BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Leikur tveggja hálfleika!

08.08.2023 image

Það voru frábærar aðstæður til að spila fótbolta á frídegi verslunarmanna og flest eins og best verður á kosið – reyndar fyrir utan mætinguna á völlinn, hún var satt best að segja frekar léleg!  Mögulega spilar verslunarmannahelgin stóra rullu þar, en við þurfum að gera betur sérstaklega núna þegar við erum með lið sem er í harðri baráttu við Val um efsta sætið í deildinn og komið í bikarúrslit.

Byrjunarlið Blika var svon skipað:

image

Það eru augljós sannindi að fótbolti er leikur tveggja hálfleika, en stundum á það meira við en venjulega og þannig var það í dag þegar Blikastúlkur tóku á móti norðanstúlkum í Þór/KA.  Þór/KA er virkilega hættulegur andstæðingur eins og Blikar hafa fengið að finna fyrir tvisvar á þessu ári.  Þær eru mjög þéttar, vel skipulagðar til baka og eru virkilega „clinical“ í sínum skyndisóknum.  Það er því mjög mikilvægt að kæfa allar skyndisóknir frá þeim í fæðingu og dekka þeirra fremstu menn vel.

Fyrri hálfleikurinn fór svo sem ágætlega af stað og Blikar komust í ágætar stöður, en engu að síður lentum við undir eftir 12 mínútur og uppskriftin sú sama og oft áður.  Hulda Ósk braust upp hægri vænginn og sendi boltann á fjærstöng þar sem Sandra María afgreiddi boltann snyrtilega í netið.  Fram að þessu voru Blikar mikið meira með boltann en tempóið í sóknarleik Blika var of hægt og því áttu norðanstúlkur frekar auðvelt með að verjast sóknartilburðum Blika og varnarfærslurnar þeirra voru því of þægilegar, líkt og gerðist í fyrri leik liðanna fyrir norðan.  Og þannig gekk raunar allur fyrri hálfleikurinn fyrir sig, Blikar miklu meira með boltann og komust í ágætar stöður á síðasta þriðjungi vallarins, en gekk illa að skapa sér opin og góð marktækifæri.  Þór/KA leiddi því í hálfleik 1-0 og heilmikið verk að vinna fyrir Blika að snúa þessu við því undanfarnir tveir leikir gegn Þór/KA höfðu þróast með mjög svipuðum hætti og endað illa!

Tvær breytingar voru gerðar í hálfleik, Birta og Írena komu inn fyrir Áslaugu Mundu og Beggu Sól.

Leikhléið var greinilega vel nýtt og Blikaliðið mætti ákveðnara til leiks í seinni hálfleik og byrjaði strax að þjarma að Þór/KA og skapa sér góðar stöður.  Það bar árangur á 62 mínútu þegar vel útfærð sókn Blikaði endaði með flottu skallamarki Linli Tu eftir frábæra fyrirgjöf Hafrúnar, sem hafði komið inn á fyrir Ástu fyrirliða 10 mínútum áður.

Áfram þyngdist sókn Blika og á 71 mínútu skoraði Linli Tu aftur eftir að Andrea hafði komið sér af miklu harðfylgi í boltann á endalínunni og lagt hann snyrtilega fyrir Linli sem kom boltanum í netið.  Aftur kom varamaður virkilega sterkt inn í leikinn því Andrea kom inná nokkrum mínútum fyrr.  Það má aldrei slaka á klónni gegn Þór/KA og augnabliks einbeitingarleysi kostaði okkur mark á 79 mínútu, keimlíkt fyrra markinu þeirra og staðan aftur orðin jöfn – virkilega svekkjandi eftir vinnuna sem hafði verið lögð í að jafna leikinn og komast yfir.

Blikar lögðu þó ekki árar í bát og svöruðu fyrir þetta 5 mínútum síðar með öðru skallamarki og nú var það Katrín sem skorað eftir hornspyrnu frá Öglu Maríu. 

image

Birta innsiglaði síðan sigurinn með frábæru marki undir lok leiksins og 4-2 sigur Blika því staðreynd.  Undir lok leiksins kom síðan Ása inn fyrir Katrínu.

image

Niðurstaða leiksins því sterkur sigur og fjögur mörk í seinni hálfleik gegn sterku liði Þórs/KA – niðurstaða sem gefur góð fyrirheit fyrir bikarúrslitin á föstudaginn kemur.

Kristján Halldórsson

Til baka