Litli Bikarinn 6 leikir, Lengjubikar 3 leikir, og í Fótbolta net mót 5 leikir.

Fyrsti mótsleikur Breiðabliks og Stjörnunnar var í ágúst 1970. Leikurinn var í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ 1970. Meira>

Efsta deild

Í 29 efstu deildar leikjum liðanna hafa Blikar yfirhöndina með 14 sigra gegn 9 Stjörnunnar. Leikurinn í Garðabæ á Mánudagskvöld verður 30. efstu deildar viðureign liðanna. Liðin léku fyrst innbyrðis í efstu deild árið 1991.

Efsta deild frá 2009

Í 21 viðureign liðanna í efstu deild frá endurkomu Stjörnunnar aftur upp í efstu deild 2009 hefur Breiðablik unnið 11 sinnum og Stjarnan 6 sinnum. Blikar hafa skorað 39 mörk gegn 27 mörkum Stjörnumanna í þessum leikjum. Samtals 66 mörk eða liðlega 3.22 mörk per leik. Leikir liðanna eru oftast miklir markaleikur – þannig er það bara.

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

2018:  0:1  Súrt sunnudagskvöld

2017:  1:3  Batamerki en engin stig

2016:  2:1  Eintóm gleði gegn Stjörnunni

2015:  3:0  Var einhver að banka?

2014:  3:0  Betur má ef duga skal

Leikmenn

Leikmannahópur Blika er mikið breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlí-glugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Þá er Aron Bjarnason farinn til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. Og Blikinn snjalli Kolbeinn Þórðarson hefur samið við belgíska 1. deildarliðið Lommel til þriggja ára. Og rétt fyrir gluggalok kvittaði Alfons Sampsted upp á lánssamning við Breiðablik frá Norrköping út keppnistímabilið 2019. 

Leikmannahópur Breiðabliks 2019

Dagskrá

Mætum öll á Kópavogsvöll á mánudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs!

Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kaffi. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana.

Búast má við fjölmenni á völlinn þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max deildinni ásamt því að fylgja sínu liði. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Flautað verður til leiks á flóðlýstum Kópavogsvelli kl.19:15!

Evrópusæti í boði fyrir okkar menn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka