BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sterk og sannfærandi frammistaða gegn Selfyssingum

04.08.2023 image

Það voru fyrirtaksaðstæður á Kópavogsvelli í kvöld, hægur andvari og 12 stiga hiti en engin sól, sem þó hefur verið ansi þaulsetin undanfarnar vikur íbúum Suðvesturhornsins til mikillar gleði en um leið undrunar.

Fyrirfram mátti gera ráð fyrir snúnum leik fyrir Blika þegar Selfyssingar komu í heimsókn í Kópavoginn.  Selfoss vann virkilega sterkan sigur í síðustu umferð á meðan Blikakonur virtust ryðgaðar og ósamstíga í leik sínum gegn FH í krikanum um síðustu helgi. Það var því mikilvægt að stíga á bensíngjöfina, hækka tempóið og þjarma verulega að andstæðingnum.

Byrjunarliðið var það sama og í síðasta leik fyrir utan að Katrín kom inn fyrir Linli.  Telma í markinu, Ásta, Elín, Toni og Hafrún í vörninni.  Begga, Taylor og Andrea á miðjunni og Agla María, Katrín og Birta í framlínunni.

Blikar gerðu sér augljóslega grein fyrir mikilvægi leiksins og þeirri staðreynd að Selfoss er lið sem ekki má vanmeta því þær mættu gríðarlega ákveðnar til leiks, pressuðu hátt og spiluðu af mikilli ákefð.  Algjör einstefna var fyrstu 10 mínútur leiksins eða þar til Agla María skoraði fyrsta mark leiksins með frábæru skoti af 16 metrunum.   

image

Áfram héldu Blikar að pressa stíft og hleyptu Selfyssingum ekki upp völlinn að neinu ráði.  Eftir rúmlega 15 mínútur urðu Blikar hins vegar fyrir áfalli þegar Toni lenti í harðri tæklingu og virtist meiðast á ökkla og neyddist í kjölfarið til þess að fara af velli.  Írena kom inn í hennar stað inn á miðjuna og Taylor færðist niður í hafsent.  Aðeins hægðist á leiknum í kjölfarið á meiðslum Toni og áttu Selfyssingar sitt fyrsta skot á markið á 18 mínútu.  Blikar náðu hins vegar fljótt fullum tökum á leiknum og keyrðu áfram á Selfoss liðið án þess þó að koma inn marki.  Aðeins dróg úr hápressu og ákefð í kringum 30 mínútu og talsvert var um ónákvæmar sendingar næstu mínúturnar á eftir auk þess sem þéttleikinn í liðinu minnkaði.  Blikar kláruðu þó hálfleikinn vel með tveimur mörkum frá Andreu og Beggu.  Begga skoraði þarna sitt fyrsta mark í efstu deild.

image image

Tvöföld skipting gerð í hálfleik. Linli og Áslaug Munda komu inn fyrir Hafrúnu og Katrínu. Hafi yfirburðirnir í fyrri hálfleik verið miklir, urðu þeir ennþá meiri í seinni hálfleik. Urmull góðra marktækifæra skapaðist eftir góðar sóknir, en niðurstaða hálfleiksins varð þó bara eitt mark sem Linli skoraði snemma í hálfleiknum, hennar fyrsta mark í blikabúningnum. 

image

Vigdís og Clara komu síðan inn seint í leiknum fyrir Ástu og Beggu, en talsvert hægðist á leiknum síðustu 20-25 mínúturnar þótt færin hafi áfram komið á færibandi.

Heilt yfir virkilega sterk og sannfærandi frammistaða hjá Blikaliðinu þótt færanýtingin hefði vissulega mátt vera betri. En vissulega ekki hægt að kvarta yfir 4-0 sigri á liði sem Blikum hefur á stundum reynst erfitt að brjóta niður enda gott og vel þjálfað lið.

Stutt í næsta leik, Þór/KA kemur í heimsókn á mánudaginn næstkomandi og ljóst að þar verður hart tekist á enda eiga Blikar harma að hefna gegn norðankonum.

Ída

Til baka