BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt sunnudagskvöld

05.06.2018

Blikar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við nágranna sínum úr Garðabænum á sunnudagskvöldið. Okkar drengir virkuðu hálf-dofnir frá fyrstu mínútu og þrátt fyrir að sigurmark Stjörnumanna hefði verið slysalegt þá áttum við í raun ekkert skilið út úr leiknum. En það þýðir ekkert að gráta þetta 1:0 tap heldursnúa saman bökum og hefna Björns bónda. Næsti leikur er gegn toppliði Grindavíkur suður með sjó á laugardaginn. Þar getum við slegið í klárinn og með sigri komist aftur í toppbaráttuna.

Það var tilhlökkun í Kópavogi á sunnudaginn. Veðurguðirnir skelltu á okkur ágætis knattspyrnuveðri, sunnan hægviðri og rúmlega 10 stiga hita. Simmi og co í markaðsdeildinni eru búin að útbúa flotta umgjörð á leikdegi, litlir knattspyrnuvellir fyrir yngstu áhorfendurnar, partýtjald fyrir fullorðna, Kópacabana-hópurinn með Elfar Tjörva og Hilmar Jökul  í fararbroddi er risinn upp frá dauðum, foreldrarnir eru farnir að selja góða kjötsúpu auk klassísku hamborgarana þannig að allt í ytra umhverfinu bauð upp á tækifæri fyrir góðan knattspyrnuleik. Svo má ekki gleyma því að HM-hetjurnar okkar, Jói Berg, Alfreð og Sverrir Ingi, mættu sem heiðursgestir á leikinn. HM Blikarnir mættu í viðtal hjá BlikarTV sem hægt er að sjá hér.

En strákarnir okkar voru ólíkir sjálfum sér í þessum leik. Strax í byrjun keyrðu ruddalegir Garðabæingar í þá af fullum krafti og það virtist slá okkur út af laginu. Margar feilsendingar frá lykilmönnum hjálpuðu ekki heldur til.

Byrjunarliðið: ksi.is og urslit.net

Þeir bláklæddu pressuðu okkur ofarlega og við náðum aldrei almennilega að svara þeirri taktík. Varnarmenn okkar, sem reyndar stóðu sig ágætlega, voru þvingaðir í háar og langar sendingar sem sjaldnast skiluðu miklum árangri.

Jonathan Hendrixz gat ekki leikið með vegna veikinda og munar um minna. Einnig meiddist Arnór Gauti í upphitun og gat því ekki spilað. Hann hefði getað nýst vel í svona leik.

Töluvert hefur verið rætt um þennan skæða markvarðavírus sem hefur herjað á toppmarkmenn í heimunum að undanförnu. Fyrst Karius hjá Liverpool, svo Frederik Schram í landsleiknum og svo Gulla hjá okkur. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu atviki í Stjörnuleiknum. Gulli hefur viðurkennt mistökin en við eigum auðvitað að geta skorað nokkur mörk í svona leik. En við gerðum það ekki og því situr markvörðurinn svolítið uppi með Svarta-Pétur.

Hins vegar verður ekki fram hjá því horft að hann var búinn að standa sig frábærlega í leiknum og reddaði nokkrum sinnum mjög vel. Gulli er það sterkur karakter að þetta bítur ekki á hann og bætir þetta upp í komandi leikjum.

Spennan hefur sjaldan eða aldrei verið jafn mikil í efstu deild karla. Einungis munar fjórum stigum á liðinu í öðru sæti og liðinu í tíunda sæti. Strákarnir okkar eru staðráðnir að sýna sitt rétta andlit þegar þeir halda til Grindavíkur á laugardaginn.

Með sigri getum við blandað okkur aftur í toppbaráttuna.  Við hvetjum því alla Blika til að fjölmenna. Spáin er ágæt fyrir Suðurnesin á laugardag þannig að bíltúr með alla fjölskylduna er prýðisgóð hugmynd!

-AP

Myndaveisla í boði BlikarTV

Umfjallanir netmiðla

Til baka