BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Of mikil brekka í Laugardalnum

27.08.2023 image

Stórleikur var í Laugardalnum í blíðunni í dag þar sem Breiðablik mætti Þrótti Reykjavík sem sitja í 4. sæti deildarinnar. Síðasti leikur liðanna endaði 2-2 og því ljóst að hörkuleikur væri framundan.

image

Leikurinn byrjaði af krafti og áttu bæði lið nokkur ágætis færi en ekkert endaði í markinu.

Hafrún Rakel setti boltann í netið snemma leiks en var því miður rangstæð og markið því dæmt af.

Telma hélt Blikakonum inni í leiknum þegar hún varði dauðafæri á 24. mínútu. Einungis mínutu seinna átti Agla María glæsilega sendingu á Birtu sem komst ein í gegn og skoraði fyrsta mark leiksins. Staðan orðin 1-0 fyrir Blikum.

Þróttarar jöfnuðu leikinn á 40. mínútu og einungis fjórum mínútum seinna bættu þær við öðru marki þegar Tony fékk boltann í sig sem fór þaðan í markið. Alvöru skellur og staðan orðin 2-1 Þrótturum í vil rétt fyrir hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði svipaður og sá fyrri. Bæði liðin komu inn af krafti. Breiðablik voru hins vegar fyrri til að bæta við marki þegar Birta skoraði sitt annað mark á 59. mínútu og jafnaði leikinn.

Sú gleði entist leiðinlega stutt þar sem Þróttarar skoruðu þriðja markið sitt einungis fjórum mínútum seinna og staðan því 3-2.

Breiðablik gerði fyrstu skiptinguna sína á 63. mínútu þegar Katrín kom inn á fyrir Andreu Rut. Önnur skipting Breiðabliks kom síðan stuttu seinna þegar Linli Tu kom inn á fyrir Hafrúnu Rakel.

Blikakonur komust nálægt því að jafna leikinn aftur á 74. mínútu með þremur tilraunum á markið í sömu sókninni en markvörður Þróttar og þversláin flæktust fyrir. Þær héldu áfram að vera líklegri til að bæta við marki en boltinn rataði því miður ekki í netið.

Þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma bættu Þróttarar við enn öðru markinu svo til upp úr þurru og staðan orðin 4-2. Útlitið ekki gott fyrir Blikakonur en baráttan hélt þó áfram.

Fimm mínútum var bætt við í uppbótartíma en það dugði ekki til að bæta við öðru marki og því endaði leikurinn 4-2 fyrir Þrótturum sem voru einfaldlega sterkara liðið í dag.

Birta Georgsdóttir var maðurinn leiksins hjá Blikum enda frábær í leiknum og skoraði bæði mörkin.

Anna

Til baka