BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sagan skrifuð með fagurgrænu bleki

06.10.2021 image

Nýr kafli í íslenskri knattspyrnu hófst í kvöld. Þann 6. október 2021 tók íslenskt félagslið í fyrsta skipti þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Síðustu svona kaflaskil urðu 2016 þegar landsliðsstrákarnir komust í fyrsta skipti á stórmót. Þar á undan árið 2009 þegar stelpurnar komust í fyrsta skipti á stórmót. Og það var kvennalið Breiðabliks sem tók að sér að skrifa þessa sögu í kvöld.

Frábær mæting

Metaðsókn var á völlinn, uppselt, en sóttvarnarreglur komu í veg fyrir að fleiri en 1.412 gætu krækt sér í miða. Forseti lýðveldisins rétt náði í miða og nýkjörinn formaður Knattspyrnusambandsins hefur vafalaust notið gamalla Breiðablikssambanda og var líka á vellinum i kvöld. Sjálfur fylgdist ég með leiknum úr óvanalegu návígi þar sem hóa þurfti saman óvenju fjölmennri sveit gæslufólks þannig að félagið sýndi nú sendiboðum UEFA á staðnum að félagið gæti alveg haldið utan um íþróttaviðburð af þessari stærðargráðu. Að horfa á heilan leik af norðurenda hlaupabrautarinnar var skemmtileg nýbreytni en frásögnin, hér síðar í pistlinum, af því sem fram fór inni á vellinum er semsagt frá sama sjónarhorni og varamaður hefur sem er að hita upp frá fyrstu mínútu leiksins en kemur aldrei inná. 

image

Er Yoko Bliki?

Eins og við vitum flest, þá var ekki sjálfgefið að leikurinn yrði spilaður í Kópavoginum þar sem lýsingin uppfyllti ekki UEFA-kröfur. En rafvirki gekk undir rafvirkja hönd og það tókst að skrúfa nægilega upp í ljósunum til að undanþága fékkst og hún mun gilda alveg fram að jólum. Reyndar var líka hlýlegt að sjá að Yoko Ono virðist hafa lagst á sveif með Breiðabliksstelpunum með upphitunarkeyrslu á Friðarsúlunni í kvöld. Formleg tendrun er á laugardagskvöldið en bjarminn úr Viðey lagðist á sveif með flóðljósunum við Kópavogsvöll, þar sem var svo sannarlega bjart yfir fólki.
Að tjúna upp ljósin og fá að spila í Kópavoginum var ekki eina utanvallarviðfangsefnið sem við blasti eftir að stelpurnar stimpluðu sig inn í riðlakeppnina. Kvarnast hafði úr hópnum vegna skólagöngu sumra og þjálfarinn var bara samningsbundinn út íslenska tímabilið. Tekist var á við þetta og margt fleira var græjað í tæka tíð – áður en flautað var til leiks í kvöld. Af því verkefnin voru ærin og staðan kannski hreint ekki álitleg um hríð, hefur fólkinu sem lagði mikið á sig til að leysa málin vafalaust hlýnað þegar Ásta Eir fyrirliði hrósaði því í hástert á blaðamannafundinum daginn fyrir leik.

Myndaveisla í boði Blikar TV

image

Eiga heima á þessu sviði

Það var hrikalegur kraftur í okkar grænklæddu í byrjun. Ég þurfti að minna mig á að ef til væri ekki viðeigandi að náungi í gæsluvesti merktu UEFA innan öryggissvæðis hrópaði og gargaði og kannski voru áhorfendur að búast við einhverri 90 mínútna jarðarför en byrjunin ýtti aðeins við þeim. Hún var talsvert önnur en þegar við mættum sama Parísarliðinu 2019. Hugrekkið var allt annað, spilið var allt annað, sjálfstraustið allt annað.

Við fengum á okkur mark í fyrri hálfleik. Sá það illa af því það var hinum megin á vellinum, ég ekkert rosalega hávaxinn og erfitt fyrir gleraugnaglám að horfa beint upp í auglýsingaskiltin. Við fengum færi og svo dauðafæri sem ég sá betur. Ef og hefði!
Stelpurnar byrjuðu seinni hálfleikinn af rosalegu afli. Sá illa hvað gerðist af því það var þarna fjær. Áttum fyrri hluta seinni hálfleiksins eins og góðan hluta af þeim fyrri. Svo eftir miðjan seinni hálfleik var leikurinn talsvert nær mér og ég saknaði þess svolítið að sjá ekki fækka meira í upphitun hjá Blikastelpunum fyrr. Annað mark þeirra frönsku undir lok leiks og svo búið, 0-2.

image

Af því ég var í mínu gríðarlega ábyrgðarhlutverki og þurfti að passa upp á fólk væri ekki að flakka á milli sóttvarnarsvæða, að fólk í bílum í tilteknum stæðum við Sporthöllina væri ekki með háu ljósin á, að frönsku stelpurnar væru ekki að hita upp inni á upphitunarsvæði Breiðabliks og að ljósmyndarar væru ekki beint fyrir aftan markið, gríp ég niður í nokkrar fyrirsagnir fjölmiðlanna.

Frábær frammistaða Blika gegn frönsku meisturunum
Tap fyrir París en góð frammistaða
Svekkjandi úrslit eftir hörkuleik í Kópavogi

Bjart yfir

Það var ekki bara bjart yfir mannskapnum sem mætti á völlinn. Það var líka bjart yfir honum að leik loknum. Breiðabliksstelpurnar sýndu okkur að þær eru svakalega góðar í fótbolta og standast einu af fremstu liðum heims snúning. Þær sýndu okkur að það er engin tilviljun að Breiðablik er liðið sem er að skrifa þessa sögu íslensks fótbolta. Þær gáfu okkur líka alveg frábær fyrirheit um framhaldið í keppninni. Ásta fyrirliði sagði fyrir leik að það væri frábært að leika á þessu stærsta sviði. Hún og Breiðablikskonurnar allar sönnuðu í kvöld að þær eiga svo sannarlega heima á þessu sviði. 

Fyrsti leikur Ása er gegn Real Madrid

Leikurinn í kvöld var síðasti leikur Vilhjálms sem þjálfara, í bili að minnsta kosti. Honum voru formlega færðar þakkir í leikslok og þær voru verðskuldaðar enda bara nokkrir dagar frá því Mjólkurbikarinn var sóttur með tryggum og öruggum hætti á Laugardalsvöllinn. Takk Villi!

Nú er annar Breiðablikspabbi tekinn við, hann Ási, og við bjóðum hann velkominn til starfa. Það eru ekki margir þjálfarar í þeim sporum að taka við íslensku félagsliði og fyrsti leikurinn er gegn Real Madrid. Spánarstelpur unnu þær úkraínsku frá Kharkyiv í dag. 0-1 voru úrslitin og við erum hrikalega spennt að sjá beittar Breiðablikskonur mæta til Madrídar með gott veganesti úr Kópavogsdalnum í kvöld.

Eiríkur Hjálmarsson

Til baka