BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deild karla 2025 - Efri hluti: Valur - Breiðablik

20.09.2025 image

Það er brekka

Það er brekka hjá liðinu okkar sem hefur ekki verið sjálfu sér líkt undanfarið og árangurinn langt frá því sem stuðningsmenn eiga að venjast – sérstaklega árin eftir Covid. Frá fjölgun í 12 liða og 22. umferða deild árið 2008 er meðal stigaárangur okkar manna 38 stig. Staðan í ár er undir því meðaltali, eða 34 stig eftir 22 umferðir og önnur mælanleg tölfræði eru líka undir meðaltalinu. Þannig er þetta bara. Skiljanlega eru stuðningsmenn svekktir með þessa stöðu, enda mjög góðu vanir eftir sérstaklega farsæl 3-4 síðustu ár sem skiluðu tveimur Íslandsmeistaratitlum, bættu félagsmet í stigum og mörkum og hækkuðu Breiðabliks ránna svo um munar.

Næsti leikur

Besta deild karla 2025 - Efri hluti: Valur - Breiðablik á N1 vellinum á Hlíarenda á mánudagskvöld kl.19:15!

Miðasala er á: Stubbur

Staða Breiðabliksliðsins fyrir 23. umferðina í efri hlut Bestu deildar karla er 4. sæti og 34. Eftir brösótt gengi í síðustu umferðum er ljóst að Blikaliðið þarf að landa þremur stigum í baráttunni um að enda mótið í einu af þremur efstu sætunum.

image

Leikir gegn Val árið 2025

Fall er fararheill

Þrátt fyrir að Blikaliðið hafi skriplað á skötu í byrjun leiks tókst liðinu að koma til baka og sigra Valsmenn sanngjarnt 2:1 í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í gær. Með sigrinum tyllti liðið sér á topp deildarinnar því önnur úrslit í umferðinni voru okkur hagstæð. Það voru þeir Andri Rafn Yeoman og Óli Valur Ómarsson sem settu mörkin fyrir Blikaliðið í gær.....

Bitið í súrt!

Það var ekki að sjá að Blikar ættu að baki erfiðan útileik og langt ferðalag í vikunni því okkar menn hófu leikinn af gífurlegum krafti og vissu heimamenn hvorki í þennan heim eða annan í upphafi leiks. Blábyrjunin var endurtekning frá leiknum við Víking, þ.e.a.s. Tobias þrumaði boltanum útaf úr upphafsspyrnunni og Blikar settu svo pressuna á Valsliðið hátt uppi á vellinum. Þetta gekk vel, og reyndar svo vel að á þriðju mínútu fengu Blikar horn og sendu fyrir markið þar sem Damir kom á fleygiferð og skallaði fast í fjærhornið. Staðan 1 – 0 fyrir Blika. Flott mark...

Innbyrðis leikir í efri hluta 2022-2024

Dagur Dan vængstýfði Val!

Blikar unnu mjög góðan 2:5 sigur á Valsmönnum á Hlíðarenda í efru hluta Bestu deildar karla í gærkvöldi. Fremstur meðal jafningja var Dagur Dan Þórhallsson sem setti þrennu í leiknum. Þar af tvö mörk úr nánast alveg eins aukaspyrnum.

Einnig skoruðu Höskuldur Gunnlaugsson úr vítaspyrnu og Viktor Karl Einarsson sitt markið hvor. Sigur Blika var sanngjarn en hugsanlega aðeins of stór miðað við gang leiksins því jafnræði var með liðunum framan af leik. En við Blikar grátum ekki þessi úrslit og ætlum okkur að klára þetta mót með stæl þrátt fyrir að Íslandsmeistaratitillinn sé löngu kominn í hús!...

Keppinautar eða andstæðingar

Stutta sagan er að þetta var skemmtilegur leikur tveggja góðra, en ólíkra, liða - fyrir mig eins skemmtilegur og tapleikur getur orðið.  Og eins og ég hef nefnt áður vil ég frekar sjá skemmtilegan fótbolta en að safna stigum með einhverjum stórkarlabolta og tuddaskap, nokkuð sem hefur kannski verið meira áberandi í sumar en síðustu ár – og því miður skilað árangri...

Guð blessi Ísland

Það var þriggja stiga hiti og logn þegar lið Breiðabliks og Vals gengu inn á Kópavogsvöll. Og kannski við hæfi að Blikar mættu hinu kristilega félagi frá Hlíðarenda daginn sem Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland fyrir sextán árum. Blikar í svörtu. Valsmenn í rauðu

Liðið sem upphaflega hét Fótboltafélag KFUM hóf leikinn af krafti. Danski framherjinn þeirra lét þegar á fyrstu mínútu Anton Ara finna rækilega fyrir sér þegar hann keyrði inn í hann uppi við endamörk. Heiðarlegir varalesarar voru vissir um að hann hefði látið fylgja: „Fremad, Herrens stridsmænd; ud til kamp og sejr“. Einhver hefði kannski sett spurningarmerki við þann kristilega kærleika sem þarna birtist. „Helvíti pressa þeir,“ heyrðist í stúkunni. En þar með var eiginlega allur vindur úr KFUM-drengjum. Okkar menn tóku öll völd og létu skotin vaða. Það var allt að því óþægilegt að sitja í syðri hluta stúkunnar og snúa höfðinu stöðugt til norðurs þar sem allur atgangurinn var. Kvað jafnvel svo rammt að þessu að menn voru farnir að kvarta undan hálsríg...

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Vals í öllum mótum frá fyrsta leik eru 108. Valsmenn leiða í tölfræðinni með 45 sigra gegn 41 - jafnteflin eru 22. 

Efsta deild

Innbyrðis viðureignir liðanna í efstu deild eru alls 81. Valsmenn leiða 33 sigra gegn 31 - jafnteflin eru 17. Nánar

Útileikir gegn Val

Í 41 viðureignum liðanna á Valsvelli leiðir Valur 19 siga gegn 14 - jafnteflin eru 8. Nánar.

Leikir liðanna eru oft miklir markaleikir. Samtals skora liðin 249 mörk í 81 efstu deildar leikjum - Valsmenn með 127 mörk gegn 122 mörkum Blika.

Leikmannahópurinn

Anton Ari Einarsson á að baki 36 meistaraflokksleiki með Valsmönnum. Aron Bjarnason á 21 leiki með Val sem lánsmaður frá Újpest. Birkir Jakob Jónsson var hjá Breiðabliki árið 2021. 

image

Leikmannahópur Breiðabliks

Breiðabliksteymið: Halldór Árnason er aðalþjálfari Breiðabliksliðsins. Aðstoðarþjálfari er Arnór Sveinn AðalsteinssonEiður Eiríksson er transition þjálfari. Stryrktarþjálfari er Helgi GuðfinnssonHaraldur Björnsson er markmannsþjálfari liðsins. Sjúkraþjálfari er Særún Jónsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Kristinn Orri Erlendsson er nuddari liðsins. Liðsstjórar eru Brynjar Dagur Sighvatsson og Dagur Elís Gíslason.

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki leiksins er fædd i júlí 1988, ólst upp í Fagrahjalla í austurbæ Kópavogs þar til ég var 16 ára og flutti þá á Kársnesið og hef verið þar utan þriggja ára þegar ég var í Háskóla. Bý núna á Kársnesi með Kristófer Leifssyni ásamt börnum okkar þremur Áróru, Albert og Matthildi og hundinum Kviku. Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og vann við hjúkrun í nokkur ár á meðan ég var í námi og eftir útskrift. Maðurinn minn og bróðir minn stofnuðu fyrirtækið Eldum rétt og vann ég þar sem markaðsstjóri núna síðustu 10 ár. Í lok maí tók ég við sem markaðsstjóri Breiðabliks og þó að starfið sé að mörgu leyti ólíkt þá finn ég  sömu orku innan Breiðabliks og frumkvöðlafyrirtækis. Allir sem að starfinu koma hafa mikla ástríðu, áhuga og metnað. Þetta er fjölbreytt og skemmtilegt starf að sinna markaðsmálum Breiðabliks enda eru þar 13 deildir sem allar vinna virkilega flott og metnaðargjarnt starf. Ég hef alltaf lagt stund á íþróttir. Ég var lengst af í fimleikum, ballet og dansi en hafði þó líka áhuga á boltaíþróttum og æfði bæði handbolta og fótbolta um tíma. Nú hef ég lagt ballet- og takkaskóna á hilluna, tekið upp hlaup eins og svo margir. Það er fátt betra en hlaup í góðra vina hópi úti í náttúrunni.

Börnin mín þrjú æfa öll bæði knattspyrnu og körfubolta hjá Breiðablik og hef ég því fengið að kynnast starfi þessara deilda frá sjónarhorni foreldris. Ég hef einnig mikinn áhuga á forvarna- og lýðheilsustarfi og þar spila íþróttir stóran þátt. Breiðablik er stærsta íþróttafélagið, það er framsækið og er í fararbroddi á sviði íþróttaþjálfunar. Þar er margt afreksfólk sem eru frábærar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur í öllum deildum.

Hrafnhildur Hermannsdóttir - Hvernig fer leikurinn?

Breiðablik hefur staðið sig vel á móti liðum í efri hluta deildarinnar þrátt fyrir erfitt gengi síðustu vikur. Þetta verður í öllu falli hörku leikur  og mikil spenna líkt og síðasti leikur Breiðabliks á Hlíðarenda. Ég býst ekki við öðru en að við vinnum þennan leik og spái okkur sigri; Valur-Breiðablik 0-1.

Áfram Breiðablik!

SpáBlikinn Hrafnhildur Hermannsdóttir og Áróra í stúkunni á Breiðabliksleik.

Dagskrá

Flautað verður til leiks á N1-vellinum á Hlíðarenda á mánudagskvöld kl.19:15!

Miðasala er á: Stubbur

Sýn Sport sýnir leikinn fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Mætum öll í stúkuna á Hlíðarenda  og hvetjum okkar menn til sigurs. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

PÓÁ

Klippur úr leik liðanan á Kópavosgvelli í lok maí á þessu ári. 

Til baka