BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Eintóm gleði gegn Stjörnunni

01.09.2016

16. umferð PEPSI deildarinnar hófst í gær þegar Blikar fengu Stjörnumenn í heimsókn. Bæði lið með 27 stig að berjast um Evrópusæti og kannski smá von að ná í skottið á FH ingunum. En allt minna en sigur myndi þurrka út allar titilvonir.  Það var því mikið undir. Leiktíminn í undarlegra lagi,eða kl. 17 á laugardegi og það sást mæta vel á aðsókninni. Áhorfendur einungis tæplega 900. Það er langt síðan síðan jafn fáir mættu á innbyrðis viðureign þessara liða og reyndar þarf að fara aftur til ársins 2000 til að finna viðlíka tölu á Kópavogsvelli. Í fyrra mættu 1638 manns á viðureignina í Kópavogi, skv. leikskýrslu. Áreiðanlegar heimildir herma að breyting hafi verið gerð fyrir Stöð 2 sem sýndi leikinn í beinn útsendingu , og vonandi vegur sjónvarpsrétturinn upp tekjutapið af svona föndri með leiktímann. En það er meira gaman þegar fleiri eru á velllinum. Það er ekkert sem breytir því. Ekki einu sinni peningar.
En aftur að tilefninu, sjálfum leiknum. Gísli Eyjólfsson var í leikbanni og Ellert kom inn í byrjunarliðið í hans stað og Ágúst E. Hlynsson kom inn í hópinn. Atli Sigurjónsson enn frá vegna meiðsla sem hann hlaut í leik gegn Þrótti. Veður og vallaraðstæður eins og best var á kosið. Völlurinn í toppstandi og sennilega sá besti í efstu deild þessa daga. Veðrið eins og það gerist best miðað við alla árstíma, 14 stiga hiti, sólskin og hægviðri. Skyggni eins langt og augað eygði.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (MF)
Alfons Samsted - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Ellert Hreinsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson.
Varamenn:
Viktor Örn Margeirsson - Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Jonathan R. Glenn - Willum Þór Willumsson - Arnór Sveinn Aðalsteinsson - Ágúst Eðvald Hlynsson - Höskuldur Gunnlaugsson.

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson, Atlli Sigurjónsson.
Leikbann: Gísli Eyjólfsson.

Leikurinn hófst með nokkrum látum og liðin skiptust á að sækja fyrstu mínúturnar en varla hægt að segja að færin hafi veriði teljand. Elfar Freyr varð fyrir meiðslum og lá óvígur eftir hornspyrnu Blika en hélt svo áfram eftir aðhlynningu. Á 10. mínútu dró svo til tíðinda þegar Blikar náðu snarpri sókn og samleik upp vinstri kantinn sem lauk með því að Davíð sendi fyrir markið þar sem Arnþór Ari kom hlaupandi á markteigshornið nær. Og þar kom einnig askvaðandi markvörður gestanna ásamt tveim varnarmönnum og allt fór í tóma þvælu og ekki var auðséð hver gerði hverjum grikk en á endanum féll boltinn fyrir fætur Arnþórs Ara sem renndi honum af yfirvegun í tómt markið. Spurning hvort Arnþór náði að skalla í fyrri atrennunni en allt um það á endanum hafnaði boltinn í netinu. 1-0 og Blikar komnir í kunnuglega stöðu gegn Stjörnunni. En haft er fyrir satt að Adam hafi ekki verið lengi í Paradís og að sama skapi fengu Blikar ekki lengi að njóta ávaxtanna því mínútu síðar lá boltinn í netinu, vitlausu megin. Stjörnumenn tóku innkast, nokkuð langt og náðu að fleyta boltanum inn á markteig Blika þar sem Alfons lét boltann lenda, í stað þess að koma honum í burtu, og gerði sennlega ráð fyrir að Gulli tæki boltann, en þarna varð greinilega rof á samskipum, og óprúttinn leikmaður gestanna náði að nýta sér þetta, laumaði sér inn fyrir og kom boltanum í netið. Afar ódýt mark og sennilega hefði Alfons vakað lengur en hann þó gerði í gærkveldi hefði þetta kostað stig. Hann lærir af þessu og lofar að gera þetta ekki aftur. Eftir mörkin tvö róaðist leikurinn nokkuð. Blikar náðu ágætum tökum á sínum leik , heldu boltanum og gáfu fá færi á sér og juku smám saman þrýstinginn á gestina.  Blikar urðu fyrir skakkafölllum þegar hálftími var liðinn en þá þurfti Elfar Freyr að yfirgef völlinn með áverka í andliti að sögn. Í hans stað kom Viktor Örn og stóð sig með prýði. Þrátt fyrir að Blikar hefðu yfirhöndina á vellinum náðu þeir samt ekki að skapa sér afgerandi færi en í tví- eða þrígang mátti litlu muna að við næðum að setja mark á þá en tilraunir Ellerts og Árni runnu fram hjá markinu. Næst því að skora vorum við þegar hörkuskalli Damirs small í þverslánni eftir hornspyrnu. Gestirnir áttu líka sínar tilraunir en náðu ekki að ógna að ráði og voru Blikar sjaldan í teljandi vandræðum með þá.  Staðan í hálfleik jöfn og ef eitthvað var þá máttu gestirnir vel við una því Blikar voru talsvert sterkari.

Það var með allra fámennasta móti í hálfleikskaffi Blikaklúbbsins . Menn höfðu á orði að þetta væri nú í rólegra lagi miðað við hvað var í húfi og fannst Stjarnan sér í lagi daufleg, en að sama skapi vænlegt fórnarlamb.. Vonandi meira fjör í seinni hálfleik.

Og hann hófst með þó nokkrum tilþrifum af Blika hálfu en gestirnir virtust hálf vankaðir. Bamberg átti fínan skalla naumlega framhjá og ennfremur varði markvörður gestanna mjög vel frá Árna af stuttu færi, eftir flottta samspil Alfons og Ellerts upp hægri kantinn. Blikar áttu eiginlega bara eftir að fagna markinu og sumir stuðningsmenn byrjuðu reyndar á því. En það var semsagt varið. Næsta stundarfjórðunginn gerðist fátt utan það að Árni var við það að sleppa í gegn eftir góða stungusendingu, en fékk boltann aftan í hælinn og ekkert varð úr. Þarna munaði litlu.
Gestirnir voru þarna búnir að færa vörnina hærra upp á völlinn og það hefði verið tilvalið að refsa þeim fyrir það. En þetta voru fyrstu sjáanlegu merki þess að þeir ætluðu að taka einhverja áhættu til að vinna leikinn. Blikar gerðu breytingu á liðinu þegar Ellert fór af vellli og í hans stað kom Höskuldur. Og aftur fengum við tækifæri  þegar Árni slapp innfyrir vörnina og virtist eiga greiða leið að marki en náði ekki að stinga varnarmennina af og reyndi sendingu á Arnþór Ara en hún fór forgörðum. Þarna hefði Árni átt að gera betur og fara sjálfur stytstu leið að markinu.
Nú snerist leikurinn hinsvegar á þann veg að gestirnir náðu pressu á okkar menn og við náðum ekki að halda boltanum innan liðsins eins og fyrr. Í kjölfarið fengu gestirnir nokkur hálffæri og eitt slíkt Gulli þurfti Gulli að verja með tilþrifum.  Sannkölluð sjónvarpsvarsla en gestirnir komnir óþægilega nálægt okkar marki með sinn leik.
Enn gerðu Blikar breytingu þegar Bamberg fór af velli og í hans stað kom Ágúst Eðvald. Ágúst var fljótur að láta að sér kveða og gerði vel eftir skyndisókn, þegar hann lagði upp skot fyrr Oliver við vítateig en hann var óheppinn með fyrstu snertingu og skotið varð ekki jafngott fyrir vikið.
Leikurinn stefndi nú eins og óð fluga í jafnteflisátt og tíminn við það að renna út þegar Blikar fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi gestanna sem höfðu togað og hangið í Andra þegar hann geystst í suðurátt.  Oliver tók spyrnuna og hún var þéttingsföst og inn á mijðan teig gestanna þar sem Höskuldur skaut sér fram fyrir varnarmenn Stjörnunnar og stýrði boltanum í bláhornið í þann mund að vallarklukkan sýndi 90 mínútur. Blikar innan vallar, á bekknum og í stúkunni og um land allt, gersamlega ærðust af fögnuði.
Samstundis var tilkynnt um 4 mínútur í uppbótartíma og þær voru æsispennandi og í eitt skipti skall hurð nærri hælum þegar boltinn rúllaði í teig okkar manni eftir vörslu Gunnleifs, sem hélt ekki knettinum, en Davíð náði að þruma boltanum í burtu og lengra komust gestirnir ekki. Tölfræðin segir okkur að Garðbæingum líður ekki vel í Kópavogi og það er vel að á því varð ekki breyting í gær.
Góður sigur hjá okkar mönnum staðreynd og við náðum öllum stigunum. Það var fyrir mestu.

Þetta var kannski ekki okkar besti leikur í sumar en í heildina góð frammistaða, menn að berjast allan tímann og uppskáru í lokin. Sigurinn var því sérlega sætur og ætti að vera gott veganesti í framhaldið.  16. umferðin klárast í kvöld og það verður fróðlegt a sjá í hvaða stöðu við verðum að henni lokinni.
4 eða 7 stigum á eftir FH? Það er spurningin.

Næsti leikur okkar manna er einmitt gegn FH  sunnudaginn 11. September og hefst kl. 17:00

Við þurfum öll stigin sama hvernig allt veltist og snýst.

Áfram Breiðablik!
OWK.

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla

Til baka