BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Besta deildin 2023: Breiðablik - Stjarnan

26.07.2023 image

Breiðablik - Stjarnan

Það er þétt leikjaprógramið hjá karlaliði Breiðabliks þessa dagana. Leikur í undankeppni Meistaradeildarinnar í gær, þriðjudag. Næsti leikur í Bestu deildinni er við Stjörnumenn á laugardag. Og svo aftur leikur í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. 

Flautað verður til leiks í Bestu deildinni gegn Stjörnunni á laugardagskvöld kl.18:15!

Miðasala á leikinn er á Stubbur. Stubbur

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Staða Blika í Bestu deildinni fyrir leikinn gegn Störnumönnum:

image

Sagan & Tölfræði

Keppnisleikir Breiðabliks og Stjörnunnar frá upphafi (1970) eru 69. Blikar með yfirhöndina: 32 sigrar gegn 26 – 11 jafntefli

Efsta deild

Innbyrðis leikir liðanna í efstu, fyrst árið 1991, eru 37. Staðan er okkar mönnum í vil með 20 sigra gegn 10 - jafnteflin eru 7.  Markaskorun í þessum 37 leikjum er: Breiðablik 77 Stjarnan 50.

Síðusu 5 leikir í efstu deild gegn Stjörnunni á Kópavogsvelli:

Leikmannahópurinn

Aðalþjálfari gestaliðsins, Jökull Ingason Elísarbetarson, hefur spilað í grænu Breiðablikstreyjunni. Jökull lék 116 mótsleiki með Blikum á árunum 2010-2013. Jökull varð Íslandsmeistari með Blikaliðinu 2010. Uppalinn Bliki, Guðmundur Kristjánson, leikur nú með Stjörnunni. Guðmundur spilaði 136 mótsleiki og skoraði 36 mörk með Breiðabliki á árunum 2006-2012 og var sterkur póstur í Bikarmeistaraliði Breiðabliks 2009 og Íslandsmeistaraliðinu 2010. Og Sindri Þór Ingimarsson er uppalinn hjá Breiðabliki. 

Í þjálfarateymi Breiðabliks er það Eyjólfur Héðinsson sem leikið hefur með Stjörnumönnum en hann á 126 leiki að baki með Garðabæjarliðinu á árunum 2016 – 2021.

Óskar Hrafn Þorvaldsson er aðalþjálfari meistaraflokks karla. Óskar hefur stýrt liðinu frá árinu 2019. Halldór Árnason er aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2019. Valdimar Valdimarsson er markmannsþjálfari liðsins. Hann tók við því starfi af Ólafi Péturssyni. Aron Már Björnsson er styrktarþjálfari liðsins síðan 2016. Aron er íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Eyjólfur Héðinsson hefur verið ráðinn sem afreksþjálfari hjá elstu flokkum karla í Breiðabliki. Eyjólfur mun einnig vera í þjálfarateymi meistaraflokks karla, þar sem hann mun halda utan um aðlögun yngri leikmanna inn í meistaraflokkshópinn. Í sjúkraþjálfarateyminu eru þær Særún Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir frá Sjúkraþjálfuninni Sporthúsinu. Marinó Önundarson og Alex Tristan Gunnþórsson eru liðsstjórar.

image

Stuðningsmaðurinn

SpáBliki 17. umferðar er fæddur og uppalinn í Austurbæ Kópavogs og byrjaði að æfa knattspyrnu með félaginu árið 1990, þá 6 ára gamall. Blikinn spilaði upp alla yngri flokka félagsins í sterkum og sigursælum árgangi þeirra sem fæddir voru 1984. Árgangurinn var sá efnilegasti sem Blikar höfðu átt síðan 1976 árgangur félagsins kom upp og þrátt fyrir að hafa unnið allt galleríið upp yngri flokkana þá skiluðu fáir sér inn í meistaraflokk félagsins til lengri tíma.

image

Blikinn var 2 ár í meistaraflokki Breiðabliks 2004 og 2005 og þrátt fyrir að tækifærin með liðinu voru af skornum skammti þá hvarflaði aldrei að honum að fara á lán eða að skipta yfir í annað félag. Það var svo í fyrsta leik tímabilsins 2005 sem að langþráður draumur Blikans varð uppfylltur er hann spilaði sinn fyrsta keppnisleik með meistaraflokki félagsins. Breiðabliks liðið árið 2005 var sterkt og skemmtilegt lið sem fór ósigrað í gegnum tímabilið í 1.deild. Leikir Blikans það tímabil urðu samtals 3 en Blikinn hélt til Bandaríkjana í Háskólanám undir lok tímabilsins.

Ljóst var að nýr þjálfari Breiðabliks, Ólafur Kristjánsson, hafði takmörkuð not fyrir Blikann og hófst þá nýr kafli hjá Augnablik sem hafði verið endurvakið árið áður af Pétri Ben og Guðjóni Má. Hákon Sverrisson þjálfaði liðið fyrstu árin og stigu fjölmargir ungir Blikar sín fyrstu skref í meistaraflokki með Augnablik á þessum árum og áttu svo eftir að eiga farsælan feril, síðar meir, með Breiðablik. Þar ber helst að nefna Alfreð Finnboga, Hauk Baldvins, Elfar Freyr, Viktor Orri, Sverrir Ingi ásamt lykilmönnum Blikaliðsins í dag þeim Höskuldi Gunn og Gísla Eyjólfs. Blikinn tók við formennsku í Augnablik af Guðjóni Má þegar halla fór undan fæti á knattspyrnuvellinum og sinnti því hlutverki eða öðrum stjórnarstörfum í félaginu til ársins 2018.

image

2. fl. Breiðabliks 2003

Í formennskutíð Blikans hjá Augnablik hófst hið skemmtilega Galácticos tímabil Augnabliks þar sem liðið var skipað ýmsum gömlum kempum í bland við unga blika. Að loknu tímabilinu 2016 var horfið frá hugmyndafræði Galátcticos og Jökull Elísabetarson tók við sem þjálfari félagsins og samhliða var snúið til baka í aukið samstarf með Breiðablik. Jökull var að lokum keyptur fyrir metfé yfir í Garðabæinn og er nú aðalþjálfari Stjörnunar.

image

Galácticos lið Augnabliks

Blikinn hefur verið fastagestur á Kópavogsvelli frá 1991 og á yfir 60 leiki sem boltasækir á hjá félaginu á yngri árum.

Sigurjón Jónsson - Hvernig fer leikuinn?

Ég spái leiknum gegn Stjörnunni 4-3 fyrir Breiðablik þar sem Klæmint Olsen skorar þrennu og Davíð Ingvarsson eitt óvænt mark í lokinn. Jökull þjálfari Stjörnunar fær rautt spjald á meðan leik stendur fyrir dómaratuð.

Áfram Breiðablik!

image

Sigurjón Jónsson SpáBliki leiksins að grilla með Willum fyrir leik Blika gegn Val.

Dagskrá

Græna stofan opnar upp úr kl.17:00, börger á grilli, rjúkandi kaffi og góðmeti í sjoppunni. 

Miðasala á Stubbur app: Stubbur

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli á laugardag kl.18:15! 

Leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. 

Áfram Blikar! Alltaf - alls staðar!

Svipmyndir frá heimsókn Stjörnumanna á Kópavogsvöll í úrslitakeppninni í fyrra:

image

Grafík: Halldór Halldórsson

Til baka