BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stöngin út gegn Stjörnunni

31.07.2023 image

Blikar urðu að sætta sig við 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni á Kópavogsvelli á laugardagkvöldið. Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur en seinni hálfleikurinn var eins og besta hasarmynd. Bæði lið blésu til sóknar og var hætta nánast í hvert skipti sem knötturinn nálgaðist markteiga beggja liða. En okkar drengir náðu því miður ekki að nýta mörg góð marktækifæri og því urðum við að sætta okkur við skiptan hlut.

Stjarnan spilaði mjög fast gegn okkur og greinilegt að stefnan var að taka okkur á taugum. Gestirnir stíluðu á að okkar drengir myndu kveinka sér og halda aftur af sér af ótta við að lenda ekki í meiðslum vegna þátttöku okkar í Evrópudeildinni. En sem betur er seigla í Blikaliðinu og menn voru ekkert að hoppa upp úr tæklingum. Stjörnumennirnir voru hins vegar klaufar í sínum árásum og eftir aðeins 20 mínútur voru þrír þeirra komnir með gult spjald. Áttu margir þá von á því að þessi vitleysa myndi halda áfram. En sem betur sáu gestirnir að þessi taktík var ekki að ganga upp og smám saman snéru þeir sér að því að spila venjulegan fótbolta. Reyndar bættu þeir tveimur gulum spjöldum í sarpinn en sem betur fer sá engin rautt í leiknum.

Jason Daði Svanþórsson kom inn á völlinn eftir leikhléið og átti eftir að hafa mikil áhrif á gang mála. Sóknarleikur okkar batnaði til muna og var reyndar ótrúlegt að við skyldum ekki skora 5-6 mörk í hálfleiknum. En gestirnir skoruðu fyrst eftir að vörnin sofnaði eitt andartak. Jason Daði sá hins vegar að við náðum þó einu stigi með því að skora gullfallegt mark.

78. mín Mark !!! Jason Daði mokar boltanum í markið eftir stoðsendingu frá Kristni Steindórs. Staðan 1:1. 

image

Þrátt fyrir margar gullnar stöður og örfá tækifæri gestanna þá sáu ekki fleiri mörk dagsins ljós. Auðvitað eru þessi úrslit ákveðin vonbrigði en við verðum að líta á björtu hliðarnar. Sóknarleikur okkar var glimrandi en einungis vantaði að reka endahnútinn á sóknirnar. Þetta sýnir að okkur eru allir vegir færir í næstu leikjum. Nú opna menn aftur Evrópuskúffuna og það verður gaman að fylgjast með strákunum okkar í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka