BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Vindar blása

23.09.2025 image

Það var aðeins á móti landsynningnum sem ég hjólaði vestan af Melum að óðalsbýli Valsmanna á Hlíðarenda síðdegis. Bíllausa deginum var þannig fagnað með umferðina úr miðbænum á vinstri hönd og tilvonandi golfvöll Valsmanna á þá hægri. Sem ég var að skipta niður um gír ítrekað í mótvindinum hugsaði ég til þess að það hefur nú ýmislegt verið strákunum okkar mótdrægt upp á síðkastið.

Meðganga hunds

Við höfum andskotann ekki unnið deildarleik frá 19. júlí. Það er svolítið lagt síðan. Þá var málþófinu á Alþingi nýlokið. Það hefur verið heilt eldgos á Sundhnúksgígaröðinni í millitíðinni. Það eru 65 dagar frá því Breiðablik vann síðast leik í deild. Þetta er algengur meðgöngutími hunda. Sjö leikir í röð án sigurs. Deildarleikir, höldum því til haga, því það eru bara tíu dagar í Sambandsdeildarleik sem strákarnir tryggðu sér með ágætum Evrópufótbolta síðustu vikur.

Forstöðumaður tölfræðideildar greiningarsviðs knattspyrnudeildar dró þessar upplýsingar af gömlum floppídiski sem fannst við hreingerningar í gömlu stúkunni. Miðað er við 2008 því þá var fyrst tólf liða deild. Hér sést árangurinn eftir 22 umferðir:

Þetta tuttugasta sumar Breiðabliksstráka í röð í efstu deild, annað sumarið sem liðið leikur verjandi Íslandsmeistaratitil, er semsagt lítillega undir meðallagi en undir meðallaginu í nánast öllum þessum þáttum. Þar sem það eru allar tölfræðilegar líkur á því að þú, ágæti lesandi, hafir meira vit á fótbolta en undirritaður, þá læt ég þér eftir frekari túlkanir.

Hugur í mannskapnum

N1 völlurinn og maður spurði sig fyrir leik hvort þetta yrði enn einn ?!*0-leikurinn. Þetta voru gaurarnir sem hófu leikinn.

Höskuldur, Kristófer, Damir, Tobias, Viktor, Anton, Ágúst, Óli, Viktor, Valgeir og Kiddi Jóns.

Okkar menn byrjuðu leikinn af meiri krafti en sést hefur upp á síðkastið. Það veitti heldur ekkert af (frekar en í fyrri leikjum). Valsmenn eru vanir og þótt maður sæi skelk í þeim í byrjun greip engin skelfing um sig.

Leikurinn jafnaðist aðeins þegar leið á hálfleikinn. Við meira með boltann en Valsarar hvassir. Þannig gekk sá hálfleikurinn. Sitt á hvað og tölfræði fyrri hálfleiksins var svona:

image

Þetta virkaði meira okkur í hag en tölurnar segja en kannski var það vegna þess að Kópakabana-gengið stóð sig með svo miklum sóma á hliðarlínunni. Þetta byrjaði eins og Palla-vagn í Gleðigöngu og stemningin glimrandi í því teymi allan leikinn.

Víti …

Seinni hálfleikurinn fór af stað ekkert ósvipað þeim fyrri. Hugur í Breiðabliki (sem ákvað að spila í vonhvítum búningum þennan daginn) og eftir tíu mínútur skilaði baráttan víti á Valsmenn. Pat í vörninni og Tobias tæklaður aftan frá. Augljóst víti, Höggi á punktinn og setur hann af öryggi í bláhornið.

0-1 er þá staðan og hálftími eftir.

(Þarna efst í Valsstúkunni, sunnanmegin, var síðan gott að standa og hafa pláss til að ganga fram og til baka í spennu leiksins. Það var ekki síðra að hafa selskap af Kidda og Aroni og hlera þeirra greiningu á leikstöðum. Auðvitað læt ég ekkert uppi um hver hún var enda teldust það njósnir.)

Valsmenn voru fljótari til að skella ferskum lærum inn á völlinn og sóttu talsvert í sig veðrið. Veðrið var samt ekkert að leika við þá því vindurinn henti hverri stungusendingunni á fætur annarri ekki á fersku fæturna heldur aftur fyrir endamörk eða út fyrir hliðarlínur vallarins.

Valsmenn voru samt nær því að skora og fengu betri færi. Þeir hlóðu líka inn fleiri óþreyttum ganglimum og ágengni þeirra var orðin nokkuð óþægileg. Mér fannst það vonum seinna að langt var gengið í 90 mínútur þegar fyrsta skipting í þessum baráttuleik var gerð okkar megin. Þá þurfti besti maður leiksins, hann Kiddi Jóns, að fara út af. Hann var búinn að vera algerlega frábær. Éta hvern rauðklædda gaurinn á fætur öðrum, vera svalur með boltann og finna snjallar sendingar – stuttar og lengri – allan leikinn.

… og svo helvíti

Manni stóð auðvitað ekkert á sama þegar Valsmenn fengur hvert hornið á fætur undir lokin og í afar rausnarlegum uppbótartíma, munandi klessuhornin þeirra á móti okkur frá því fyrr í sumar.

Það var samt alveg óþarfi hjá flautuleikara kvöldsins að gefa þeim horn þegar Valsmaður blakaði boltanum útaf með hendi. Það var líka óþarfi að dæma síðan hálfri mínútu síðar víti á Valgeir þegar boltinn fer í höndina á honum af 8,6 sentimetra færi uppúr þessu gjafahorni. Það minnti á gærkvöldið þegar Víkingar fengu víti fyrir að brjóta á andstæðingum sínum.

Það var afar slæmt að missa þetta niður í jafntefli. Loksins þegar almennileg barátta sást í liðinu sem virtist vera að skila árangri. Þetta er ekki að falla með strákunum og þeir bera talsverða ábyrgð á því sjálfir. Það væri helvíti súrt að missa af Evrópusæti, sérstaklega núna í aðdraganda Evrópuleikjanna.

Tölur leiksins

Þetta er orðinn svona talnapistill og skoðum þessar sem Sýn setti á skjáinn hjá sér í kvöld.

image

Liðið okkar sýndi meiri lit í þá átt að vinna leik en það hefur gert á móti slakari andstæðingum um hríð. Nú eru bara góðir andstæðingar framundan og það þarf að nýta baráttubyrinn úr þessum leik til afreka.

Ég hjólaði í meðvindi heim.

EHj.

Til baka