BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Súrt tap fyrir Þór/KA í Boganum

15.05.2023 image

Byrjunarlið í Boganum á Akureyri:Taylor, Katrín, Elín Helena, Toni, Áslaug Munda, Ásta Agla, María, Bergþóra Sól, Telma, Hafrún Rakel og Andrea Rut.

Blikastelpur fóru í heimsókn norður á Akureyri þar sem þær spiluðu við Þór/KA.

Vorið er eitthvað að láta bíða eftir sér norðan heiða og leikurinn var því færður inn í Bogann svo ekki þyrfi að spila hann í snjó.

Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í deildinni með tvo sigurleiki og einn tapleik hvort þannig ljóst að leikurinn í kvöld var mjög mikilvægur.

Þór/KA stelpur komust í dauðafæri strax á annarri mínútu en Telma Ívarsdóttir varði glæsilega í marki Breiðabliks. Leikurinn var frekar jafn framan af þar sem bæði lið áttu nokkur færi á markið eða rétt framhjá því.

Á 27. mínútu skoraði Hulda Ósk fyrsta mark leiksins fyrir Þór/KA með neglu upp í fjærhornið eftir snögga sókn. Algjörlega óverjandi skot. Örskömmu síðar nær Hafrún Rakel í liði Breiðabliks ágætum skalla á markið en boltinn er naumlega gripinn. Blikastelpur því enn undir 1-0.

Restin af fyrri hálfleik var frekar tíðindalítil þó bæði lið hafi átt nokkur dauðafæri undir lok hans.

Seinni hálfleikur byrjaði svipaður og sá fyrri endaði og liðin frekar jöfn í marktækifærum. Agla María var nálægt því að jafna leikinn á 64. mínútu en Melissa markmaður Þórs/KA rétt náði að verja.

Á 81. mínútu komst Hafrún Rakel síðan í dauðafæri og hefði verið svo vel þegið ef hún hefði jafnað.

Eina spjald leiksins sem leikmaður fékk var undir lok seinni hálfleiks þegar Hulda Björg leikmaður Þórs/KA fékk að líta gula spjaldið fyrir að hanga aftan í Öglu Maríu.

Blikastelpur voru grimmari undir lok leiksins og fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn sem tókst því miður ekki.

image

Ásmundur Arnarsson þjálfari fékk síðan að líta gula spjaldið fyrir ummæli sín í kjölfar þess að leikmaður Þórs/KA fékk boltann í andlitið og sókn Breiðabliks var stöðvuð þegar boltinn var inni í vítateig andstæðinganna.

Sandra María í liði Þórs/KA kom liðinu síðan í 2-0 í uppbótartíma og innsiglaði sigur heimaliðsins og skaut Þór/KA upp í efsta sæti deildarinnar.

Blikastelpur náðu sér einhvernvegin ekki nógu vel á strik í leiknum og nýttu færin sín frekar illa. Það er þó nóg eftir af mótinu og ljóst að baráttan verður hörð í deildinni í sumar.

Næsti leikur er heimaleikur á Kópavogsvelli gegn FH þriðjudaginn 23. maí kl. 19:15! 

Anna Björg

Til baka