BREIÐABLIK STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sárt var það suður með sjó

04.05.2022 image

Mynd: Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum.

Það eru mörkin sem telja  

Grátlegt var það, svo vægt sé til orða tekið. Eins og í fyrra virðist duglegt Keflavíkurlið ætla að reynast erfitt viðureignar, en það var hreint með ólíkindum að fylgjast með 1-0 tapi suður með sjó.

Karitas kom inn í liðið vegna meiðsla Hafrúnar en annars var það óbreytt frá síðasta leik. Leikmenn hafa hugsað sér gott til glóðarinnar, horfandi á tap Vals fyrir norðan í gær. Uppskeran gegn Keflavík í fyrra var aðeins eitt stig, og því ekki síður tækifæri til þess að kveða niður allt tal um Keflavíkurgrýlu.

Þess vegna má einmitt ætla að leikmenn nagi sig þeim mun meira í handarbökin í kvöld og næstu daga.

Hnífnum snúið í sárinu

Það var hreint með algjörum ólíkindum að stelpunum hafi ekki tekist að skora í viðureign sem var einstefna allan leikinn. Markvörður þeirra átti vissulega stórleik, en þetta var einfaldlega einn af þessum dögum sem herslumuninn vantaði allan tímann.

Keflavík þurfti ekki nema eina hornspyrnu og klaufagang í teignum í kjölfarið til þess að skora sigurmarkið þvert gegn gangi leiksins. Það var sama hvað var reynt, og það var svo sannarlega reynt, að þá vildi boltinn ekki yfir línuna í marki Keflavíkur.

Vítaklúður Nathöshu á lokamínútu uppbótartímans, á gamla heimavellinum, var svo bara til þess að snúa hnífnum í sárinu.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum og tók meðfylgjandi myndir:

image

Ef og hefði

En það er ekki hægt að tala bara endalaus um öll þessi færi og um öll mörkin sem liðið hefði getað skorað, og hefði átt að skora, því það eru mörkin sem telja. Þrátt fyrir að þær séu allar harðduglegar fram á við og geta allar skorað mörk, þá vaknar aftur spurningin um það hver á að leiða markaskorun liðsins. Því svarið við þeirri spurningu liggur ekki í augum uppi svona í upphafi móts.

Jákvæðni eftir svona grátlegt tap? Það að fá magaskell í annarri umferð er kannski ágæt vakning. Maður verður bara að vona að hungrið eftir mörkum og viljinn til þess að svara fyrir þetta verði enn sterkari.

Nú er það bara áfram gakk gegn Stjörnunni á Kópavogsvelli eftir helgi; dauðafæri í grannaslag til þess að sýna hvað í liðinu býr. Og það skal nýta slíkt færi!

AYV

Umfjallanir annarra netmiðla.

Myndir frá leiknum í boði visir.is

Til baka