BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Lokahóf meistarflokka knattspyrnudeildar Breiðabliks

11.10.2015
Það ríkti mikil gleði og eftirvænting í sameiginlegu lokahófi meistarflokka knattspyrnudeildar Breiðabliks í Smáranum laugardagskvöldið var þegar árlegar viðurkenningar voru veittar fyrir efnilegustu- og bestu leikmennina og leikmenn leikmannanna. 
 
Þegar að Borghildur Sigurðardóttir hafði sett hátíðina voru fulltrúar KSÍ og Icelandair mættir til að veita viðurkenningu til Höskuldar Gunnlaugssonar sem var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildinni. Höskuldur er fæddur árið 1994 og er hann uppalinn í Breiðablik. Höskuldur hefur staðið vaktina á miðjunni hjá Blikum af myndarskap en hann er einnig fastamaður hjá U21 ára landsliði Íslands.
 
Í uppjörshófi Pepsi-deildar kvenna föstudaginn 25. september, hafði Fanndís Friðriksdóttir verið valin leikmaður ársins en Fanndís lék mjög vel með Íslandsmeistaraliði Breiðabliks. Fanndís varð einnig markadrottning ársins en hún skoraði 19 mörk á tímabilinu. Og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir var valin efnilegasti leikmaður ársins en Andrea lék stórt hlutverk með Breiðablik á tímabilinu og var því vel að nafnbótinni komin.
 
Atli Örn Jónsson, framkvæmdarstjóri sölu- og þjónustusviðs, frá Verði Tryggingar, aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar Breiðabliks, færði knattspyrnudeildinni peningagjöf & blóm sem Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar, Rakel Hönnudóttir, fyrirliði, veittu viðtöku.
 
Þá var komið að veitingu viðurkenninga frá knattspyrnudeild Breiðabliks. 
 
Meistaraflokkur kvenna:
Efnilegasti leikmaðurinn: Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir
Besti leikmaðurinn: Fanndís Friðriksdóttir
 
Meistaraflokkur karla:
Efnilegasti leikmaðurinn: Oliver Sigurjónsson
Besti leikmaðurinn: Gunnleifur Vignir Gunnleifsson
 
Og leikmenn leikmannanna, kjörnir af leikmönnum, eru: 
Meistaraflokkur kvenna: Guðrún Arnardóttir
Meistarafokkur karla: Kári Ársælsson
 
Fyrr um daginn hafði Olgeir Sigurgeirsson tilkynnt að hann ætlaði leggja skóna á hilluna eftir 13 farsæl ár, 321 leik og 39 mörk með Breiðabliki. Liðsfélagarnir minntust hans með viðeigandi hætti. 
 
Leikmenn gáfu liðsstjórum sumarsins áritaðar treyjur í ramma. 
 
Einni veitti BlikarTV viðurkenningar en fyrir nákvæmlega hvað er ekki alveg vitað og/eða betur látið ósagt.
 
Og undir lok hófsins gerði meistarinn sjálfur Páll Óskar smá hlé á undirbúningi Risa Pallaballsins og mætti í myndatöku eins og sjá má hér á síðunni. 
 
Áfram Breiðablik!

Til baka