BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður heimasigur í góða veðrinu á Kópavogsvelli

09.07.2023 image

Blikastúlkur tóku á móti Keflavík á Kópavogsvelli í gær á sólríkum laugardegi. Allt til fyrirmyndar á Kópavogsvelli í sólinni.

Leikurinn byrjaði rólega en Blikastúlkur voru ívið sterkari og héldu boltanum mun betur en Keflavík en þrátt fyrir það fengu Keflavíkurstúlkur nokkur upphlaup en sterk vörn Blika hélt aftur af þeim. Keflavíkurstúlkur héldu upp sterkri vörn í fyrri hálfleik og var markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað og sá fyrri, Blikastúlkur meira með boltann en náðu ekki að skapa sér góð færi. Það var ekki fyrr en á 51.mínútu sem varnir Keflavíkur voru brotnar á bak aftur. Hafrún Rakel átti góðan klobba sem náði til Öglu Maríu sem átti frábæra fyrirgjöf og Katrín Ásbjörnsdóttir setti boltann í markið! 1-0 fyrir Breiðablik og margir sem önduðu léttar við þetta mark.

Eftir markið héldu Blikar boltanum betur og reyndu að bæta við marki.

Katrín var svo aftur á ferð á 62.mínútu þegar hún stýrði fyrirgjöf Öglu Maríu í markið eftir frábært spil og Blikastúlkur komnar í 2-0!!

Ási þjálfari byrjaði síðan að hreyfa við liðinu og á 65.mínútu fóru markaskorarinn Katrín Ásbjörnsdóttir og fyrirliðinn Ásta Eir útaf og inn fyrir þær komu Andrea Rut og Hildur Þóra. Tíu mínútum seinna gerði Ási aðra tvöfalda breytingu en þá fóru Birta og Clara útaf og inn fyrir þær komu Vigdís Lilja og Írena.

Leikurinn var í góðum höndum þrátt fyrir fjórar breytingar og blikar alltaf aðeins sterkari. Keflavíkurstúlkur misstu svolítið neistann í seinni hálfleik og náðu ekki að ógna marki okkar stúlkna neitt að viti.

Rétt fyrir leikslok fór Agla María útaf og Hrafnhildur Ása kom inná fyrir hana á 84.mínútu.

Góður heimasigur hjá okkar stúlkum þennan laugardag. Nú tekur við smá landsliðspása og er næsti leikur okkar stúlkna 29.júlí á móti FH á Kaplakrikavelli og hvetjum við alla Blika til að koma og styðja okkar stelpur.

RBE

Myndaveisla frá BlikarTV: 

Til baka