BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

“Við heitum allar Hólmfríður Magnúsdóttir”

19.07.2021 image

Símamótið - Stærsta knattspyrnumót á Íslandi 

Símamótið er ekki eins og hvert annað knattspyrnumót.   Það er hið stærsta sinnar tegundar sem haldið er á Íslandi ár hvert.   Í ár voru þátttakendur frá 42 félagsliðum sem skiptust niður á 420 keppnislið!   Skráðir þátttakendur voru um 3.000 talsins og fjöldi leikja sem fram fóru voru 1.635. Í ár var tekist á við enn nýja áskorun.  8. flokkur kvenna var með í fyrsta sinn og gekk sú ákvörðun vel upp.  Eftirvæntingin þar var ósvikin og baráttan mikil.  Margir leikmannanna hafa auðvitað enga reynslu og eru flestar enn að taka tennur.  En þarna mátti sjá þvílíkt efnilega knattspyrnumenn sem munu láta að sér kveða.   Eftir þá reynslu eru aðilar sammála um það það fyrirkomulag mun verða í framtíðinni.  Það þarff ekki mikið ímyndunarafl til að finna út hversu gríðarlega umfangsmikil framkvæmd Símamótið er. Pistlahöfundur var framkvæmdastjóri Heimsmeistarakeppninnar í handknattleik sem fram fór á Íslandi árið 1995. Framkvæmdin þar gekk mjög vel en ég get vottað það að mesti tíminn í framkvæmdinni fór oft í óvæntar uppákomur sem alls ekki var gert ráð fyrir í vel undirbúnum skipulagsáætlunum.  Þá reynir á útsjónarsemi og hugarfar mótshaldara til að allt gangi upp.   Það er mín tilfinning að margir vanmeti þá þekkingu, reynslu og útsjónarsemi sem það útheimtir að skipuleggja Símamótið.  Saga Símamótsins byrjaði árið 1985 og kallaðist þá "Gull & Silfurmótið".   Frá árinu 2005 hefur Síminn verið helsti bakhjarl mótsins og borið heiti fyrirtækisins. Samstarf Breiðabliks og Símans er til mikillar fyrirmyndar og allir eru sammála um metnaðinn í framkvæmd mótsins.  Umgjörðin í kringum félagssvæðið okkar – bæði í Kópavogsdal og í Fagralundi er líka afar hentug og gefur mótinu einstaka ásýnd.   

image

Allt veltur á sjálfboðaliðunum 

Það má teljast kraftaverk að Símamótið 2020 - covid árið mikla í fyrra -  hafi farið fram yfirleitt.  Það tókst með einstaklega markvissri skipulagningu mótsstjórnar undir forystu Jóhanns Þór Jónssonar, mótsstjóra og Eysteins Péturs Lárussonar framkvæmdastjóra Breiðabliks að koma því heim og saman.  Auk allra þeirra hundruða sjálfboðaliða sem lögðu á sig þrekvirki til að láta allt ganga upp.  Sú reynsla að hafa þurft að hugsa út fyrir rammann var síðan nýtt til að gera Símamótið enn betra og að varð raunin núna 2021 þegar stærsta knattspyrnumót sem haldið hefur verið á Íslandi fór fram. 
Það er skemmst frá því að segja að Símamótið hefur sérstakan sess í hugum okkar Breiðabliksfélaga. Mótshaldið er mikið sameiningartákn í okkar huga. Að mótinu koma nokkur hundruð sjálfboðaliðar sem gera það mögulegt að láta mótið ganga sinn þannig að allt takist eins og best verður á kosið. Þeir eru lykillinn að því að þetta getur gengið upp á jafn frábæran hátt og raun ber vitni

image

“Við erum komin til að skemmta okkur hér

Undirritaður hefur notið þeirra forréttinda að fá að starfa sem sjálfboðaliði við Símamótið í afar langan tíma.  Á upphafsárum Gull og Silfurmótsins var ég leikmaður með meistarflokki Breiðabliks og sinnt störfum á mótinu í áratugi með einhverjum hætti þegar óskað hefur verið eftir.  Mér hefur mest verið treyst fyrir dómgæslu og þannig var það núna.  

Það er alltaf sama leikgleðin í gangi en í ár var bryddað upp á nýbreytni varðandi heiti á þátttökuliðunum.  Í stað þess að vera flokkuð eftir félagsliðunum og  goggunarröð í anda getustigsins þá var þeim tilmælum beint að nú skyldu öll lið heita eftir einhverri fyrirmynd sem þær máttu ráða hver væri.  Þetta er alveg fantagóð hugmynd og algerlega í anda þess sem Símamótið stendur fyrir.  Auðvitað er barist inni á vellinum og en lykilatriðið er að taka þátt í drengilegri keppni þar sem ánægjan skiptir öllu – fremur en úrslitin sem slík. 

Ég dæmdi á annan tug leikja. Það gekk mjög vel fyrir sig.  Þegar ég var að byrja að dæma leik KFR (Hólmfríður Magnúsdóttir)  og Gróttu (Diljá Mjöll) í 7. flokki átti ég stutt spjall við leikmennina eins og gengur.  “Hvað heitið þið stelpur?” kom svar úr herbúðum KFR.  “Við heitum allar Hólmfríður Magnúsdóttir”.   Hólmfríður er auðvitað ein besta knattspyrnukona landsins.  Hún er enn að – og leikur með Selfossi þetta tímabil eftir farsælan feril.  Hún hóf feril sinn einmitt í KFR áður fór til Selfoss og síðar til útlanda.  Hólmfríður er mikil fyrirmynd – til að mynda er hér 10 ára gömul frétt þar sem hún fór um allt Suðurland að kynna kvennaknattspyrnu á svæðinu.     Sjá hér  

image

 Ég hafði áður tekið eftir leikmanni í þessu liði sem hafði skorað grimmt í fyrri leikjum.  Í hálfleik var staðan 1-0.  Firnasterkt lið Gróttu var öflugt í síðari hálfleik og náði að setja 2 mörk og unnu naumlega.  Eftir leikinn átti ég stutt samtal við Ástvald Helga Gylfason þjálfara KFR og sagði eitthvað á þá leið að það hefði sennilega verið árangursríkara að láta leikmanninn með stutta hárið og eyrnalokkana ekki í markið.  Mjög auðþekkjanleg því allar hinar voru með miklar og fallegar fléttur.   Valdi þjálfari brosti þá og sagði:  “Já ég veit. En Þorbjörg mín vildi endilega fá að prófa að spila í marki einu sinni. Við erum hér til að skemmta okkur og úrslitin skipta ekki öllu máli”.   Ég þurfti aðeins að bíta í tunguna á mér þarna. Rangæingarnir eru algerlega með hugarfarið í lagi – og það var einstakt að sjá hversu samheldinn þessi hópur var.  Foreldrar, systkini og ættingjar voru hvetjandi og brosandi allan tímann.  Einstaklega skemmtilegur hópur.

image

“Hólmfríður Magnúsdóttir” hafði unnið alla sína 5 leiki þegar þarna var komið sögu.  Þær léku síðan undanúrslitaleikina gegn KR (Laufey Björns) og Selfossi (Barbára Sól). Það var KR  sem hampaði bikarnum í þessum riðli en Selfyssingarnir undir stjórn Örvars þjálfara vöktu einmitt sérstaka athygli á mótinu líka fyrir álíka jákvæðni og sveitungar þeirra af Suðurlandinu. 

Ég fékk skilaboð frá Valda þjálfara þar sem hann lýsti því hvernig Símamótið hefur sérstaka þýðingu fyrir stelpurnar og þakkaði fyrir sig og hópinn í heild sinni.  Hópurinn hélt alsæll heim á Njáluslóðir og kemur allur galvaskur til baka að ári.  Ég ætla að halda áfram að dæma og reyna að gera gagn. Ég bíð líka spenntur eftir að sjá fyrstu afastelpuna taka þátt.  Það er ekki langt í það.  

Hákon Gunnarsson

Ps  Þorbjörg Helga Björgvinsdóttir – Leggið nafnið á minnið

image

Skipulagning dómgæslu er ekki einfalt mál.  Hér er Heðinn Gunnarsson annar tveggja dómarstjóra Símamótsins að störfum með sínu fólki 

image

Foreldrar úr Skallagrími í Borgarnesi voru kyrfilega merkt hlutverkum sínum 

image

Pistlahöfundur og Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar eru tengdir nánum vinaböndum úr námi, starfi og knattspyrnu.  Þeir voru dómarakollegar á Símamótinu.  

Það er mikil þekking á knattspyrnu hjá dómurum á Símamótinu.  Hér er þungavigt saman komin.

Frá vinstri:  Kjartan Antonsson og Kristófer Sigurgeirsson, báðir leikmenn Breiðabliks til margra ára.  Gísli Eyjólfsson, ein skærasta stjarnan í núverandi liði Breiðabliks telur það ekki eftir sér að mæta í dómgæslu hjá ungu konunum á sunnudagsmorgni.   Andrés Pétursson er einn reyndasti unglingadómari sem Breiðablik hefur átt og hann er formaður Blikaklúbbsins:

image

Til baka