BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur á móti FH

25.05.2023 image

Byrjunarlið Breiðabliks var þannig skipað: Telma, Toni, Hafrún, Agla, Taylor, Katrín, Ásta (f), Vigdís, Karítas, Hildur og Birta.

Í kvöld fengu Breiðablikskonur FH inga í heimsókn. Fyrir leikinn var Breiðablik í sjötta sæti með 6 stig og með sigri koma sér í efri hlutann eftir slæmt tap í síðustu umferð. FH var í 9. sæti með 4 stig.

Þrátt fyrir að veðrið hafi nú ekki verið neitt sérstakt, var ágætlega mætt  eða 295 manns og það var gaman að sjá galvaska krakka berjandi á trommurnar og syngjandi allan leikinn. Hamborgarar á grillinu og sjoppan vel mönnuð, allt eins og það á að vera.

Blikarnir byrjuðu mun betur í leiknum með strekkings vind í bakið. Þær náðu þó ekki að skapa sér nein alvöru færi. Agla María hitti boltann ílla í upplögðu færi á 9. mínútu. Eftir um 20 mínútur eiga Blikar efnilega sókn, Hafrún keyrir upp kantinn og með gott skot úr þröngu færi sem markvörður FH ver, en missir boltann en nær honum aftur áður en Katrín nær til hans.

Á 28. mínútu náðu FH ingar skyndisókn, leikmaður FH geystist upp kantinn og þrátt fyrir hetjulega tilraun Vigdísar að stöðva hana tókst það ekki og Mackenzie skoraði framhjá Telmu sem er örugglega drullusvekkt að hafa ekki haldið þessum bolta réttum megin við línuna. 0-1 staðan og það er ekki verðskulduð staða.

Blikarnir jöfnuðu svo á 39. mínútu eftir geggjað upphlaup hjá Vigdísi upp kantinn, með fyrirgjöf á Öglu Maríu sem tók flott skot sem markvörður FH varði í slánna en Hafrún var sneggst að ná frákastinu og skoraði auðvelt mark. 1-1.

image

Í blálokin björguðu FH á línu eftir góða hornspyrnu Blikanna. Skömmu síðar prjónuðu þær sig í gegnum vörnina en markvörður FH bjargaði með góðu úthlaupi. Staðan 1-1 í hálfleik og okkar konur svo miklu betri, en náðu oft ekki að hemja boltann í meðvindinum.  

Eitthvað voru Blikakonur værukærar í upphafi seinni hálfleiks því FH voru mun betri og sköpuðu sér nokkur færi sem þær nýttu ekki sem betur fer. Eftir korters leik jafnaðist þetta nú en maður saknaði yfirburðana sem Blikar höfðu í fyrri hálfleik. Eftir rúmlega klukkutímaleik komst Hafrún ein á móti markmanni eftir sendingu frá Birtu. En markmaðurinn náði að verja frá henni. En eftir þetta fór pressan að aukast og sóknirnar beinskeyttari.Á 75. mínútu fengu Blikar aukaspyrnu sem rataði til Hildar sem lagði hann snyrtilega í markið.

image

En Adam var ekki lengi í paradís, eftir skelfileg varnarmistök kemst Mackenzie í gegn og nær að koma boltanum í markið, hrikalega svekkjandi mark að fá á sig.

En Blikakonur gáfust ekki upp, sóttu stíft síðustu mínúturnar og uppskáru mark þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma. Andrea Rut með markið mikilvæga eftir frábæran undirbúning Hafrúnar.

image

Eftir darraðadans í vítateig Blikana í blálokin náðum við að standa af okkur orrahríðina og lönduðum mikilvægum en torsóttum sigri. FH má eiga hrós skilið fyrir hörku seinni hálfleik.  3-2 sanngjarn sigur þótt við hefðum ekki getað kvartað mikið ef þetta hefði endað jafntefli.

Næsti leikur okkar er bikarleikur á móti Fram á heimavelli, laugardaginn 27. maí klukkan 14:00. Breiðablik heimsækir síðan Selfoss heim í næsta deildarleik sínum eftir akkúrat viku, 31. maí.

Kristinn

image

Til baka