BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

SIGUR HJÁ BLIKUM Í MIÐGARÐI

03.03.2022 image

Blikakonur spiluðu með sorgarbönd í minningu hans Einars Ragnars Sumarliðasonar sem hefði orðið 72 ára þennan dag.

Blikastelpur léku annan leik sinn í Lengjubikarnum í Miðgarði, hinu spánnýja knatthúsi Garðbæinga, við heimkonur í Stjörnunni. Leiknum lauk með sigri okkar kvenna 2-3.

Fyrsti leikurinn í Lengjubikarnum var við Tindastól í Fífunni 12. febrúar og lauk með 5-0 sigri Breiðablikskvenna þar sem Hildur Antons og Aleandra Soree skoruðu 2 mörk hvor og Karitas Tómasdóttir 1.

Miklar breytingar hafa orðið á Blikaliðinu frá síðasta leik við PSG í desember. Ótrúlegt að segja það að síðasti leikur félagsins hafi verið við PSG! Að minnsta kosti fjórar byrjunarliðskonur eru farnar og tvær til viðbótar, sem voru yfirleitt með þeim fyrstu sem komu inn, á sömuleiðis. 

image

Reyndar voru þær Karen María og Alexandra Soree báðar í hópnum í París. En aftur að leiknum í Miðgarði.

Telma var í markinu, Ásta og Hafrún bakverðir og þær Natasha og Elín Helena (sem báðar léku með Keflavík í fyrra) í vörninni. Írena Héðinsdóttir, Hildur, Karítas  á miðjuni og þær Alexandra Soree, Helena Ósk og Birta Georgsdóttir fremstar. Blikar stýrðu leiknum frá a til ö og þær Karitas og Hildur voru sem kóngar í ríki sínu á miðjunni. Hafði Helena Ólafsdóttir sem lýsti leiknum á Stöð 2 þetta að segja um Hildi: „Hildur er svo góð í fótbolta. Hún lætur leikinn líta út fyrir að vera svo einfaldan.“  Stjörnustúlkur áttu í stökustu vandræðum með að halda boltanum innan sinna raða og spörkuðu honum ítrekað frá sér. Þrátt fyrir talsverða yfirburði úti á vellinum í fyrri hálfleik tókst Blikum ekki að komast í almennileg færi en áttu þó töluvert af hálffærum og skottilraunum sem nýttust ekki. Helena Ósk sá um öll föst leikatriði hvort sem það voru horn- eða aukaspyrnur og má segja að hún hafi verið í yfirvinnu í fyrri hálfleiknum. Hafrún Rakel þurfti að fara af velli eftir um hálftíma leik og kom hin unga Birna Kristín Björnsdóttir inná í hennar stað og stóð fyrir sínu.

Í seinni hálfleik fóru hlutirnir að gerast.  Stjörnustúlkur byrjuðu á miðju, misstu boltann nánast strax, Blikar brunuðu upp fengu horn sem Helena Ósk tók og upp úr því átti Hildur nokkurn veginn bakfallsspyrnu þar sem skotið fór í Katrínu og í netið. Eftir það áttu Blikar nokkrar álitlega sóknir. Margrét Brynja komst í algjört dauðfæri eftir frábæra sókn en skaut beint á markvörðinn. Í staðinn brunuðu Stjörnustúlkur upp og nánast í fyrsta sinn sem þær ógnuðu að ráði og áttu skot sem Telma varði út í teiginn en  Katrín fylgdi á eftir og skoraði. Blikar svöruðu fyrir sig með 2 mörkum. Fyrst Hildur Antons með skalla eftir hornspyrnu Helenu Ósk og síðan Margrét Brynja sem fékk nánast samskonar færi og stuttu áður og núna urðu henni ekki á nein mistök og setti boltann í hornið. Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð og Stjörnustúlkur sóttu nokkuð þá sérstaklega eftir að Elín Helena varð að fara af velli vegna höfuðhöggs. Þær náðu að laga stöðuna undir lokin en nær komust þær ekki og sanngjarn sigur Blika var staðreynd. Hverjir stóðu upp úr? Ég hef áður nefnt þær Hildi og Karitas en Írena Héðinsdóttir Gonzalez (fædd 2004) átti virkilega flottan leik á miðjunni. Þá var Alexandra Soree spræk á kantinum sem og spyrnusérfræðingurinn Helena Ósk. Telma var örugg í markinu en var í brasi með sendingar út úr teignum í fyrri hálfleik. Þær Natasha og Elín Helena voru flottar í vörninni sem og Birna Kristín Björnsdóttir fyrst í vinstri og síðan í hægri bakverðinum. 3 stúlkur fæddar 2006 komu við sögu í leiknum, nýkomnar úr landsliðsverkefni U-16 á móti Sviss. Margrét Brynja skoraði og þær Harpa Helgadóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir komu inn á undir lokin.

H20

Til baka