BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar buðu til markaveislu í sólríkum bikarslag

27.05.2023 image

Byrjunarliðið var þannig skipað:

Andrea Rut – Taylor – Hrafnhildur Ása

Írena -Bergþóra Sól – Clara

Áslaug Munda – Elín Helena – Hildur Þóra – Ásta Eir

Aníta Dögg

Breiðablik verður í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna eftir 7-0 sigur á Lengjudeildarliði Fram á Kópavogsvelli í dag. Eftir vætutíð síðustu daga lék sólin við leikmenn og áhorfendur, sem sannarlega var bónus ofan á öruggan sigur.

Ásmundur þjálfari gerði átta breytingar frá síðasta deildarleik, sem var 3-2 sigur á FH, og ljóst að hann ætlaði að nota hópinn og gefa leikmönnum færi á að sanna sig. Má þar nefna að markvörðurinn Aníta Dögg spilaði sinn fyrsta leik með Blikum, en hún þurfti lítið að grípa inn í og var raunar á besta stað að fylgjast með markaveislu liðsfélaganna.

Draumabyrjun setti tóninn

Kaffið var ekki einu sinni farið að kólna í bollum áhorfenda í stúkunni þegar fyrsta markið kom, því ekki voru liðnar 30 sekúndur af leiknum þegar Andrea Rut kom Blikum yfir. Draumabyrjun, vægt til orða tekið. Það setti tóninn fyrir framhaldið, þar sem um algjöra einstefnu var að ræða.

Markvörður Fram varði þrívegis vel á næstu mínútum þar til stíflan brast á ný þar sem Clara skoraði eftir flottan undirbúning Taylor. Fyrirliðinn Ásta Eir bætti svo þriðja markinu við eftir rúmar 20 mínútur, og því nokkuð ljóst að áhorfendur gátu notið leiksins nokkuð áhyggjulausir í stúkunni. Taylor bætti svo við fjórða markinu undir lok fyrri hálfleiks, staðan 4-0 í leikhléi og staðan vænleg.

Engin afsláttur gefinn eftir hlé

Vigdís Lilja og Birta Georgs komu inn í hálfleik fyrir Taylor og Ástu Eir. Það riðlaði engu í góðum takti liðsins, og það voru rétt tvær mínútur komnar á klukkuna í síðari hálfleik þegar Clara var búin að skora annað mark sitt og fimmta mark Blika.

Um miðbik síðari hálfleiks komu Agla María og Karitas inn og mínútu síðar kom sjötta markið. Birta lagði það upp fyrir Hrafnhildi Ásu, sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Breiðablik. Þær áttu svo einnig sjöunda markið, sem sennilega skráist sem sjálfsmark, en skalli Hrafnhildar Ásu eftir sendingu Birtu fór af varnarmanni og í netið. Í kjölfarið kom Hafrún Rakel inn fyrir Áslaugu Mundu, og því fengu nánast allar að spila í dag.

Hópurinn vel nýttur og úrslit sem gleðja

Lokatölur voru sem áður segir 7-0 fyrir Blika, en það helsta sem hægt er að taka út úr þessum sigri er fyrst og fremst hvað takturinn var góður í liðinu. Vissulega voru gæðin í liði andstæðingsins ekki þau sömu og eru hjá Blikum, en það er samt ekki sjálfgefið að skora sjö mörk. Álagið dreifðist líka vel um liðið og þær sem komu inn skiluðu sínu vel.

Þetta skilar sér allt inn í hópinn fyrir næsta leik sem er úti gegn Selfossi í Bestu deildinni á miðvikudaginn klukkan 19.15. Leikirnir í 8-liða úrslitunum Mjólkurbikarsins eru svo spilaðir 15. og 16. júní.

AYV

image

Blikar TV Myndaveisla

image

Til baka