BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sólskinsdagur á Austurlandi

30.05.2022 image

Áður en Austurland var kvatt þáði liðið höfðinglegt boð foreldra Áslaugar Mundu sem buðu öllu liðinu í mat. Þeim fannst greinilega ekkert mál að fá svona eins og eitt fótboltalið í mat. Takk fyrir okkur.

Mjólkurbikarinn er skemmtilegur með þeim mótherjum og ferðalögum sem keppnin býður upp á. Í 16 liða úrslitum dróst Breiðablik á móti sameinuðu liði á Austurlandi sem keppir undir því þjála nafni Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir. FHL (sem er skammstöfunin sem þau nota) kom fyrr upp úr pottinum og fékk því heimaleik. Leiðin lá því héðan úr sólinni í Kópavogi, á einum af bestu dögum sumarsins, austur á Egilsstaði. Veðrið þar var eiginlega ekki síðra, og byrjaði liðið eðlilega á því að labba í sólinni af flugvellinum og inn í bæ.

image

Mynd: Flosi Eiríksson

Þjálfararnir notuðu tækifærið og skoðuðu Vilhjálmsvöll, sem er gríðarlega fallegt vallarstæði þar sem frábært væri að spila fótbolta í sólinni, grasið á honum hafði ekki heyrt af því að það væri komið sumar og því ekki hægt að spila í þeim kartöflugarði. Leikurinn fór því fram, eðlilega, inni í Fjarðabyggðarhöllinni!

Þjálfararnir stilltu upp aðeins breyttu liði:

image

Mynd: Hermann Bjarkason

Natasha Moraa Anasi – Írena Héðinsdóttir Gonzales – Heiðdís Lillýardóttir – Clara Sigurðardóttir, Telma Ívarsdóttir – Karen María Sigurgeirsdóttir – Karitas Tómasdóttir – Birta Georgsdóttir – Kristjana R. Kristjánsdóttir Sigurz – Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir – Laufey Harpa Halldórsdóttir

Lið FHL er sambland af ungum og efnilegum heimastúlkum og sex erlendum leikmönnum. Leikurinn var rétt byrjaður þegar vörn Breiðabliks gerir mistök og Ainhoa Plaza Porcel skorar á 2. mín fyrir heimaliðið. Þá fór aðeins um fréttaritarann og hina 3 stuðningsmenn Blika sem voru í húsinu.

En okkar stúlkur voru ekki lengi að svara og Clara Sigurðardóttir jafnaði eftir vel útfærða sókn strax á 3. mínútu. Blikar héldu svo áfram að sækja og kom Birta Georgsdóttir Breiðablik yfir á 15. mín. Alvöru hasar í Fjarðabyggðarhöllinni.

Leikurinn róaðist aðeins eftir þessa fjörlegu byrjun, Blikar voru miklu meira með boltann og sóttu stíft en FHL varðist vel, markmaðurinn þeirra átti nokkrar fínar vörslur og virðist það vera þannig í sumar að við skjótum markverði andstæðingana í stuð.

FHL voru með skemmtilega stuðningsveit sem hélt uppi stemmingu í húsinu, sumt af því sem þeir sungu var meinfyndið, þeir fengu meðal annars einn af okkar leikmönnum til að athuga hvort hún væri með lausa skóreim! En nóg um það 2-1 forysta í hálfleik.

Leikurinn þróaðist svipað í byrjun seinni hálfleiks, Breiðablik sótti og sótti en gekk ekki nógu vel að skapa sér afgerandi færi eða skora. Á 60. mínútu gerði Ási tvöfalda skiptingu; Írena og Birta fóru af velli og Hildur Antonsdóttir og Helena Ósk Hálfdánardóttir komu inn á.

Sóknarþunginn jókst og um leið dró nokkuð af heimastúlkum sem sjáanlega voru að þreytast. Hildur skoraði stórglæsilegt mark á 66. Mín með óverjandi skoti og leikurinn alveg í höndum Breiðabliks.

Stuttu síðar henti Ási aftur í tvöfalda skiptingu – Áslaug Munda og Karitas fóru út af og inn á komu Alexandra Jóhannsdóttir og Melinda Ayres.

Um leið skiptu  FHL inn á Björk Gunnlaugsdóttir meðal fleiri, og já hún er litla systir Áslaugar Mundu, og já hún er líka rosalega fljót. Þær systur náðu ekki að spila hvor á móti annari að þessu sinni, kannski kemur það seinna, nú eða þær spila saman í grænum treyjum. Blikar sigldu þessu svo örugglega heim og bætti Helena Ósk Hálfdánardóttir við fjórða markinu á 71. Mín. Hildur Þóra Hákonardóttir kom síðan inná í stað Laufeyjar Hörpu þegar rúmlega tíu mínútur lifðu leiksins.

image

Áslaug Munda og Björg Gunnlaugsdætur.

Þessar frábæru fótboltakonur eru allar frá austurlandi:

image

Heiðdís, Björg og Áslaug frá Egilsstöðum og Telma Ívars frá Neskaupsstað.

Fagmannleg frammistaða hjá okkar stúlkum, en þó má segja að mörkin hefðu átt að vera fleiri.

Móttökur FHL voru til fyrirmyndar og umgjörð leiksins fín, í liðinu eru nokkrar ungar og upprennandi stúlkur sem verður gaman að fylgjast með í framtíðinni og gætu mögulega komið hingað á StórKópavogssvæðið í nám eða vinnu og vantað lið til að spila með.

Áður en Austurland var kvatt þáði liðið höfðinglegt boð foreldra Áslaugar Mundu sem buðu öllu liðinu í mat. Þeim fannst greinilega ekkert mál að fá svona eins og eitt fótboltalið í mat. Takk fyrir okkur.

p.s. leikur Leiknis og Breiðabliks í Bestu deild Karla var svo í gangi þegar flugvélin fór í loftið og ,,notkun raftækja varð óheimil“ það var því frábær endir á deginum að lenda í þokunni í Reykjavík og sjá að þeir höfðu unnið 2-1. Áfram Breiðablik

Flosi Eiríks

Og svo þetta. Breiðablik og Þróttur mætast í 8-liða úrslitunum. Liðin sem spiluðu til úrslita í fyrra. 

image

Bikarmeistarar 2021.

Til baka