BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sá fjórtándi lætur bíða eftir sér

11.08.2023 image

Sá fjórtándi lætur bíða eftir sér

Annað árið í röð yfirgefur Blikaliðið Laugardalsvöll með silfur í farteskinu eftir tap í bikarúrslitaleik. Í þetta sinn var það Víkingur Reykjavík sem hafði betur og fagnaði sínum fyrsta bikarmeistaratitli eftir það sem verður að teljast verðskuldaður 3-1 sigur.

Þrátt fyrir að Víkingur spili í næst efstu deild og Breiðablik sé í toppsæti efstu deildar, þá var allan tímann vitað að viðureignin yrði afar spennandi. Ekki er á neinn hallað þó sagt sé að krafist var meiru frá Blikum á meðan byrinn var í seglum Víkings sem hafði allt að vinna og engu að tapa. Það mátti því búast við dýrvitlausum Víkingum frá fyrstu sekúndu, og var því svekkjandi hvað það virtist koma okkar liði á óvart sem endaði með marki í andlitið áður en mínúta var liðin.

Stórkostlegt einstaklingsframtak Birtu kom Blikum hins vegar aftur inn í leikinn.

Þá var búist við að kné fylgdi kviði, en illa gekk hins vegar að ná stjórn á leiknum í kjölfarið. Mark í andlitið frá Víkingum rétt fyrir hálfleik var svo þungt högg.

Allt kapp var lagt á að jafna í síðari hálfleik, en krafturinn var einfaldlega Víkingsmegin. Þegar öllu var til tjaldað í restina svöruðu Víkingar svo með því að gulltryggja sigur sinn í lokin.

Forföll vega þungt

Víkingsliðið er vel að bikarnum komið, en það má velta ýmsu fyrir sér varðandi það hvers vegna fór sem fór hjá Blikum. Helst má nefna þau forföll sem eru í liðinu. Stokka þurfti mikið upp í vörninni; Hafrún Rakel fór úr vinstri bakverði yfir í hægri í fjarveru Ástu fyrirliða, en þurfti svo sjálf að fara út af vegna meiðsla í fyrri hálfleik. Þá var enn róterað og Valgerður Ósk, sem fékk leikheimild með Blikum á leikdaginn sjálfan eftir komu frá FH, kom inn í vinstri bakvörðinn á meðan Vigdís Lilja fór yfir í hægri. Taylor leysti svo af í miðverði eins og hún hefur áður gert, og getur þá ekki á sama tíma mundað sinn eitrað skotfót við mark andstæðingsins. Svona hringl hefur mikinn áhrif á taktinn. 

Forföllin í liðinu koma svo ekki síður fram í því að Ana Cate styrktarþjálfari fékk félagaskipti í Breiðablik á leikdegi og var einnig á bekknum til uppfyllingar. Möguleikarnir til þess að stokka upp inni á vellinum eða gera stórtækar breytingar voru því takmarkaðir. Það munar um minna að leikmenn eins og Ásta Eir, Toni, Áslaug Munda, Hildur Þóra, Írena, Karítas og Helena Ósk eru allar frá og búnar að vera í lengri eða skemmri tíma.

Það liggur því einhvern veginn aðeins dýpra að ná fram þeirri liðsheild sem einkennt hefur Blikaliðið svo sterkt síðustu ár og meira þarf að treysta á framlög einstaklinga. Það skilaði sér vissulega í frábæru marki Birtu, en liðskraftinn einfaldlega vantaði á sama tíma og hann var til staðar hjá Víkingum og skóp þeirra sigur sem verður að teljast verðskuldaður. Það svíður hins vegar ekki minna fyrir Blika.

Frábærar framfarir

Það má hins vegar segja margt jákvætt um viðburðinn sjálfan, bikarúrslitaleikinn, og margt sem tengist honum. Fjölskylduhátíð Blika fyrir leik var mjög vel heppnuð og skapaðist þar mikil stemning.

image

Þá var slegið áhorfendamet þar sem 2.531 áhorfendur voru á Laugardalsvelli og hafa aldrei verið fleiri í bikarúrslitum í kvennaflokki. Stuðningur áhorfenda beggja liða var frábær, umgjörðin hjá báðum liðum sömuleiðis og þá er sögulegt að lið utan efstu deildar hampar titlinum. Þetta sýnir líka allt hversu stórkostlegar framfarir eru í íslenskum kvennafótbolta, innan og utan vallar. Þáttur Breiðabliks þar er óumdeildur, þó fjórtándi bikarmeistaratitillinn láti bíða eftir sér.

Nú er bara að keyra á fullu á deildina og koma Íslandsmeistaratitlinum heim í Kópavoginn!

AYV

Til baka