BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Evrópa: Við erum mættar!

09.09.2021 image

09.09 17:00
2021
Breiðablik
Osijek
3:0
4
1
Evrópukeppni | 3. umferð - Undankeppni
Kópavogsvöllur | #

Við vissum það öll eftir leikinn úti í Króatíu að Breiðabliksstelpurnar eru betri en stöllur þeirra í ŽNK Osijek frá Króatíu. Það reyndist ekki alveg nóg í útileiknum en maður lifandi hvað þær sönnuðu það í leiknum á Kópavogsvelli nú seinni partinn. Lokatölurnar úr Smárakjördæmi voru 3-0 og endurspegla miklu betur yfirburði okkar kvenna en 1-1 jafnteflið úti.
Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu bíður. Í sama styrkleikaflokki og Breiðablik í riðladrættinum, sem verður á mánudag, eru nokkrir klúbbar sem við gætum hafa heyrst minnst á: Arsenal úr Lundúnaborg og svo tvö félög Söru Bjarkar, landsliðsfyrirliða og verðandi Blikamömmu, Lyon og Wolfsburg. Stelpurnar munu því ekki mæta neinu þessara liða í riðlakeppninni fram undan en þetta er félagsskapurinn sem Breiðablik spilaði sig inn í með sigrinum síðdegis.

image

Breiðablik er því með í fyrstu alvöru riðlakeppni nýrrar Meistaradeildar Evrópu. Hér er öll elítan sem Breiðablik er nú hluti af og það má vera býsna stoltur af minna tilefni en það.

Meiri sigurvilji – meiri geta

Alveg frá byrjun leiks var meiri einbeiting í þeim grænklæddu. Svolítið stress en þó meiri yfirveguð ákefð á boltann en andstæðingarnir sýndu. Það kom því ekkert á óvart að Breiðablik komst yfir á 9. mínútu þegar Hildur skoraði með einkar yfirveguðum hætti eftir lunkna stungusendingu Öglu Maríu.
Gleðikippurinn í stúkunni stóð enn þegar Taylor skellti tuðrunni út í markhornið utarlega úr teignum  mínútu síðar. Verkfræðingurinn við hliðina á mér var snöggur að reikna út að leikurinn myndi enda 18-0 með þessu áframhaldi. Það var nú samt ekki raunin og króatísku stelpurnar gerðu sig gildandi í framhaldinu og fengu fín færi, sérstaklega þegar Breiðablikskonur tóku upp á þeim óskunda að afhenda þeim boltann á silfurfati á varasömum stöðum á miðjunni eða í vörn. Einu sinni var til dæmis upp á því tekið að gefa stungusendingu á andstæðinginn, sem hefði verið rangstæð hefði sendingin komið frá samherja hennar. Þá stóð Telma sig hrikalega vel í markinu, takk!

Aldrei spurning

2-0 í hálfleik og spáð var í það yfir ölinu hvort þriðja mark leiksins myndi skilgreina það sem á eftir kæmi, eins og stundum gerist. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir því. Strax á 48. mínútu bjó Agla María, besta kona leiksins, sér til eitt af skotfærum sínum á vinstri kantinum. Skotið var á rammann og lak inn eftir að markmaðurinn króatíski hafði haft hendur á boltanum. Þetta mark virkaði þannig á króatísku gestina að þær virtust ekki hafa nokkra trú á verkefninu lengur og yfirveguð barátta Blikakvenna sigldi sigrinum í hús.

Ekki amalegur félagsskapur

Breiðablik er því með í fyrstu alvöru riðlakeppni nýrrar Meistaradeildar Evrópu. Hér er öll elítan sem Breiðablik er nú hluti af og það má vera býsna stoltur af minna tilefni en það.

Það voru hátt í þúsund manns sem mættu í stúkurnar í Kópavoginum í kvöld og tóku að sér hlutverk 12. konunnar á vellinum. Það veitti í raun ekki af. Á leikskýrslu Breiðabliks fyrir leik voru 14 leikmenn. Tvær eru farnar í fínan skóla í útlöndum, ein með slitin krossbönd, ein með Covid, önnur farin að spila úti eftir að tímabilið byrjaði þar og svo framvegis. Félagaskiptaglugginn er múraður aftur og því ekki einu sinni hægt að kalla konur sem verið hafa á láni. Augnabliksstelpurnar, sem reyndar eru, þegar þessi orð eru skrifuð, að berjast fyrir lífi sínu í Lengjudeildinni, mega ekki heldur koma heim til mömmu. Þetta verður að græja og það í grænum hvelli!

image image

Facebook minnti mig á það í morgun að á þessum degi, 9. dag septembermánaðar, árið 2014 vorum við verkfræðingurinn líka á vellinum. Það var á Laugardalsvellinum og þar var strákalandsliðið að spila við Tyrki í undankeppni EM. Manstu hvernig sá leikur fór? Jú, 3-0, og manstu hvert það ævintýri allt saman fór?

9. september er fínn dagur

Facebook minnti mig á það í morgun að á þessum degi, 9. dag septembermánaðar, árið 2014 vorum við verkfræðingurinn líka á vellinum. Það var á Laugardalsvellinum og þar var strákalandsliðið að spila við Tyrki í undankeppni EM. Manstu hvernig sá leikur fór? Jú, 3-0, og manstu hvert það ævintýri allt saman fór?

Ævintýri Breiðablikskvenna er rétt að byrja.

Eiríkur Hjálmarsson

Myndaveisla í boði BlikarTV

Til baka