Bikarmeistarar, já Bikarmeistarar!
17.08.2025


Það var stór dagur í Laugardalnum í gær þegar Breiðablik og FH áttust við í bikarúrslitum kvenna. Þetta var í 44 sinn sem keppt var um titilinn og í 23 skipti sem við Blikar tókum þátt í honum, sem er í sjálfu sér galinn árangur. Andstæðingur okkar var hins vegar að taka þátt í þessum leik í fyrsta skipti.
Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bæði lið vorum mætt til að sækja bikarinn. Þetta eru tvö bestu lið landsins í dag og bæði frábær sóknarlið og strax á upphafsmínútunum áttu Blikar dauðafæri sem FH ingar náðu að verjast. Eftir það sótt FH stíft og eftir nokkrar hornspyrnur í röð náði Thelma Karen Pálmadóttir góðu skoti sem endaði í netinu og FH komið í forystu strax á 9 undu mínútu.
Eftir markið náðu Blikar að vinna sig inní leikinn og það var svo á 32 mínútu leiksins sem Blikar áttu góða sókn sem endaði á því að Berglind náði að koma boltanum á Samönthu sem skoraði gott mark og allt í járnum. Það sem eftir lifði hálfleiksins voru Blikar ívið sterkari en staðan í hálfleik jöfn.
Blikar byrjuðu seinni háfleikinn af krafti og fengu að minnsta kosti 3 dauðafæri á fyrstu 15 mínútunum en það var svo á 61 mínútu sem FH ná hraðri sókn og markaskorari þeirra frá í fyrri hálfleik Thelma Karen náði að koma boltanum í netið og FH aftur komið í forrystu.
Blikastelpurnar létu þetta ekki á sig fá og héldu áfram að þjarma að FH og á 67 mínútu skilaði það árangri þegar Birta náði að jafna leikinn með frábærri afgreiðslu stönginn inn.
Eftir þetta lifnaði yfir FH og þær áttu nokkur góð færi í kjölfarið
Á 78 mínútu gerði Nik tvær skiptingar þegar Hrafnhildur Ása og Kristín Dís komu inná fyrir Áslaugu Mundu og Birtu. Bæði lið fengu fín færi það sem eftir lifði leiks en inn vildi boltinn ekki og framlenging staðreynd.
Á 6 mínútu framlengingar kom Karitas inná fyrir Berglindi og strax í kjölfarið nær hún að vinna boltan af FH og á frábæra sendingu á Samönthu sem gerir engin mistök og skorar glæsilegt mark og kemur Blikum yfir í fyrsta sinn í leiknum,
Staðan eftir fyrri hluta framlengingar því 3-2 fyrir Blikum.
Í upphafi síðari hluta framlengingar komu Edith Kristín og Líf Joostdóttir van Bemmel inná fyrir Barbáru Sól og Andreu Rut.
Sóknarþungi FH jókst eftir því sem líða tók á framlenginguna og á lokamínútunum héldu þær að þær hefðu náð að jafna leikinn en markið var dæmt af vegna rangstöðu og sigur Blika staðreynd og 14 bikarmeistaratitill í hús.
Þetta var frábær úrslitaleikur tveggja frábærra liða en á endanum var sigur Blika sanngjarn, en það er ljóst að FH stelpur eiga eftir að veita okkur harða samkeppni í keppni um Íslandsmeistaratitilinn og ekkert svigrúm fyrir okkur að misstíga okkur í þeirri baráttu. Það var frábær stemming í Laugardalnum undir styrkri stjórn Kobacabana sem sáu til þess að stuðningsmenn létu vel í sér heyra allan leikinn. Frábær stuðningur. Áfram Breiðablik.
-B
Breiðablik er bikarmeistari kvenna í fótbolta 2025! Mörkin og fögnuðurinn eru hér! ????
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) August 16, 2025
Lag: Eitt fyrir klúbbinn - Herra Hnetusmjör pic.twitter.com/eYQ7sLcYkD