BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

„Hvað erum við að kenna þeim?“

12.07.2022 image

Er knattspyrna eitthvað fyrir konur?

Árið 1921 var lögð fram tillaga á ársþingi enska knattspyrnusambandins FA um að blátt bann yrði sett við iðkun knattspyrnu kvenna innan raða þess. Ástæðan: „Football is quite unsuitable for females” hét það hjá hinu erkiíhaldssama Football Association!  Þetta bann var við lýði í 50 ár!   Það var ekki fyrr en 1971 sem þessu banni var aflétt og kvennaknattspyrnan hélt innreið sína en átti lengi erfitt uppdráttar. Núna – 50 árum síðar fer einmitt fram á Englandi EM kvenna þar sem Ísland vann sér þátttökurétt og met er slegið í sölu aðgöngumiða á stórmótum kvenna í knattspyrnu. Í Kópavogi hóf Breiðablik skipulagðar æfingar í kvennaknattspyrnu árið 1967 undir stjórn Guðmundar Þórðarsonar. Fyrsti opinberi leikurinn var svo ári síðar þegar úrvalslið vestur- og austurbæjar Kóapvogs mættust á Vallargerðisvelli.“ Breiðablik hefur orðið Íslandsmeistari 18 sinnum og bikarmeistari 13 sinnum – og er sigursælasta liðið í kvennaknattspyrnu á Íslandi.

image

1972 Kvennalið Breiðabliks á fyrsta Íslandsmóti utanhúss. Aftari röð f.v.: Dóra Vilhelmsdóttir, Anna María Þórðardóttir, Rósa Á. Valdimarsdóttir fyrirliði, Þorbjörg Erlendsdóttir, Annar S. Ragnarsdóttir, Sigurbjörg Kristinsdóttir, Ingibjörg H. Halldórsdóttir og Ægir Guðmundsson þjálfari. Fremri röð f.v.: Margrét Þorsteinsdóttir, Guðlaug Þráinsdóttir, Matthildur Kristinsdóttir, Anna M. Ingófsdóttir, Bryndís Einarsdóttir og Guðný Pétursdóttir.

Símamótið

Undanfari Símamótsins var Gull & Silfur mótið en þessi mót hafa verið haldin óslitið frá árinu 1985 hér í Kópavogi og er núna stærsta knattspyrnumótið sem haldið er á Íslandi. Segja má að hér hafi allar íslenskar knattspyrnustúlkur stigið sín fyrstu skref í keppni hérlendis. Til að mynda gildir það um allar þá 22 leikmenn nú skipa landsliðshóp Íslands á EM 2022.  Það segir sína sögu um vigtina sem Breiðablik hefur í íslenskri kvennaknattspyrnu að 13 af þeim sem eru í íslenska EM hópnum hafa einhvern tímann hafa klæðst Breiðablikstreyjunni á sínum ferli.

Fyrsti landsleikur Íslands var gegn Skotlandi árið 1981 sem tapaðist 2-3. Breiðablik átti 7 leikmenn af 11 í byrjunarliðinu og Blikarnir Ásta B Gunnlaugsdóttir og Bryndís Einarsdóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum. Þjálfari liðsins var Guðmundur Þórðarson, sá mikli Bliki.

image

Í byrjunarliðinu voru 7 Blikar af 11. Fyrirliði liðsins var Rósa Valdimarsdóttir, en faðir hennar, Valdimar Valdimarsson, sá mikli snillingur og brautryðjandi var óþreytandi að berjast fyrir viðgangi kvennaknattspyrnunnar í bænum. Við Rósa vorum saman í bekk í Kópavogsskóla og ég vissi alltaf hversu góður knattspyrnumaður hún var. Við áttum mörg samtölin um fótboltann og hún lék stundum með okkur í  bekkjarliðinu - en ekki nógu oft, þetta þótti ekki einfaldlega passa þá, því miður. Kennari okkar var Gerður G. Óskarsdóttir, frumherji í Rauðsokkahreyfingunni og var hún ötul í að hvetja stelpurnar í bekknum að láta engar karlrembuhindranir koma í veg fyrir að láta drauma sína rætast.  Rósa naut góðs af því.

Það var í þessum farvegi sem Gull & Silfurmótið, nú Símamótið, varð til. Hér verður saga Símamótsins ekki rakin, það hef ég gert i öðrum pistlum í árlegri umfjöllun um þetta frábæra mót: 2020 - 2021 - 2019

Gríðarlegar framfarir

Ég hef góðan samanburð á þessum mótum, hef dæmt í mótunum um langt árabil, allt frá því ég var leikmaður sjálfur og eru því komnir nokkrir áratugir síðan.  Að þessu sinni var mér úthlutað leikjum hjá 5. flokki og fóru þeir fram í Fagralundi í Fossvogi. Þar er frábær umgjörð í fallegu umhverfi sem til allrar guð lukku fór ekki undir margra akgreina hraðbraut eins og Reykjavíkurborg var búin að samþykkja 1986.

image

Dómarar á Kópavogsvelli á sunnudeginum tilbúnir í slaginn eftir að hafa hlýtt á fyrirlestur Hermanns Bjarkasonar, dómarastjóra (í ljósbláu peysunni). Hermann var þarna að stjórna málum í 6. sinn. Einstaklega traustur póstur í framkvæmd Símamótins.

Það er ljóst að miklar framfarir hafa orðið í knattspyrnugetu ungra stúlkna í þessari fallegu íþrótt sem knattspyrnan er. Í 5. flokki leika 10-11 ára stúlkur.  Það var áberandi meðal mjög margra liða hvað þær voru að reyna að leika knattspyrnu eins og á að gera það. Að sjá þessar stelpur hlaupa á móti samherja, fá boltann og færa sig á nýtt svæði til að losa um spilið. Fallegt þríhyrningsspil sá maður oft, meira að segja vel útfært „overlap“ (koma úr varinu til að til að fá sendingu á ferðinni) og margt fleira. Svona atriði sáust vart fyrir 10-15 árum síðan í þessum flokki. Þetta sýnir manni að þjálfararnir eru betri og menntaðri en áður, og það sem meira er – þeir eru að kenna stelpunum grunnatriðin við að leika knattspyrnu.  Spörk út í bláinn (stundum þarf að hreinsa úr vörn auðvitað) eða grófur leikur sást varla.

image

Willum Þór Þórsson og greinarhöfundur

Willum Þórsson á 5 börn sem öll hafa hlotið sitt knattspyrnuuppeldi hjá Breiðablik. Willum kemur á hverju ári og finnst forréttindi að fá að taka þátt í framkvæmd mótsins " Það er ekkert mikilvægara í mínu starfi en að stuðla að forvörnum og heilbrigðu líferni og lífsstíl fólks. Símamótið er lýðheilsustarf í sinni tærustu mynd.  Fyrir utan hvað það er gaman að sjá leikgleðina hjá stelpunum. Til hamingju, Blikar með stórglæsilegt Símamót 2023"

Hvað erum við að kenna þeim?

Að þessu sinni var mér úthlutað leikjum í Fagralundi í Fossvogi eins og áður segir og ég var að skila mínu síðasta leikkorti af 15. Verið var að leika um sætin og hafði nýlokið við að dæma hörkuleik tveggja öflugra liða sem endaði í jafntefli 2-2. Framlenging skilaði 2 stangar- og sláarskotum.  Ég er ýmsu vanur – en það skapaðist mikil spenna á hliðarlínunni.  Ekki hjá þjálfurum, heldur aðstandendum. Stelpurnar voru allar hæstánægðar, þökkuðu fyrir leikinn og leikmenn voru sælar og glaðar með frábæran fótboltaleik.  Reglur mótsins eru þær að ef leikið er um sæti verður hlutkesti látið ráða og ef um er að ræða bikara deila liðin sigurlaunum.  Allir sáttir og stelpurnar líka.

Þá gerist þetta.  Stór og mikill faðir kemur inn í fundarherbergi dómarastjórnar Fagralundar hlutans og hrópar yfir salinn með mikilli baritón röddu; „Er ekki hægt að fara með þetta í vítaspyrnukeppni og málið er dautt? Hvað erum við að kenna þeim?“

Þessi uppákoma var algerlega úr öllu korti frá því sem ég hafði upplifað. Foreldrar í dag  eru nánast allir til mikillar fyrirmyndar. Mér varð hugsað til uppákomunnar á N1 mótinu á Akureyri um daginn þar sem kom upp leiðindaatvik og varð að miklu fjölmiðlamáli. Fram komu raddir um að kannski ættum við ekkert að vera að halda þessi stórmót fyrir krakka. Þetta er svo fráleit umræða og galin. Þessi mót gera svo margfalt meira samfélagslegt gagn borið saman við þann meinta skaða sem af þeim hlýst,

image

Greinarhöfundur og María Sveinbjörg Janusardóttir, leikmaður í "Rebekka Sif" (KR). 

       María:   "Dómari, hvað heitir þú?"

       Hákon:  "Ég heiti Hákon - en hvað heitir þú?

       Maria:   "Ég heiti María Sólveig.   Hvað ertu gamall, Hákon"?

       Dómari:  "Uss - ég er alveg hundgamall, ég er orðinn meira en sextugur

       María:    Hva - það er nú enginn aldur, þú ert svo unglegur, Hákon.  

Símamótið í ár var eins vel heppnað og hugsast gat. Stelpurnar – sem þetta er allt gert fyrir – fara heim með góðar minningar og allar sem ég talaði við ætla að koma aftur að ári.  Allar þessar stelpur sem koma á Símamótið verða betri einstaklingar á eftir fullyrði ég. Þær læra að sigra og sýna auðmýkt – en líka að tapa með reisn og gera betur næst.  Þetta er ágætis svar til föðurins í Fagralundi. Vítakeppni um sæti nr. 5 eða 6 breytir nákvæmlega engu þar um.

image

Greinarhöfundur með Jóhann Jónssyni sem er höfuðið á framkvæmdinni. Jóhann var afar sáttur. "Við þurfum að setja þak á þátttökuliðin. Við getum ekki tekið á móti fleirum - en getum þá líka haft það þjónustustig sem við viljum hafa.

Til hamingju Jóhann Jónsson mótsstjóri og allir Blikar með að halda Breiðablikskyndlinum á lofti. Símamótið er á margan hátt það flaggskip sem Breiðablik stendur fyrir og ég er hvað stoltastur af.  Ég hlakka til Símamótsins 2023.

Hákon Gunnarsson

Sjá stutta samantekt frá mótinu í myndbandsformi:

Gefðu kost á þér í Blikar.is liðið

Blikar.is er óháður stuðningsmannavefur meistaraflokka Breiðabliks og nú vantar okkur fleira fólk til að sjá um að setja inn efni og miðla því á samfélagsmiðlum blikar.is

Stuðningsmannavefurinn er mjög öflugur í allri fréttamiðlun á blikar.is vefnum og tengdum samfélagsmiðlum. Ef þú hefur áhuga á og tíma til að gefa kost á þér í þetta lið, þá sendu okkur endilega línu á blikar@blikar.is

Miðlarnir okkar eru:

www.blikar.is og www.blikar.is/kvk

Blikar.is á Facebook 

Blikar_is á Twitter

Blikar_is á Instagram

Blikahornið á Soundcloud

Nánar um Blikar.is hér og hér

image

Til baka