BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

BLIKASTELPURNAR Í DAUÐAFÆRI MEÐ SÆTI Í MEISTARADEILD EVRÓPU

03.09.2021 image

01.09 16:00
2021
Osijek
Breiðablik
1:1
2
Evrópukeppni | 3. umferð
Stadion Gradski vrt | #

Stelpurnar okkar gerðu virkilega góða ferð til Króatíu þar sem við spiluðum við Osijek í annarri umferð Meistaradeildar Evrópu. Leiknum lauk með jafntefli þar sem okkar stelpur voru mun betri aðilinn í leiknum. Liðið er því í algjöru dauðafæri að komast í hina nýju riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvennaknattspyrnunni. 

image

Allur hópurinn sem fór til Króatíu nema ljósmyndarinn - Hemmi

Vilhjálmur þjálfari gerði tvær breytingar frá síðasta leik sem var við Keflavík fyrir viku. Þær Hildur Antonsdóttir og Taylor Marie Ziemer koma inn í liðið í stað Birtu Georgsdóttur og belgísku landsliðskonunnar Chloe Van de Velde sem var bara með samning út ágústmánuð. 

Eftir hógværa byrjun náðu Blikar  forystu þegar fyrri hálfleikurinn var rétt rúmlega hálfnaður. Hildur Antonsdóttir sendi stungu inn fyrir sem varnarmaður Osijek missti af og Selma Sól slapp í gegn hægra megin og kláraði yfirvegað í fjærhornið.

Skömmu síðar jöfnuðu þær króatísku illu heilli með sínu fyrsta skoti í leiknum. Markið var heldur slysalegt fyrir okkar konur. Ein sending í gegnum vörnina og sóknarmaður Osijek sleppur ein gegn Telmu og klárar mjög vel. Telma var komin svolítið langt út úr markinu og það var afskaplega auðvelt fyrir sóknarmann Osijek að jafna metin.

Okkar grænklæddu konur voru sterkari í fyrri hálfleiknum og hefðu alveg getað bætt við marki eða mörkum en oftar en ekki var það síðasta sendingin sem klikkaði. Í síðari hálfleiknum vorum við áfram við stjórn til að byrja með en mörkin létu þó á sér standa.

Um miðjan seinni hálfleik fóru heimakonur að gera sig líklegri og áttu leikinn svona korter áður en okkar stelpur náðu aftur tökum á leiknum það sem eftir lifði hans.

Þrátt fyrir að bæði lið hafi komið sér í góðar stöður og átt nokkur ágæt færi var samt ekkert skorað í síðari hálfleiknum og 1:1 jafntefli því niðurstaðan.

Okkur auðnaðist ekki að krækja í dýrmætan útisigur en þrátt fyrir það er veganestið gott fyrir síðari leikinn á Kópavogsvelli eftir rúma viku. Breiðablik átti að vinna þennan leik enda mikið betra lið og það sást vel en það þarf að nýta færin til að klára þetta. 

Með sigri í síðari viðureigninni kemst Breiðablik í nýja riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Það kallaði á leiki við mörg af sterkustu liðum Evrópu undir lok ársins, auk þess sem talsvert fé kæmi með þeim árangri stelpnanna. Í lýsingu á Fótbolta.net sagði lýsandinn frá því að ef marka mætti vefsíðu hins sænska Aftonblads fái félög um 400 þúsund evrur fyrir að komast í riðlakeppnina. Það eru tæpar 60 milljónir króna.

H2O

Til baka