BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggur fyrsti sigur og Blikahjartað slær

27.04.2022 image

Það er alltaf sérstök tilfinning að horfa á liðið sitt ganga út á völlinn í fyrsta deildarleik á nýju tímabili. Markmiðin lögð upp, og komin tími til að sýna sig. Það var ekki síður áhrifamikið að sjá Önnu Petryk í hennar fyrsta leik, gangandi inn á völlinn með þjóðfánann sinn úkraínska vafinn um sig. Lófaklappið hafði dýpri merkingu í þetta sinn.

image

Það var nokkuð óvænt í uppstillingunni að sjá Hafrúnu Rakel, sem hefur sannað sig í bakverði síðustu ár, spila framar á vellinum í þetta sinn. En Ási er lunkinn þjálfari og þetta reyndist sannkallað leynivopn. Hafrún var búin að skora eftir innan við tíu mínútur, og bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Blika eftir hálftíma leik. Þar að auki sýndi hún afar lipra takta fram á við, en þurfti því miður að fara meidd af velli áður en fyrri hálfleikur var úti. Það leit ekki vel út og við óskum henni góðs bata.

Á milli marka Hafrúnar var það svo hin úkraínska Anna Petryk sem skoraði, þegar hún fylgdi á eftir eigin skalla sem var varinn. Ekki slæm byrjun í fyrsta deildarleik á nýja heimavellinum, og það var augljóst hversu mikla þýðingu þetta hafði. Liðsfélagarnir föðmuðu hana sérstaklega fast að sér og samglöddust.. 3-0 í hálfleik og frammistaðan mjög góð.

Strax í upphafi síðari hálfleiks kom svo fjórða markið þegar Natasha, sem einnig var að spila sinn fyrsta deildarleik á nýjum heimavelli, stangaði boltann í netið. Mörkin hefðu hæglega getað verið fleiri, en fjögur er samt dágott í fyrsta leik.

Frumsýning, framúrskarandi og ósvaraðar spurningar

Eftir nokkurn bútasaum í vörninni í vor frumsýndu Blikar loks miðvarðarpar sitt sem ljóst er að gerir framherjum allra liða erfitt fyrir í sumar. Natasha og Heiðdís, nýkomin aftur frá Portúgal, eiga bara eftir að verða enn traustari þegar þær hafa spilað meira saman.

Það var miðjan sem skaraði hins vegar fram úr. Úti um allt var Hildur Antons frábær með Taylor Ziemer eins og svo oft í fyrra, og það gerði Önnu þægilegra fyrir að komast í takt við hlutina. Þá er rétt að ítreka hversu gleðilegt það er fyrir íslenska boltann að Taylor njóti hér lengur við, enda leikskilningurinn og sendingagetan úr efstu hillu.  

Lengi má gott bæta og þrátt fyrir fjögur mörk þá er enn innistæða fyrir framfarir og sérstaklega í fremstu víglínu. Miðað við þennan fyrsta leik er ekki ljóst hver á að bera hitann og þungann af markaskorun sumarsins, en færin dreifðust nokkuð jafnt milli miðju- og sóknarmanna. Hver eignar sér senterinn kemur í ljós.

Óþarfi en nauðsynlegt mark að norðan?

Rangstöðufnykur kom fyrir vit flestra í stúkunni undir lokin þegar gestirnir að norðan náðu að minnka muninn. Það var óþarfamark að fá á sig, en má segja að það hafi verið nauðsynlegt? Nauðsynleg áminning að halda áfram allt til enda. Nauðsynleg áminning að detta ekki í þægindarammann þrátt fyrir fjögur mörk, og nauðsynleg áminning fyrir varamenn að koma inn af krafti. Ef til vill, ef horft er á björtu hliðarnar.

Hvað sem því líður þá gengu stuðningsmenn sáttir í bragði heim í vorstillunni eftir þennan fyrsta heimaleik sumarsins. Leikmenn einnig, en þó með þá vitneskju í farteskinu að hægt er að gera enn betur. Það er jú enn bara apríl, og ballið rétt að byrja. Það var í það minnsta aldrei hætta að það færi illa á dansgólfinu í þetta sinn.

Myndaveisla:

image

Myndaveisla í boði Blikar TV og HVH

Hin ósjálfsagða sterka liðsheild

Það sem stendur einna helst upp úr eftir þennan fyrsta leik er liðsheildin, sem lengi hefur verið svo sterk hjá Blikum. Það er ekki sjálfsagt að hún haldi sér ár eftir ár, ekki síst þar sem leikmannaveltan hefur verið gríðarleg og helst í hendur við velgengni síðustu ára.

Þessi heild sýndi sig til dæmis svo sterkt inni á vellinum þegar Anna Petryk skoraði. Þetta nær einnig langt út fyrir völlinn sjálfan, sem sýndi sig til dæmis í því að liðið gerði sér ferð fyrir leik og lagði blóm við leiði Einars Ragnars Sumarliðasonar. Blikahjartað.

image

Það er einnig vert að minnast á umgjörðina í Kópavoginum, sem var virkilega góð og sjálfboðaliðar fá aldrei nægilega mikið hrós fyrir sinn þátt þar. Nærri 400 áhorfendur í stúkunni boðar einnig gott. Þeir fóru líka heim með eftirvæntingu og tilhlökkun í farteskinu fyrir því sem koma skal. Þannig viltu skilja við stuðningsmennina, og það gerði Breiðabliksliðið sannarlega í kvöld.

-AYV

Umfjallanir annarra netmiðla & myndir

Mörkin og klippur úr leiknum í boði Blikar TV:

Til baka