BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Miklir yfirburðir

05.08.2022 image

Hefnigirni er ekki dyggð. Kappsemi er dyggð og heilbrigður metnaður. Eftir sannfærandi 5-0 sigur gegn KR í fyrsta leik Breiðablikskvenna eftir EM var þó að því komið í kvöld að hefna harma frá í vor. Keflvískar konur sóttu okkur heim en þær höfðu hirt öll þrjú stigin í leik liðanna suður með sjó snemma í maí og náð jafntefli í næstu tveimur liðanna þar á undan. Síðan þá hefur talsvert vatn runnið sjávar og meira að segja talsvert hraun upp úr Suðurnesjunum. Það var samt ekki gas frá gosstöðvunum sem lagðist yfir Kópavogsvöllinn fyrir leik heldur ilmur frá annáluðu hamborgaragrilli heimafólks.

Mmmmmm.

Eins og áður er rakið á þessum vettvangi urðu nokkrar hræringar í hópnum í hléinu en þetta var hið funheita byrjunarlið Breiðabliks í leiknum gegn Keflavík.

Mark: Eva Nichole Persson. Vörn: Karen María Sigurgeirsdóttir, Natasha Anasi, Taylor Ziemer, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir. Miðja: Birta Georgsdóttir, Karitas Tómasdóttir, Hildur Þóra Hákonardóttir, Agla María Albertsdóttir. Sókn: Clara Sigurðardóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir. Af bekknum voru aftur þau tíðindi að Rakel Hönnudóttir var staðgengill Persons sem varamarkvörður.

Suðurnesjakonur spiluðu ansi hreint þétta vörn allan leikinn, hafandi náttúrulega okkar konur að fyrirmynd sem fengið hafa á sig fæst mörk í deildinni. Engu að síður tókst okkur að skapa þó nokkur færi, hálffæri og talsvert af lofandi stöðum í fyrri hálfleiknum. Okkar spil var snarpara, þær grænu hreyfðu sig betur án bolta, vissu hvernig þær ætluðu að sækja. Langskot beggja liða voru það eina sem var sambærilegt í fyrri hálfleik en þau geiguðu langflest.

Þolinmæði er líka dyggð, rétt eins og kappsemi og metnaður og undir blálok uppbótartíma fyrri hálfleiksins bar hún ávöxt. Birta kom sér þá enn einu sinni upp að endamörkunum og í stað þess að renna boltanum út, eins og flestar bjuggust við, renndi hún honum nánast meðfram marklínunni, beint í fæturna á Clöru sem tók þá hlaupalínuna að markinu og smellti honum í netið. 1-0 og flautað til hálfleiks um leið og Keflavíkurkonur tóku miðjuna.

Eftir þetta góða vítamín og tesopa í hálfleik var leikurinn einstefna í þeim síðari. Öll völd á vellinum voru Breiðabliks og miklu minni þolinmæði þurfti til að sjá vinnusemina skila uppskeru. Átta mínútur inn í hálfleikinn var komið að Birtu að skalla inn snyrtilega fyrirgjöf Áslaugar Mundu, en hún hafði mátt sækja tvísýna sendingu af miðjunni af sannfæringu og einbeitingu út að hornafána áður en hún gaf hárnákvæmt fyrir.  2-0.

Og það var flottur, reglubundinn taktur í okkar leik því átta mínútum síðar höfðum við pressað vel, basl á Suðurnesjakonum í vörninni og þegar boltinn barst til AfmælisBlika dagsins, Öglu Maríu Alberstdóttur, í teignum, smellti hún honum bara í markið. 3-0.

Með þessa lofandi stöðu og öll völd á vellinum var komið að skiptingum. Þær voru ekki síður spennandi, en allar fimm sem komu inn eru með kennitölu sem endar á núlli og sú yngsta – Margrét Brynja – fædd 2006.

Hún og þær Helena Ósk, Bergþóra Sól, Laufey Harpa og Írena settu hver mark sitt á leikinn með sínum hætti. Í stuttu máli héldust yfirburðirnir algerir og dauðafærin eins og perlur á festi undir lok leiks. Úr stúkunni heyrðust allnokkur Vúúú og Úhhh og Ahhh um það leiti að tuðrunni smellt rétt fram hjá innan markteigs eða hátt yfir af 120 sentimetra færi.

Stúkan klappaði hinsvegar verðskuldað fyrir Birtu þegar hún var útnefnd kona leiksins og svo þegar flautað var af.

Nú eru aftur bara tvö stig í Val, sem situr á toppnum, en þær rauðu unnu Akureyrarkonur í gærkvöldi. Innbyrðisleikur þessara liða verður eftir næsta landsleikjahlé og ekki fyrr en þriðjudaginn 13. september – úti.

Fram að þeim leik á væntanlega talsvert hraun eftir að fylla Meradali og næsti leikurinn er Stjarnan úti á þriðjudag. Það verður erfiður leik gegn liðinu í þriðja sæti Bestu deildarinnar en grænklæddir verða tíðir gestir í Garðahreppi næstu dagana því meistaraflokksstrákarnir eiga þar útileik á sunnudagskvöldið.

Áfram gakk!

Eiríkur Hjálmarsson

Myndaveisla í boði BlikarTV:

image

Til baka